04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

384. mál, Sölustofnun lagmetis

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er ekki mikið hægt að segja á tveimur mínútum eða svo. En ég sé ástæðu til þess að taka til máls undir þessum dagskrárlið. Því miður gat ég ekki verið hér, þegar hæstv. iðnrh. gaf svör við fyrri fsp., vegna þess að ég var við skyldustörf í fjvn. Ég get því ekki sagt um, hvað það er, sem kom þá fram í svari hæstv. ráðh. En eitt er víst, að niðursuðuiðnaðurinn á við mjög mikla erfiðleika að etja í dag. Það fer ekki á milli mála, að málin standa þannig nú, að það er tímaspursmál, hvort verksmiðjunum þurfi að loka eða halda áfram starfseminni. Þó að það sé rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan, að um verulega aukningu hafi verið að ræða, byggist sú aukning á sölunni á fölskum forsendum. Menn voru fyrst á þessu ári trúaðir á, að þær hefðu starfsgrundvöll, meðan Bandaríkjadollarinn var skráður á 97.60 kr. hver dollar. Þá voru gerðir samningar t. d. við Austur-Þýskaland um sölu á kavíar á verði, sem var miðað við þessa skráningu. Síðan hækkar gengi krónunnar og dollarinn skráður á 83.60, og sjá allir heilvita menn, þegar menn eru bundnir af þessum sölusamningum, hvernig afkoma þeirra, sem gera slíka samninga, er við að framleiða undir slíkum kringumstæðum. En þetta hafa verksmiðjurnar orðið að gera. Þær verða vitanlega að standa við gerða samninga og framleiða, þó að það sé tap á framleiðslunni. Sú aukning, sem hefur orðið í niðursuðuiðnaðinum, það sem af er af þessu ári, byggist m. a. á þessu, að menn hafa verið að fylla upp í samninga og skila vöru, sem þeir framleiða með tapi. Það liggur á borðinu og er hægt að leggja fram, hvenær sem er.

Hitt vil ég taka fram, að ég tel, eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að Sölustofnunin út af fyrir sig hafi sýnt, að hún átti tilverurétt, og ég tel, að þeir menn, sem þar starfa, hafi sýnt, að þeir eru þeim vanda vaxnir. Þeir hafa starfað ágætlega fyrir okkur í þessum efnum, það tek ég skýrt fram. En það er síðar á dagskrá þessa fundar önnur fsp., sem gefur frekar tilefni til umr. í sambandi við starfsgrundvöll lagmetisiðnaðarins, og mun ég því geyma mér að ræða frekar um þessi mál, þangað til hún verður tekin til umræðu.