04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

379. mál, lán til íbúðarhúsabygginga bænda

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. þessi svör. Í þeim fólst það, sem mig grunaði, að það væru allmiklu strangari reglur hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins en hjá húsnæðismálastjórn varðandi útborgun síðari hluta lánanna. Tel ég, að þetta sé ekki nógu gott. Ég tel að bændur eigi þarna sömu heimtingu og aðrar stéttir á að fá sín lán greidd. Það leiðir reyndar hugann að því, hvort húsnæðismálastjórnarkerfið ætti ekki einnig að annast þessi lán til bænda, þannig að öll íbúðarhús í landinu féllu undir löggjöfina um húsnæðismálastjórn. Ef þarna er um einhvern mismun eða misrétti að ræða í garð bændastéttarinnar, hygg ég, að það sé fyllilega tímabært að athuga, hvort þetta eigi ekki hreinlega að færast yfir á hið almenna kerfi. Ég tel, að þarna sé um töluverðan mun að ræða í sambandi við það að fá lánin fyrr, og þetta kemur sérstaklega hart niður á þeim mönnum, sem hafa ekki mikil fjárráð og eiga þess vegna í erfiðleikum með að fullgera sín hús. Á hinum bitnar þetta miklu síður, og því er enn meiri ástæða til að óska eftir því, að þarna verði hins fyllsta jafnræðis gætt.