04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

382. mál, fjármagn og fjármagnsöflun til niðursuðuverksmiðja

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Háttv. 3. landsk. þm. tók satt að segja heldur vægt til orða og ég vil segja óvenju vægt, þegar hann sagði, að lánamál lagmetisiðjunnar væru í nokkrum ólestri. Ég held, að þau séu í ákaflega miklum ólestri, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, og hann lýsti óánægju sinni með.

Hæstv. iðnrh. hafði frumkvæði að því fyrir tveimur árum, að undirbúin var og síðan samþykkt löggjöf um Sölustofnun lagmetis og þar með skapaður algjörlega nýr grundvöllur fyrir þennan mikilvæga atvinnuveg, sem átti að tryggja betri framgang hans með sameiningu eða sameiginlegu átaki, eins og þörf er fyrir margar okkar litlu atvinnugreinar. Lánamálin hafa því miður ekki fylgt á eftir. Þetta er margendurtekin reynsla. Byggðasjóður hefur fengið slíkar umsóknir og hefur lánað til þessara mála, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. Hins vegar eru það verkefni Byggðasjóðs að veita viðbótarlán, þar sem þörf krefur, en það hefur staðið á afgreiðslu hjá öðrum lánasjóðum, sem eiga að veita grundvallarlánin, fyrst og fremst vegna þess, eins og fram kom, að ekki er ljóst, hver á að sinna því verkefni.

En ég vildi ekki síður gera það að umræðuefni í þessari stuttu aths., að fram hefur komið, hygg ég, við flesta, sem leitað hafa til banka þessa lands til fyrirgreiðslu í sambandi við lagmetisiðjuna, ákaflega mikill skilningsskortur hjá bankastjórum á mikilvægi þessarar atvinnugreinar og þeirri endurskipulagningu, sem á hefur orðið, og hafa þar ekki fengist þau lán, sem eðlileg eru.