04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

382. mál, fjármagn og fjármagnsöflun til niðursuðuverksmiðja

Heimir Hannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka þann skilning, sem hæstv. ráðh. sýndi í yfirlýsingu sinni og einnig áhuga hins nýja flokksformanns. Ég held, að það sé ekki of oft á það bent, þegar lánsumsóknir berast frá nýjum aðilum, að í landinu eru 20 niðursuðuverksmiðjur, og það er sannarlega þörf á því, að þær verði fleiri, miðað við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru. Mikill hluti þeirra verksmiðja, sem um ræðir, er búinn gömlum og einhliða framleiðslutækjum í ófullkomnum húsakynnum, og væri jafnkostnaðarsamt að endurbyggja þær og að reisa þær frá grunni. Það er því óhjákvæmilegt að fylgja eftir þeirri stefnu, sem mótuð var með lögum um Sölustofnun lagmetis frá síðasta ári.

Eins og kom fram í svari iðnrh. hér áðan, er engin stofnun í landinu né lánasjóður, sem á beinar skyldur við uppbyggingu lagmetisiðnaðarins, og engin lánastofnun, sem hann fellur beint undir. Það er því fyllilega tímabært að átta sig á því, hvort hér er um að ræða sjávarútveg eða iðnað, og er vonandi, að ákveðinnar stefnumörkunar sé að vænta í þeim efnum í framkvæmd. Það nær ekki nokkurri átt, að lagmetið borgi 6½% í sjávarútvegssjóði, en fái engin lán úr þeim sjóðum, og miklu eðlilegra, að lagmetið gangi í heild inn í iðnlánasjóðskerfið og greiði sín iðnlánasjóðsgjöld. Ljóst er, að það er nauðsynlegt að stíga það skref enn lengra en stigið var með l. um Sölustofnun frá síðasta ári.