04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

75. mál, bætt póst- og símaþjónusta

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja hér aðeins örfá orð til þess að leggja áherslu á það, að hér er hreyft máli, sem er tímabært og vonum seinna að komist hreyfing á. Ég lít svo á, að póstþjónustan hafi í rauninni staðnað á síðari árum. Í sumum héruðum er póstur vikugamall eða jafnvel meira, þegar hann berst viðtakendum í hendur. Þetta tel ég vera óviðunandi, þegar tillit er tekið til þess, að samgöngur hafa farið batnandi og ferðir örari en áður var. Til þess að bæta úr þessu þarf aukið skipulag og nánari athygli við það, með hvaða hætti má koma á örari og betri þjónustu við viðskiptamenn póstsins. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þennan þátt og ekki heldur auka mörgum orðum við þann þáttinn, sem fjallar um símaþjónustuna.

Það er alkunna, að með sjálfvirka kerfinu er að verða erfiðara að ná sambandi á milli einstakra stöðva, einkum þó hingað suður í aðalþéttbýlið utan af landi. Eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, er sú þjónusta, sem veitt er t. d. á 3. flokks stöðvum, ákaflega ófullnægjandi fyrir þá, sem verða að búa við þær aðstæður.

Einn þátt enn vil ég hér láta koma fram, sem sums staðar a. m. k. er algjörlega óviðunandi. Þar á ég við hina svokölluðu neyðarþjónustu Landssímans. Svo hagar til t. d., þar sem sjálfvirkar símstöðvar hafa tekið til starfa, í þorpum eða kaupstöðum, að sveitirnar utan þeirra hafa ekki númer við þessar stöðvar. Ef svo ber við, eftir að stöðvum þeim, sem þjóna þessum sveitum, er lokað, að alvarleg slys verða, veikindi eða jafnvel eldsvoðar brjótast út, þá er þetta fólk bjargarlaust við að ná til þeirra aðila í gegnum síma, sem það þarf mest á að halda, vegna þess að nú er ekki lengur unnt að hringja með gamla laginu í símstjórann, héraðslækni eða annan þann, sem var á hinni svokölluðu neyðarvakt símans. Hér er um atriði að ræða, sem þarf að kippa í lag, því að það er ófyrirséð, hvenær að því getur rekið, að til stórvandræða horfi fyrir einstaka aðila af þessum sökum, og getur það valdið bæði stórtjóni og riðið á lífi eða dauða, ef um alvarleg veikindi eða stórslys er að ræða.

Ég vildi láta þennan þátt málsins koma hér fram, að varðandi þessa neyðarþjónustu, sem í sumum tilvikum getur verið lífsnauðsynleg, hefur með tilkomu sjálfvirku stöðvanna sums staðar orðið um afturför að ræða fremur en hið gagnstæða, og úr þeim þætti málsins þarf að bæta. Að sumu leyti er það tæknilegt vandamál, en að sumu leyti þarf vilja bæði forráðumanna símans og jafnvel forráðamanna heima fyrir til þess að leggja sitt af mörkum til þess, að þarna komist lag á.