04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

384. mál, Sölustofnun lagmetis

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Það er rangt mál hjá síðasta ræðumanni, að það hafi andað köldu í garð Sölustofnunar lagmetis, því að það var vissulega góð hugmynd og sjálfsögð framkvæmd að koma skipulagi á markaðsmálin. En kjarni málsins er þessi: Sölustofnun lagmetisiðnaðarins hefur milli 50 og 60 millj. kr. handa á milli í rekstrarkostnað á ári, á meðan allur niðursuðuiðnaðurinn hefur fengið til fjárfestingarlána 32 millj. M. ö. o.: Sölustofnunin hefur hér um bil tvöfalt fjármagn handa á milli á við uppbyggingarfjármagn lagmetisiðnaðarins. Það er þetta, sem mér þykir mjög merkilegt fyrirbæri. Það þýðir ekkert að vera að hrúga fé í Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, ef sjálfur grundvöllurinn, framleiðslueiningarnar, er ekki traustur, og það er þess vegna, sem ég hef reynt að vekja sérstaka athygli á þessu, Ég er ekki að ráðast á Sölustofnunina sem slíka, heldur er hér eitthvað að, þ. e. a. s. það þarf að treysta sjálfa undirstöðuna. Mér er kunnugt um það, að í nær öllum tilfellum hefur það söluverð, sem Sölustofnunin hefur fengið fyrir viðkomandi vörutegundir, verið töluvert lægra en beint framleiðsluverð hennar. En ég lít svo á, að allir þessir málaþættir, bæði lánamálin, hráefnismálin og fjármagnshlutfall milli annars vegar Sölustofnunar lagmetis og hins vegar undirstöðugreinanna í iðnaðinum, þurfi endurskoðunar við. Það þarf að samræma þessa hluti. Það er ekki nóg að hlaða upp einni stofnun, án þess að heildaryfirsýn sé yfir iðnaðinn. M. ö. o.: ég tel, að hér þurfi að athuga frá grunni stöðu og lánamál, hráefnismál o. s. frv. lagmetisiðnaðarins og gera stórátak í þessum efnum.