04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

384. mál, Sölustofnun lagmetis

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Áður en ég vík að þessum spurningum, vil ég segja nokkur orð um það, sem hv. þm. Heimir Hannesson sagði hér áðan, að hann skildi ekki, hvers vegna ekki hefði verið mögulegt að veita undanþágu til veiða á síld við Ísland. Hér er um að ræða mat íslenskra fiskifræðinga, eins og allir vita. Þeir hafa einróma lagst gegn því, að nokkrar heimildir yrðu veittar til síldveiða við Ísland.

Ég hélt, að það væri alkunna, að allir síldarstofnar á Norður-Atlantshafi eru svo illa á sig komnir, að það er hætta á því, að þeir hverfi með öllu. Íslenski síldarstofninn er eini stofninn á Norður-Atlantshafi, sem nú er í vexti, og sá vöxtur á síldarstofninum er afleiðing af þessum hörðu friðunaraðgerðum okkar Íslendinga. Ég hygg, að það sé afstaða fiskifræðinganna, að það megi ekki slaka til á þessu sviði enn sem komið er, en það sé bersýnilega fram undan, að við getum farið að nýta þessa stofna á nýjan leik.

En fsp. hv., þm. er: „Hver hefur orðið söluárangur Sölustofnunar lagmetis á fyrsta starfsári hennar, þ. e. hefur orðið aukning á magni útflutts lagmetis og hafa ný markaðslönd opnast fyrir atbeina Sölustofnunarinnar, síðan hún hóf starfsemi sína.“

Ef litið er yfir fyrstu 9 mánuði ársins 1973, er bersýnilegt, að mjög góður árangur hefur orðið af starfsemi Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins og það á sama tíma og ytri aðstæður hafa verið með eindæmum óhagstæðar sölustarfi hennar. Tölur sýna, að í septemberlok s. l. var Sölustofnun lagmetisiðnaðarins búin að ná heildarúfflutningsverðmæti alls ársins 1972. En þetta segir ekki alla söguna. Á árinu 1972 var flutt út lagmeti til Sovétríkjanna fyrir 151 millj. kr., en heildarútflutningur á lagmeti nam þá 229 millj. kr. Vegna skorts á kryddsíld til gaffalbitaframleiðslu nemur útflutningur til Sovétríkjanna á þessu ári ekki nema 75–80 millj. kr., en það er ekki nema um helmingur af útflutningi ársins 1972. Séu Sovétríkin tekin út úr heildarútflutningstölum, kemur í ljós mun hærri prósentuaukning á sölu til annarra markaðssvæða. Útflutningsskýrslur sýna, að söluaukning á öðrum mörkuðum en Sovétríkjunum fyrstu 9 mánuði ársins 1973, miðað við sama tímabil í fyrra, nemur 250%. Ástæðan fyrir þessum samdrætti á sölu til Sovétríkjanna er ekki í neinum tengslum við Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, heldur stafar einfaldlega af hráefnisskorti, og ég þekki ekki nokkurn mannlegan mátt, sem getur vegið þau náttúrlegu áföll upp.

En ástæðan fyrir þeirri aukningu, sem orðið hefur á öðrum mörkuðum, er í sumum tilvikum, að opnast hafa ný markaðssvæði og orðið umtalsverð aukning á öðrum, þótt enn sé mikið markaðsstarf óunnið. Sem dæmi um nýja markaði má nefna Ítalíu og Spán, mikla söluaukningu í Frakklandi, en til þessara landa hefur aðallega verið seldur kavíar og þorsklifur. Í Bretlandi hefur náðst meira en tvöföldun sölu miðað við s. l. ár fyrir tilstilli Sölustofnunarinnar. Til Bretlands eru aðallega seld þorskhrogn. Þá hefur opnast nýr markaður í Bandaríkjunum fyrir rækju, og innflutningur á lagmeti er hafinn til Kanada. Mestur árangur hefur þó náðst í Japan, en þangað hefur verið selt í ár lagmeti fyrir 21 millj. kr., og liggur þegar fyrir pöntun á loðnu á árinu 1974 að upphæð 80 millj. kr., en sala þangað á árinu 1974 gæti orðið mun meiri en þeirri upphæð nemur. Árangur fyrstu 9 mánuði þessa árs sýnir, að ástæða er til að vænta verulegs árangurs af starfi Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins í framtíðinni að mínu mati.

Í annan stað spyr hv. þm., hvort afkoma lagmetisiðnaðarins hafi batnað með tilkomu Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins, þ. e. a. s. hvort hagkvæmari sölusamningar hafi fengist.

Samkv. l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins er hlutverk hennar ekki einungis að annast útflutning, heldur veitir hún aðildarverksmiðjum sínum umfangsmikla þjónustu og fyrirgreiðslu. Hún á einnig að gegna forustuhlutverki í þróun lagmetisiðnaðar á Íslandi. Ekki fer á milli mála, að mikil hreyfing er í málum þessarar iðngreinar nú og mjög verulegur áhugi.

Ef fyrirspyrjandi á við það, hvort Sölustofnunin hafi gert hagkvæmari sölusamninga en annars hefðu fengist, er ákaflega erfitt að svara því, eins og að líkum lætur. Sölustofnunin hefur, eins og minnst var á áðan, orðið að glíma við þann efnahagsvanda, sem þróun alþjóðlegra gengismála hefur orsakað, auk þess sem hún vinnur brautryðjendastarf á mörkuðum, en enginn getur krafist bestu kjara við fyrstu samninga á nýjum markaði.

Benda má, að hagstæð sala hefur náðst á ýmsum vörutegundum, svo sem lifur, rækju o. fl., og ekki ástæða til að ætla, að aðrir hefðu náð betri sölusamningum en Sölustofnunin hefur gert. Þá má geta þess, að afstaða framleiðenda til Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins virðist yfirleitt vera mjög jákvæð, og eru þeir flestir þeirrar skoðunar, að starf stofnunarinnar hafi nú þegar sannað tilverurétt hennar og mikilvægi fyrir þróun íslensks lagmetisiðnaðar, þótt á þessum sviðum sé vissulega ákaflega margt, sem taka verður betri og fastari tökum á næstunni, eins og fram hefur komið í svörum mínum við öllum fsp. hv. þm.