04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

68. mál, farþegaskip milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það má víst með nokkrum sanni segja, að þessi till., sem hér er til umr., sé nokkurs konar óskatill, fyrir mig, bæði sem Austfirðing og þá ekki síður sem Reyðfirðing, því að hún er hátt í það eins og töluð út úr mínu hjarta. Ég hef lengi haft mál mjög svipað þessu í huga. Reyndar þegar á þinginu 1957, þegar ég skaust snöggvast hér inn fyrir dyr, flutti ég till. til þál. um fastar skipaferðir milli Austfjarða og útlanda og vék þar m. a. að möguleikanum á farþegaflutningum einnig. Þar var ég ekki stórtækari en það vegna þess margfræga hrepparígs, sem áðan var á minnst, að ég vék aðeins að Reyðarfirði sem heimahöfn í grg., ég þorði ekki að fara lengra. En það er einmitt gott að sjá hlutlausan dóm utanaðkomandi aðila í þessu efni, enda höfum við Reyðfirðingar lengi vitað, að staðurinn sem slíkur er kjörinn til heimahafnar fyrir slíkt skip.

Ég vil fagna þessari till. sérstaklega. Það sýnir, eins og hv. 1. þm. Austf. benti á, að hringvegurinn opnar nýjar leiðir í svo mörgu. Það er ekki aðeins samgöngukerfið sjálft, sem tekur stakkaskiptum við þetta, það eru ekki aðeins samgöngurnar við Austurland, sem stórbreytast, heldur kemur enn til einn þáttur til viðbótar, sem hér er farið inn á: samgöngurnar við útlönd, skipasamgöngurnar eru gerðar auðveldari, og þær eru gerðar um leið skemmtilegri, því að ferð sem þessi væri hvort tveggja í senn skoðunarferð um landið og um nágrannalöndin. Samkeppni við Suðurlandaferðir þarf að koma. Það er ekki vansalaust, að margfaldir flækingar þangað þekki hvorki sitt eigið land né næstu lönd. Ég er líka sannfærður um, að ef þetta verður raunveruleiki, nota æ fleiri sér þessa möguleika, bara að þeir séu fyrir hendi.

Það kann vel að vera, að mörgum þyki, að hér sé í of mikið ráðist og þessi till. sé um margt óraunhæf. En hún er síst óraunhæfari í framkvæmd en ferðir Gullfoss hafa verið til þessa dags. Ég álít einmitt, að hér sé um stórt skref fram á við að ræða. Þó að hraði okkar tíma sé mikill á ferðalögum, jafnvel þótt til skemmtunar séu, vilji menn einnig spara tíma, þá hlýtur hér einnig að fara að verða á breyting. Með opnun möguleika á svo fjölbreytilegri ferð sem till. gerir ráð fyrir á ég vitanlega við það, að menn aki á sínum bílum, t. d. héðan úr þéttbýlinu, þar sem flestir íbúar landsins eru nú saman komnir, austur á Reyðarfjörð, fari svo með sinn bíl með skipinu til Norðurlanda og aki á honum þar og fari svo aftur norðurleiðina til baka. Það hlýtur að vera sú eðlilega og rétta leið, ef menn vilja fá eins mikið út úr ferðalaginu og kostur er, að einmitt með opnum möguleika á svo fjölbreytilegri ferð sé komið til móts við fólk, sem er að ferðast vegna ferðarinnar sjálfrar og þeirra kosta, sem hún hefur að bjóða, bæði í náttúruskoðun sem þægindum, en ekki bara til að geta sagst hafa farið þetta og hitt. Hugmyndin er því mjög góð, og ég er sannfærður um það, að Austfirðingar muni njóta góðs af alveg sérstaklega, ef þetta kemst í framkvæmd. Austfirðingar hafa verið mjög afskiptir í sambandi við öll ferðamál, og þeir eiga sannarlega skilið að fá í sinn hlut aukna hlutdeild þar i. En ég er einnig sannfærður um, að íslenskum ferðamálum í heild verður þetta æskileg lyftistöng. Þetta beinir ferðalögum, jafnt Íslendinga sem útlendinga, á að mínu viti miklu heppilegri og betri braut en í dag. En a. m. k. um mikinn hluta ferðalaga Íslendinga er það að segja, að sumir hverjir muna það eitt úr þessum frægu ferðum sínum, hvað skemmtistaðirnir voru ágætir og vínföngin ótæmandi.

Ég fagna sem sagt till. Ég fagna einkum viðhorfi flm. gagnvart mínum heimastað, sem ég held, að sé byggt á raunhæfu og réttu mati, og vona eindregið, að hún nái fram að ganga.

Varðandi þá brtt., sem hér er fram komin, sakna ég vitanlega þess úr þeirri till., að þar er felldur niður sá staður, sem í aðaltill, er nefndur. Þó að þar kunni að vera um margt imprað á heppilegri málsmeðferð eða raunsærri, þá held ég, að ég muni frekar halla mér að aðaltill. heldur en þeirri brtt., sem fellir þennan ágæta stað niður úr till.