25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

347. mál, landhelgismál

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv, utanrrh., fyrir svörin, sem ég tel alveg fyllileg varðandi fsp.

En ég veit það, og það eru allir þm. inni á því, að það er nokkur munur á því og raunverulega mikill munur, hvort við höfum de facto viðurkenningu eða de jure. En ég vildi aðeins fá fram, að það lægi á hreinu, að allmörg ríki, sem ég geng þá út frá miðað við svar, hafa veitt okkur de jure viðurkenningu, því að það er nokkurs virði, tel ég sjálfur, að hafa slíkt. En það mun kannske upplýsast seinna, hvaða ríki hafa veitt okkur slíka viðurkenningu, og við getum þess vegna vænst þess, að þau ríki standi fast með okkur í rétti okkar til að ná sem mestri landhelgi á þeim vettvangi, sem þau mál verða rædd meðal alþjóða.

Að öðru leyti er 3. spurningin þess eðlis, að með þeirri skýringu, sem hæstv. ráðh. gaf, liggur það ljóst fyrir, að grg. verði samin. En ég skildi hann samt ekki þannig, að það væri orðið ákveðið, hvort Alþjóðadómstólnum yrði send grg., en engu að síður er mikill tími, því að við höfum frest til miðs jan. 1974.