04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

383. mál, erlent hráefni til lagmetis

Heimir Hannesson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh. og hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að hér er vissulega um mjög mikið vandamál að ræða. Af þessum 16 þús. tunnum, sem ætlað var að fá, er eingöngu búið að fá 3500 tunnur af kryddsíld. Og miðað við núverandi aðstæður er eins gott, að menn átti sig á því, að það eru mjög alvarlegir tímar fram undan hjá þeim verksmiðjum, sem ætluðu sér að vinna þessa vöru.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég hef ekki enn þá heyrt frambærileg rök fyrir því frá opinberum aðilum og viðkomandi rn., að þrátt fyrir eðlileg verndarsjónarmið var ekki a. m. k. athugað betur og skýrt og rökstutt nánar, hvers vegna var ekki mögulegt að veita undanþágu fyrir það sáralitla magn, þetta litla brot, sem hefði þurft til að halda þessum verksmiðjum í gangi til að tryggja þeim áframhaldandi framleiðslu og áframhaldandi sölu á þessu og e. t. v. hluta af næsta ári. Ég hef ekki heyrt þau rök enn þá og hefði gaman af að fá að heyra þau, því að hér er vissulega um mjög alvarlegt mál að ræða, sem þyrfti að ræða og. skýra nánar.