04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

63. mál, staðarval stóriðju á Norðurlandi

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 69 um staðarval stóriðju og stórvirkjana á Norðurlandi. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj, að kanna hagkvæmni þess vegna jákvæðrar þróunar byggðar og aukins öryggis í orkuöflun allra landsmanna að velja stórfyrirtæki stað á Norðurlandi, jafnframt því sem lögð verði öflug miðlunarlína norður, virkjuð 55 MW jarðgufuvirkjun við Kröflu og stefnt að virkjun Jökulsár á fjöllum við Dettifoss. Athugun þessi fari fram í samráði við Fjórðungssamband Norðlendinga og forráðamenn orkumála á Norðurlandi og tengist öðrum athugunum á lausn orkumála Norðlendinga.“

Í sambandi við þetta mál vil ég strax í upphafi máls míns leggja höfuðáherslu á nokkur meginatriði.

Sú stefna, sem felst í þessari till., hefur verið lengi á dagskrá. M. a. kom hún skýrt fram í Norðurlandsáætlun í atvinnumálum og í skýrslu atvinnumálanefndar Norðurlands til ríkisstj. árið 1969. Forsendur fyrir því að framkvæma þessa stefnu hafa aldrei verið betri en nú. Nú liggja annars vegar fyrir spánýjar upplýsingar um, að 55 MW gufuaflsrafstöð við Námafjall eða Kröflu mundi framleiða raforku á sambærilegu verði og bestu vatnsaflsvirkjanir í landinu að mati Orkustofnunar eða á 39 aura kwst. við stöðvarvegg á verðlagi s. l. sumars, þ. e. a. s. miðað við byggingarvísitölu 853 stig. Jafnframt því, að upplýsingar liggja óyggjandi fyrir um þetta að mati færustu vísindamunna, er í sívaxandi mæli rætt um það af hálfu stjórnvalda að semja við erlenda aðila um að reisa orkufrek stóriðjufyrirtæki í landinu, en þau eru nauðsynleg forsenda fyrir því að virkja raforku, svo að nokkru nemi, í stærri stíl. Þess skal þegar getið, að aðrar tæknilegar forsendur fyrir staðarvali stóriðjufyrirtækja eru fyrir hendi á Norðurlandi, svo sem færð eru rök fyrir í grg. með till., t. d. að því er varðar hugsanlega hafíshættu, og mun ég koma nánar að því síðar. Hið sama er að segja um umhverfismál. Þau virðast öll leysanleg samkv. skýrslu frá Orkustofnun, sem birt er hér í grg., bæði að því er varðar gufuaflsstöðvar og virkjun Jökulsár við Dettifoss, og vísa ég til fskj. með till. í því efni.

Þyngsta áherslu vil ég leggja á, að framkvæmd þeirrar stefnu í orkumálum, sem þessi till. hefur í för með sér, mundi gerbreyta til batnaðar öryggi í orkuöflun allra landsmanna. Í fyrsta lagi yrði horfið frá því að velja stórvirkjunum stað í næsta nágrenni frægasta og virkasta eldfjalls á Íslandi. Í öðru lagi færi veruleg orkuframleiðsla fram á gerólíkum svæðum með tilliti til veðurfars, þannig að minni hætta yrði á, að rennslistruflanir vegna ísmyndunar drægju óhæfilega úr heildarorkuvinnslunni. Í þriðja lagi væri farið inn á þá braut að virkja nýjan aflgjafa, þ. e. a. s. jarðgufu, í stærri stíl, sem er algerlega óháð veðurfarsbreytingum og veitir dýrmæta reynslu á nýtingu stórfelldra orkulinda, sem eru ónytjaðar svo til. Í fjórða lagi kæmu til strax margir fleiri kostir miðlunar milli orkuveitukerfa, sem óþarft er upp að telja. Hér yrði m. ö. o. um að ræða algerlaga ný viðhorf í orkumálum allra landsmanna og eðlilegt skref í þá átt að framkvæma hliðstæða stefnu á Norðurl. v. með virkjun Blöndu, svo og á Austfjörðum, og stefna þannig að auknu öryggi og hagkvæmni í orkubúskap allrar þjóðarinnar.

Þegar hér er komið, er e. t. v. eðlilegt, að spurt sé: Hvers vegna þarf að velja orkufrekum notanda stað á Norðurlandi til þess að koma þessari stefnu í framkvæmd? Er ekki hægt að framkvæma þessa stefnu í orkumálum án þess? Því er fljótsvarað, að það kann að koma til álita að reisa 55 MW gufuaflsstöð við Námafjall eða Kröflu og miðlunarlínu milli Norður- og Suðvesturlands án frekari stóriðju á Norðurlandi. Forsendur fyrir þessu eru þó, að línan verði mjög sterkbyggð, nægur markaður fyrir umframorku frá Norðurlandi sé til staðar á Suðvesturlandi og varaafl sé svo mikið til staðar, að ekki stafi stórhætta af, ef línan milli landshlutanna bilar. Sé þannig eingöngu litið á þá hlið þessa máls, raforkumálin, er ljóst, að dýrari línu þyrfti milli landshlutanna, ef hún ætti að flytja a. m. k. fyrst í stað aðeins grunnorku til Suðvesturlands, og þar þyrfti meira varaafl, sem merkir dýra fjárfestingu. Þessi mynd gerbreyttist á hinn bóginn, ef orkufrekur iðnaður risi á Norðurlandi. Þá yrði hönnun línunnar milli landshluta miðuð við miðlun, en ekki flutning grunnorku, og varaaflsþörf minni. Að auki kæmu svo til áhrif staðarvals orkufrekrar stóriðju á byggðaþróun, sem ég kem nánar að síðar.

Ég tel ástæðu til að undirstrika rækilega í sambandi við þetta mál, hversu stórfelld viðhorfsbreyting blasir í rauninni við í orkumálum Íslendinga, þegar niðurstöður frumathugunar á jarðgufuaflsstöð við Námafjall eða Kröflu liggja fyrir. Eins og ég sagði áðan er niðurstaða nýútkominnar skýrslu Orkustofnunar u:m þetta sú, að kwst. mundi kosta frá slíkri virkjun aðeins 39 aura. Til samanburðar má geta þess, að talið er, að kwst. frá Sigölduvirkjun mundi kosta af stærðargráðunni a. m. k. milli 70 og 80 aura. Nú er þess þó að geta, að miklu meira er vitað um kostnað við Sigölduvirkjun en jarðgufuaflsstöð, þannig að þessar tölur eru ekki algerlega á sambærilegum forsendum, en þær benda ótvírætt í þá átt, og er reyndar tekið fram í skýrslu Orkustofnunar, að slíkar 55 MW virkjanir jafnist a. m. k. á við það besta, sem völ er á í vatnsafli, jafnvel þótt vatnsaflsstöðvarnar séu þrisvar sinnum stærri. Þar sem eitt meginvandamálið við stórvirkjanir er að samræma orkuframleiðsluna þörfum markaðarins, er hér um stórkostlegt hagræði að ræða, þegar hægt er að ná samskonar hagræði með minni virkjunum. Fjárútvegunarvandinn verður að sjálfsögðu minni hverju sinni og miklu meiri líkur á, að unnt sé að nýta viðbótarorkuna fyrr en ella, en það gerir orkuvinnsluna hagkvæmari. Þá er einnig á það að líta, að þessi skýrsla sannar, að við getum hagnýtt nýja stórfellda orkulind, sem hefur ekki verið beisluð áður, svo að neinu nemi, og er það ekki lítils virði.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um þau gerbreyttu viðhorf í orkubúskap allrar þjóðarinnar, sem felast í framkvæmd þessarar till. Eins og nú er háttað, eru stærstu virkjanir okkar í næsta nágrenni Heklu. Þær geta eyðilagst svo til á einni nóttu, ef illa tekst til og verulegt hraungos yrði á svæðinu. Reynsla síðustu ára hefur sannað okkur áþreifanlega, að það er alger fásinna að standa þannig að svo mikilsverðum málum sem orkuvinnslan er. Ef á hinn bóginn yrði virkjað fyrir norðan, fyrst jarðgufan á Kröflusvæðinu og síðan Jökulsá við Dettifoss, og miðlunarlína reist milli landshlutanna, yrði allt annað upp á teningnum. Bæði er það álit sérfræðinga, að jarðgufuvirkjun sé miklu síður hætt við eyðileggingu sakir eldgosa, og svo er á hitt að líta, að sáralitlar sem engar líkur eru á eldgosum samtímis á Heklusvæðinu og nyrðra við Kröflu eða Dettifoss. Á þetta atriði benti ég á fundi, þar sem orkumálastjóri sat nýlega, og féllst hann á þessar röksemdir, að þótt Þjórsárvirkjanir og væntanleg jarðgufuvirkjun við Kröflu og vatnsaflsvirkjun við Dettifoss séu á sama sprungusvæði jarðfræðilega, þá megi telja fullvíst, að þar yrði ekki eldgos samtímis. Er augljóst, að sú stefna, sem fram kemur í þessari till., mundi gerbreyta til batnaðar öryggi í orkubúskap allra landsmanna, um leið og farið yrði inn á nýjar brautir í orkuöflun, virkjun jarðgufu.

Fyrir nokkrum árum var reist fyrsta jarðgufuaflsstöð á Íslandi. Hún er í Bjarnarflagi við Mývatn, eins og kunnugt er. Þessi stöð er í eigu Laxárvirkjunar og getur aðeins framleitt 3 MW af raforku. Engu að síður hefur hún komið að ómetanlegu gagni og reynslan af henni verið góð. Sérstaklega hefur komið í ljós, að orkuvinnslan með þessum hætti er mjög örugg, þar sem hún er óháð veðurfari. Jarðgufuaflsstöðin í Bjarnarflagi er þannig hönnuð, að hún nýtir mjög lítinn hluta af varmaafli gufunnar. Hún er því ekki mjög hagkvæm, auk þess sem hún er lítil. Samkv. frumathugun Orkustofnunar á 55 MW jarðgufuaflsstöð við Kröflu, er ætlunin að fara nokkuð aðra leið tæknilega, en hún hefði í för með sér betri nýtingu gufunnar og sýnist vera mjög hagkvæm, eins og áður segir. Sú litla reynsla, sem við höfum af rekstri gufuaflsstöðvar hér á landi til raforkuframleiðslu bendir á hinn bóginn ótvírætt til þess, að það hafi út af fyrir sig verulegt gildi að fá sem fyrst aukna reynslu á þessu sviði með rekstri stórrar stöðvar, sem hagnýtir nýjustu tækniþekkingu á þessu sviði.

Frá þessu sjónarmiði einu, þótt ekki kæmu mörg fleiri til, er að mínu mati einsýnt, að taka þarf nú þegar ákvörðun um að virkja slíka jarðgufuvirkjun á Norðurlandi. Frá mínum bæjardyrum séð er ekkert höfuðatriði, hvort sú virkjun yrði við Kröflu, Námafjall eða á Þeistareykjasvæðinu, en mér skilst, að sérfræðingar hallist frekar að Kröflu á þessu stigi málsins, og því er beinlínis rætt um Kröflusvæðið í till.

Þá vil ég víkja að virkjun við Dettifoss og tengilinu milli Norður- og Suðvesturlands.

Um margra ára skeið hafa verið gerðar rannsóknir á virkjun Jökulsár á Fjöllum við Dettifoss. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu hér, en mér skilst, að fljótlega hafi komið í ljós, að berglög séu þannig á svæðinu, að óheppilegt sé um neðanjarðarmannvirki, og hefur því verið gengið út frá yfirborðsvirkjun á þessum stað. Í því sambandi er þess að geta, að verktækni við gerð slíkra virkjana hefur aukist meira en við gerð neðanjarðarvirkjana, og mun Dettifossvirkjun því nú vera hagkvæmari í samanburði við aðrar virkjanir af þeim sökum. Í nýlegri skýrslu Orkustofnunar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um rannsóknir við Dettifoss:

„S. l. sumar var unnið við borun í stöðvarhússtæði væntanlegrar Dettifossvirkjunar, en rannsóknir við Dettifoss hafa áður staðið í nokkurn tíma. Boranir gáfu sumpart til kynna heppilegri berglagagerð en búist var við, en sumpart svipaða og vænst var.“

Hér er m. ö. o. sagt, að nýjustu rannsóknir á virkjun við Dettifoss bendi til þess, að virkjun þar sé hagstæðari en áður var gert ráð fyrir. Á þetta vil ég leggja áherslu og einnig á það, að rannsóknir á virkjun við Dettifoss eru lengst komnar af öllum rannsóknum stórvirkjana utan Þjórsársvæðisins, þegar frá er talin jarðgufan. Af þeim ástæðum auk annarra er eðlilegt að stefna að því, að virkjað verði við Dettifoss í framhaldi af Kröfluvirkjun, sem lagt er til í þessari till.

Augljóst er, að til þess að koma framangreindri stefnu í orku- og stóriðjumálum í framkvæmd, yrði að tengja Norður- og Suðvesturland með miðlunarlínu. Sé slík lína reist sem afleiðing þess að stórauka orkuvinnslu á Norðurlandi, m. a. til öryggis fyrir Landsvirkjunarsvæðið, er augljóst, að hún nýttist frá upphafi sem hlekkur í öryggiskerfi og mundi flytja miklu meiri orku en lína, sem lögð væri til þess að flytja fyrstu árin grunnorku til Norðurlands. Það er deginum ljósara, að slík lína, sem þyrfti að nota til þess að fullnægja daglega verulegum hluta orkuþarfar í heilum landshluta, þyrfti að vera mjög vel gerð og þar af leiðandi dýr til þess að fullnægja eðlilegum öryggissjónarmiðum. Nýting línunnar yrði ákaflega lítil miðað við kostnað hennar, þannig að fram til þess dags, sem hún gæti miðlað orku norður eða suður eftir þörfum, yrði fastur kostnaður við rekstur hennar slíkur, að augljóst er, að miklu hagkvæmari leiðir mætti fara til orkuöflunar fyrir Norðlendinga.

Það er ekki ætlun mín að fara nú frekar út í þá sálma að rifja upp skiptar skoðanir í þessum efnum milli mín og flestra Norðlendinga annars vegar og æðstu forustumanna orkumála í landinu hins vegar. En ég vildi aðeins gera grein fyrir þeim reginmun, sem á því er að reisa slíka línu, þegar hún er tímabær, þ.e. a. s. sem afleiðingu af stóraukinni orkuframleiðslu á Norðurlandi, miðað við þau áform, sem stjórnvöld hafa haft um að fresta öllum virkjunum á Norðurlandi og fara með „hund“ norður yfir öræfi, sem flytti grunnorku til Norðlendinga um ófyrirsjáanlegan tíma.

Áður en ég skil við þann þátt þessarar till. sem fjallar um orkumálin, vil ég ekki láta hjá líða að minna á það öngþveiti, sem nú blasir við í orkumálum Norðlendinga og á nauðsynlegar skyndiráðstafanir í þeim efnum fram að þeim tíma, sem sú stefna kæmist í framkvæmd, sem mörkuð er með þessari till.

Ástandið er þannig nú í orkumálum Norðlendinga, eftir að ný virkjun í Laxá, 6.5 MW, var tekin í notkun á s. l. hausti, að enn þarf að nota dísilstöðvar daglega til orkuvinnslu. Á yfirstandandi ári er búist við, að orkuframleiðsla með dísilafli þurfi að vera 17.7 gigawattstundir í samanburði við 8.7 gigawattstundir á s. l. ári. Búist er við, að enn þurfi að auka verulega olíunotkun til raforkuframleiðslu á Norðurlandi á næsta ári, og er þá ekki miðað við að hleypa neinu rafmagni á háspennulínu frá Norðurl. e. í kjördæmi forsrh., en slík lína mun verða fullbúin þá, og til hennar hefur verið kostað milljónatugum. Af þessum sökum hefur Laxárvirkjunarstjórn það mjög til athugunar að hanna frekari sölu til húshitunar með rafmagni, á sama tíma sem Landsvirkjun auglýsir sérstaka og hagstæða taxta til rafhitunar nýbygginga utan hitaveitusvæða. Þegar það er skoðað, að það kostar Laxárvirkjun með núgildandi verði á olíu 2 kr. einungis í olíukaupum að framleiða eina kwst. raforku, sem hún selur á rúmlega eina kr., þá verður ekki annað séð en það sé neyðarúrræði til þess að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti að banna frekari sölu á raforku til húshitunar, ef ekki koma til sérstakar aðgerðir stjórnvalda. Það sést þó, hvílík neyðarráðstöfun slíkt bann í raun og veru er, að hér er um eina kostinn að ræða til þess að afla innlendrar orku til húshitunar á Akureyri og þar eru 63% af orkusölu rafveitunnar nú seld til búshitunar.

Með þessu er þó ekki öll saga sögð um það öngþveiti, sem blasir við í orkumálum Norðlendinga. Öryggisleysi í orkuvinnslu vatnsaflsstöðvanna í Laxá hefur tvöfaldast með tilkomu nývirkjunarinnar, þegar um krapamyndun og rennslistruflanir er að ræða. Ástæða fyrir þessu er sú, að með tilkomu virkjunarinnar er rennsli árinnar nýtt tvisvar. Ofan í kaupið hefur komið í ljós, að inntaksmannvirki nývirkjunarinnar eru ekki eins og vænst var, þannig að sú staðreynd, að ekki fékkst að gera hóflega stíflu í Laxá, stefnir raforkuöflun á Norðurl. e. í algera tvísýnu, einmitt þegar kaldast er í veðri og mest tjón getur af hlotist. Það er raunar óhugnanlegt, hvað gerst getur á Norðurlandi, ef saman færi bilun í gömlum og ofkeyrðum dísilvélum við óveður og rennslistruflanir eða línubilanir frá Laxá. Þá hugsun er best að forðast að hugsa til enda.

Þegar það óefni er haft í huga, sem orkumál Norðlendinga eru komin í, er ljóst, að gera þarf ráðstafanir á byggingartíma jarðgufuaflsstöðvar við Kröflu til þess að forða frá algerum voða, en samkv. ummælum orkuráðh. væri unnt að gera ráð fyrir, að jarðgufuaflsstöð gæti tekið til starfa árið 1977 á Norðurlandi. Meðal bráðabirgðaaðgerða á byggingartíma gufuvirkjunar má nefna stækkun varaaflsstöðvar og hugsanlega stækkun á jarðgufuaflsstöðinni við Mývatn, svo og að ráðast eins fljótt og auðið er í miðlunarlínu milli Landsvirkjunar og Laxárvirkjunarsvæðisins, en hönnun slíkrar línu og lega hennar ættu að ráðast af því, að hún næði vel tilgangi sinum þegar gufuaflsstöðin kæmi í gagnið. Þessu til viðbótar vil ég ekki láta hjá liða að benda á, að nauðsynlegt er einnig að kanna frá hálfu stjóravalda, hvort landeigendur við Laxá kynnu að vilja ræða um lagfæringar á inntaksmannvirkjunum í ánni eða gerð hóflegrar stíflu í Laxá í ljósi nýrra viðhorfa um þessi efni og e. t. v. nýrra upplýsinga um hugsanleg áhrif á lífkerfi árinnar. Ég tek skýrt fram að hér er ég að benda á, að samkv. samningi um lausn Laxárdeilunnar var ekki ákveðið að hætta öllum framkvæmdum við Laxá, heldur að þær skuli háðar samþykki Landeigendafélagsins. Það mundi ekki meiða neinn, þótt þannig yrði á málum haldið af hálfu stjórnvalda, ef það kæmi fram strax í upphafi, að ekki væri fyrirhugað að gera neitt í þessu efni nema með fullu samþykki aðila.

Það fer ekki á milli mála, þegar haft er í huga það öngþveiti í orkumálum Norðlendinga, sem nú er orðið staðreynd, hversu stórfelld umskipti yrðu í þróun Norðurlands vegna raforkumálanna einna saman, ef sú stefna yrði framkvæmd, sem till. þessi markar. Ef auk þess kæmi til orkufrekur stóriðnaður á Norðurlandi, mætti segja, að um byltingu væri að ræða, sem yrði þá líklega hluti þeirrar iðnbyltingar, sem hæstv. núv. iðnrh. sér í hyllingum. Á Norðurlandi er hlutfallslega mjög margt fólk starfandi í frumframleiðslugreinum, landbúnaði og sjávarútvegi. Þótt afköst þessara atvinnugreina vaxi ár frá ári vegna tæknibreytinga og framleiðniaukninga, er þess ekki að vænta, að þessar atvinnugreinar veiti mörgu af því unga fólki atvinnu, sem kemur fram á vinnumarkað á næstu árum, en það er fleira og fjölmenntaðra fólk en hafið hefur störf áður í sögu þjóðarinnar. Á Norðurlandi er því enn þá meiri þörf fyrir öran vöxt iðnaðar en í flestum öðrum landshlutum, ef takast á að ná því marki, að mannfjöldaþróun verði þar sem næst sambærileg við meðaltalsfjölgun þjóðarinnar, en slíkt er forsenda ýmiss konar félagslegra framfara í fjórðungnum. Þetta hefur lengi verið ljóst, og kom þessi stefna fram í atvinnumálaþætti Norðurlandsáætlunar og skýrslu atvinnumálanefndar Norðurlands til ríkisstj. á árinu 1969, eins og ég minntist á áðan.

Atvinnumálanefnd Norðurlands gerði tilraun til þess að meta hvað staðarval stóriðjufyrirtækis hefði mikil áhrif á mannfjöldaþróun á Norðurlandi eftir því, hvort því fyrirtæki yrði valinu staður norðanlands eða suðvestanlands. Niðurstaðan varð sú, að yrði því valinn staður á hagkvæmasta stað á Norðurlandi, hefði það í för með sér búsetuval 3000 manna á Norðurlandi, þegar öll áhrif væru komin til skila, en ef sama fyrirtæki væri valinn staður á Suðvesturlandi, mundi það valda brottflutningi allt að 1000 manns að norðan. Mönnum kemur þetta e. t. v. spánskt fyrir sjónir, en þegar betur er að gáð, er þetta dæmi auðskilið. Hér er átt við fyrirtæki, sem veitti sjálft 350–400 manns atvinnu. Tekjur þess fólks, sem þar starfaði, yrðu notaðar til þess að kaupa vörur og þjónustu, sem framleiddar eru innan fjórðungsins. Þannig hefði fyrirtækið víðtæk örvunaráhrif á þessar atvinnugreinar og þar með vöxt þeirra. Augljóst er, að hér yrði um að ræða mjög hagstæð áhrif á þjóðarbúskap okkar í heild. Á Norðurlandi stuðlaði þessi þróunarauki að fjölbreytni í þjónustustarfsemi fyrir atvinnuvegina og vexti margvíslegrar félagslegrar þjónustu, en á aðalþéttbýlissvæði landsins mundi draga úr aðflutningi fólks og þar með spennu í húsnæðismálum og opinberum framkvæmdum. Hvort tveggja þetta er nánar rökstutt í fskj. með till., en þar er birtur hluti af skýrslu atvinnumálanefndar Norðurlands frá 1969. í henni voru fulltrúar allra þáv. stjórnmálaflokka í landinu víðs vegar að af Norðurlandi.

Að síðustu vil ég minnast á þann draug, sem oftast hefur skotið upp kollinum, þegar rætt hefur verið um orkufreka stóriðju á Norðurlandi, en það er hafíshættan. Um þetta er fjallað nokkuð ítarlega í nefndri skýrslu atvinnumálanefndar Norðurlands frá 1969, en enn þá ítarlegar í skýrslu, sem n. gerði, sem sett var á laggir samkv. ákvæðum í samningi ríkisstj. og Íslenska álfélagsins. Sú n. skyldi kanna hagkvæmni staðarvals hugsanlegrar álverksmiðju á Norðurlandi og áhrif á byggðaþróun. Þessi skýrsla kom út á s. l. ári, og er sá kafli hennar, sem fjallar um hafísvandamálið, birtur sem fskj. með till. á þskj. 69. Niðurstaðan er sú, að með nútímatækni í hafísspám og ýmsum varúðarráðstöfunum, sem unnt yrði að gera vegna hugsanlegrar hættu á siglingatruflunum vegna hafíss, væri ekkert tæknilega til fyrirstöðu um staðarval álbræðslu á Norðurlandi. Í skýrslunni kemur einnig fram, að siglingar hafi einungis truflast lítillega í tvö ár við Norðurland, það sem af er þessari öld.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja enn einu sinni áherslu á, að sú till. til þál., sem ég mæli hér fyrir, mundi hafa í för með sér stóraukið öryggi fyrir orkubúskap allrar þjóðarinnar. Ný viðhorf hafa skapast í orkumálum landsmanna með útkomu skýrslu Orkustofnunar um hagkvæma gufuaflsvirkjun á Norðurlandi, sem fullyrt er, að sé a. m. k. jafnhagstæð og þrefalt stærri vatnsaflsvirkjanir. Þessi till. mundi, ef samþykkt yrði, einnig gerbreyta til frambúðar því ófremdar- og neyðarástandi, sem skapast hefur í orkumálum Norðlendinga. Hún mundi valda byltingu í byggðaþróun landsins. Þar sem svo mikið er í húfi, vænti ég þess fastlega, að hún hljóti góðar undirtektir hér á hinu háa Alþ. og verði samþ. sem fyrst.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.