04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

383. mál, erlent hráefni til lagmetis

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Þessi spurning, sem er í fjórum liðum á þskj. 141, varðar öll eitt og hið sama, þ. e. a. s. erlent hráefni til lagmetis. Það er rétt, að ég lesi þessa liði upp.

„1. Hver hefur haft forustu um hráefniskaup erlendis frá á þessu ári fyrir Siglósíld, Norðurstjörnuna og K. Jónsson & Co., Akureyri?

2. Hvað hefur verið keypt mikið hráefni erlendis, og hvernig skiptist það á milli ofangreindra verksmiðja?

3. Í hvaða gæðaflokki hefur þetta erlenda hráefni verið, og hver hefur eftirlit með innflutningi þess, að því er varðar gæði og hollustu?

4. Er trygging fyrir því, að þetta hráefni gefi okkur samkeppnisaðstöðu á þeim hefðbundnu mörkuðum, þar sem Sölustofnunin er að leita fyrir sér um sölu á íslensku lagmeti?“

Ástæðurnar fyrir þessari spurningu eru í fyrsta lagi hráefnisskortur verksmiðjanna og í öðru lagi, að ljóst er, að þessar verksmiðjur hafa oft og tíðum orðið að sætta sig við að kaupa afar lélegt hráefni erlendis frá.

Vandamálið er slíkt, eins og þingheimur vafalaust veit, að sumar verksmiðjurnar hafa ekki getað haldið uppi árlegri starfsemi sinni vegna hráefnisskorts og orðið að fella hana niður hluta af árinu, og á það bæði við um Siglósíld og Norðurstjörnuna.

Þá hefur mér verið tjáð, að Norðurstjarnan hafi t. d. tekið fryst síldarflök, 600–700 tonn, það sem af er þessu ári, frá norska fyrirtækinu Johan Stangeland í Stavanger, og síðasta sendingin, sem var alls 400 tonn, var mjög lélegt hráefni. Um 20 tonn af því fékk niðursuðuverksmiðja Egils Stefánssonar á Siglufirði og 60 tonn fékk K. Jónsson á Akureyri. Afganginn tók svo Norðurstjarnan. Nýting var mjög slæm hjá öllum verksmiðjunum, þar sem þetta var 2. til 3. flokks hráefni, auk þess, sem beinar skemmdir voru vegna lélegrar frystingar á hráefninu í Noregi.

Siglósíld hefur fest kaup á um 1000 tunnum og K. Jónsson um 2500 tunnum af kryddsíld í Færeyjum. Þetta er víst mjög smá síld og miður góð til niðurlagningar á gaffalbitum eða kryddsíldarflökum í dósir.

Undanþága til síldveiða hér við land var ekki veitt þessum verksmiðjum, og af þeim sökum urðu þær að reyna fyrir sér með kaup á síld erlendis. Einnig var reynt að kaupa kryddsíld í Noregi og Kanada, en tókst ekki, þar sem síldin var of léleg.

Óvíst er samkv. lögum, hver eigi að hafa með höndum hið opinbera eftirlit með innflutningi á kryddsíld í tunnum og hraðfrystri síld. Það hagar svo undarlega til. að við höfum trausta skoðun, þar sem er Síldarmat ríkisins og Fiskmat ríkisins, sem lúta að eftirliti með útflutningi. En þá vaknar spurningin: Hvaða aðili á að tryggja, að það hráefni, sem keypt er erlendis frá, sé að þeim gæðaflokki, að unnt sé að stuðla að heilbrigðri samkeppni á þeim mörkuðum, sem Íslendingar eru að sækja inn á erlendis?