04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

384. mál, Sölustofnun lagmetis

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil fyrst fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnrh., að lánamál iðnaðarins almennt eru nú á dagskrá og komast væntanlega til framkvæmda, áður en langt um líður, því að á því er full þörf. Það var upplýst, að á tveimur árum hefði lagmetisiðnaðurinn fengið 32 millj. í fjárfestingarlán, og þótti lítið, og er gott, ef hægt er að auka það. En mér finnst nú einhvern veginn hálfsnúið að vera að tala um að byggja upp þennan lagmetisiðnað, sem vissulega þarf að gera og á að gera og verður vafalaust gert, ef hráefnið er ekki til, eins og t. d. að því er síldina varðar.

Mér fannst á hv. 3. landsk., Bjarna Guðnasyni, eins og það andaði hálfkalt til Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins. Ég satt að segja skil ekki almennilega, hvað hér er verið að fara. Auðvitað er, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, verðlagið aðalatriðið í þessum efnum. Þessi stofnun þarf að keppa á alþjóðlegum mörkuðum við sams konar vöru eða svipaða vöru, og við erum þó alltaf að reyna að telja okkur trú um, að okkar framleiðsla sé heldur betri. Verksmiðjurnar þurfa, til þess að geta gengið, að hafa stöðuga framleiðslu með einhverjum hætti. Og þá kemur spurningin: Er hægt að selja alla þá framleiðslu, sem þar yrði um að ræða? Til að mæta þeim hækkunum, sem orðið hafa vegna gengisbreytinga og vegna verðlags innanlands ekki síður, verður að gera nauðsynleg hagræðingarstörf á mörgum sviðum. Ég tel, að Sölustofnun lagmetis hafi fyllilega sannað tilverurétt sinn.