04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

47. mál, undirbúningur að næstu stórvirkjun

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr. úr hófi, þó að ég segi hér nokkur orð um þessa till. og ræðu hv. 1. þm. Vestf.

Ég vil þá fyrst taka undir meginatriði hans máls, en það var að benda á nauðsyn þess að haga orkuöflun okkar á annan veg en gert hefur verið, þannig að meira öryggi skapist í þeim efnum. Í hans till. og meðflm. hans er þó ekki, að mér finnst, nægjanlega skýrt mörkuð stefna í þessum efnum, en ég ætla ekki út af fyrir sig að finna að því.

Það, sem hann sagði hér um jarðgufuvirkjun í Kröflu, að það yrði ekki að hans mati hægt að fara þar í framkvæmdir fyrr en að mér skildist á árinu 1977–1978, þá vil ég aðeins upplýsa, að hæstv. iðnrh. var nýlega á Akureyri og þá taldi hann, að sú virkjun gæti verið komin í gagnið á þessum tíma, 1977 eða 1978, og hafði um þetta samráð við sína sérfræðinga, orkumálastjóra og forstöðumann jarðhitadeildar Orkustofnunar.

Í sambandi við þetta vil ég þó segja það, að því miður hefur svo tekist til, að Kröflusvæðið er ekki nægjanlega rannsakað enn, og er ástæðan sú, að síðan 1971 hafa ekki fengist fjárveitingar til þess að gera nauðsynlegar boranir á Kröflusvæðinu. Ég vil taka undir þau orð hv. 1, þm. Vestf., að þetta er auðvitað glöggt dæmi um það, að stefnan í þessum efnum hefur ekki verið nægjanlega markviss. Það var vitað strax á árinu 1972 og raunar á árinu 1971, að gufnaflsvirkjanir mundu vera álitlegar virkjanir. Kom út skýrsla frá Orkustofnuninni á miðju ári 1972 um þau efni, að vísu minni stöðvar, en það var þegar ljóst, að þessar virkjanir væru mjög álitlegar. En það fékkst ekki fjármagn til að rannsaka þessa hluti betur. Á árunum 1972 og 1973 fékkst ekki fjármagn til að rannsaka Kröflusvæðið með jarðborunum. Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á, að það hafa orðið nokkuð snarpar orðasennur hér einmitt á milli okkar þm. Norðlendinga og ýmissa framámanna í orkumálum út af þessu efni, og var m. a. felld brtt., sem við vildum fá samþykkta við framkvæmdaáætlun, að ég bygg 1973, þannig að ríkisstj. hefði frjálsar hendur um það, til hvers hún notaði það fjármagn, þ. e. a. s. til að rannsaka orkuöflunarleiðir fyrir Norðlendinga. En það fékkst ekki einu sinni samþ., svo sakleysisleg brtt., sem hefði gefið ríkisstj. kost á því að nota þetta fjármagn eins og henni hefði fundist skynsamlegast, heldur varð upprunalegt orðalag að vera í framkvæmdaáætluninni, að þessu fjármagni skyldi einungis varið til að rannsaka línustæði á milli Norðurlands og Suðvesturlands. Ég ætla ekki að fara hér að hefja upp neinar deilur um þetta, en ég vildi aðeins benda á þessi atriði.

Það er rétt, að á tímabili gætti tregðu til þess að fá rannsóknarfé til virkjana við Dettifoss. Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði í þeim efnum. Ástæðan var sú, að á þeim tíma mændu menn mjög á nokkuð stóra virkjun í Laxá í Aðaldal. Samt sem áður komu fram mjög ákveðnar till. um þetta efni, bæði frá stjórnvöldum og aðilum heima fyrir. M. a. var í Norðurlandsáætlun í atvinnumálum lagt til, að ákveðnu fjármagni yrði varið til þess að flýta þessum rannsóknum. En ég tek undir, það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að þarna var við ramman reip að draga að vissu marki, og hefði að mínu mati mátt standa betur að því á sínum tíma.

Að síðustu vil ég aðeins gera aths. við það, sem hv. þm. sagði um, að hann væri ekki eins sannfærður og ýmsir aðrir um, að það væri eðlilegt að virkja stórt í einu í Kröflu. Þetta kann að vera rétt hjá honum. Ég er ekki sérfræðingur á þessum sviðum. En stærð stöðvarinnar þarf auðvitað ekki að miðast við stærð rafala. Það er auðvitað hægt að hafa einn, tvo eða þrjá rafala í stöðinni, þannig að þótt ekki sé mikil reynsla af svo stórum rafölum sem hér þyrfti til, ef ætti að vera einn rafall, þá er auðvitað hægt að virkja þarna jafnmikla orku ok gert er ráð fyrir í frumathugunum á þessu svæði. Þetta kom einmitt fram á þessum fundi á Norðurlandi um orkumál. Menn ræddu þar einmitt um þennan möguleika og bentu á, að það kynni e. t. v. að vera heppilegra að hafa ekki einn rafal í slíkri virkjun, heldur fleiri.

Ég vil þá að lokum taka undir meginefni það, sem fram kom hér í ræðu hv. 1. þm. Vestf., en vildi aðeins gera þessar lauslegu aths. við sitthvað af því, sem kom fram í ræðu hans.