04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

384. mál, Sölustofnun lagmetis

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Í framhaldi af þessu, hef ég borið fram fsp. varðandi Sölustofnun lagmetis, og er hún tvíliðuð og hljóðar þannig:

„1. Hver hefur söluárangur Sölustofnunar lagmetis orðið á fyrsta starfsári hennar, þ. e. hefur orðið aukning á magni útflutts lagmetis og hafa ný markaðslönd opnast fyrir atbeina Sölustofnunarinnar, frá því að hún hóf starfsemi sína?

2. Hefur afkoma lagmetisiðnaðarins batnað við tilkomu Sölustofnunar lagmetis, þ. e. hafa hagkvæmari sölusamningar fengist?“

Ástæður fyrir þessari fsp. eru af ýmsum toga. Sú fyrsta, þegar maður blaðar í hagskýrslum, kemur í ljós, að útflutningur í tonnum hefur sáralítið vaxið á árunum 1968–1972. Að vísu hefur verðmæti útflutnings lagmetis aukist í millj. kr., en það stafar þá verulega af breyttu gengi og hækkun verðs. Það má segja, að verðmæti útflutts lagmetis hafi á undanförnum árum vaxið lítið miðað við heildarútflutning sjávarafurða, og má í því sambandi nefna t. d. eftirtaldar hlutfallstölur: 1968 er það 1.5% og 1971 er það 1.6%. Það virðist því ekki hafa orðið mikill árangur, þegar litið er á magn í tonnum. Samningar Sölustofnunarinnar við ýmsa aðila virðast ekki benda til þess, að árangur hafi orðið mikill í þessum efnum. Það, sem skiptir kannske mestu, er að afkoma niðursuðuverksmiðjanna hefur sýnilega ekki batnað frá því, sem áður var, þegar hver verksmiðja seldi framleiðslu sína sjálf.

Það virðist svo sem engin ný markaðslönd hafi opnast enn þá. Sölustofnunin hefur að því er virðist aðallega verið að selja gömlum viðskiptavinum, sem verksmiðjurnar höfðu áður selt til sjálfar.

Ég vænti þess, að hæstv. iðnrh, geri nokkra grein fyrir þessum atriðum varðandi Sölustofnun lagmetis.