04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

96. mál, breyting á fasteignamatslögum og lögum um sambýli í fjölbýlishúsum

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Till. sú til þál., sem ég hef hér leyft mér að flytja, er ekki mikil að vöxtum, en snertir hins vegar mjög flókið vandamál. Við hina öru framþróun í byggingu íbúðarhúsnæðis hér á landi sem annars staðar hafa nánast í sama mæli aukist vandamál bæjar- og sveitarfélaga með útvegun byggingarlóða. Þessum vanda hafa bæjarfélög, a. m. k. á þéttbýlisstöðum, reynt að mæta með aukinni byggingu sambýlis- og fjölbýlishúsa. Þetta breytta fyrirkomulag veldur aftur því, að margar íbúðir byggðar á sömu lóð við sama húsnúmer eða nafn komast oft í allóþægilega samábyrgð um ýmsa hluti. Reglan; allir fyrir einn og einn fyrir alla — verður oft að gilda í slíku sambýli, svo sem sameiginlegt viðhald slíkra húsa utanhúss og í sameiginlegum afnotum innanhúss. Það, sem þó hefur komið verst við fólk í þessum húsum, er samábyrgðin um greiðslu opinberra gjalda af eignunum. Þess munu dæmi, að hjá öllum eigendum í 6–8 íbúða stigahúsi, sem hefur eitt götunúmer, hefur verið auglýst uppboð vegna ógreiddra fasteignagjalda af aðeins einni íbúð. Að vonum þykir mörgum illt að búa við slík lög eða reglur, og af þeim ástæðum er till. flutt um endurskoðun þeirra. Í slíkum tilfellum, sem till. fjallar um, og þegar um aðför að veði hefur verið að ræða, mun gangur mála oft hafa verið sá, að meðeigendur þess, sem í skuld stendur, hafa innt greiðsluna af hendi og síðan reynt að innheimta skuldina aftur hjá viðkomandi íbúðareiganda.

Allir þessir vafningar og óþægindi bjóða þeirri hættu heim, að um óþarfa árekstra gæti verið að ræða. Persónulega hef ég reynt að afla upplýsinga um, hver sé hin lagalega ástæða fyrir þessari framkvæmd, og svörin, sem ég hef fengið, eru þau, að ákvæði í fasteignamatsl. og lögunum um sambýli í fjölbýlishúsum kveði á um, að framkvæmd l. skuli vera þessi, sem ég hef áður lýst.

Síðan ég flutti þessa þáltill. mína, en nú er liðinn alllangur tími síðan, hefur stjórn Húseigendafélags Reykjavíkur sent Alþ. erindi um álit sitt í þessum efnum, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa það upp, það er ekki langt mál:

„Stjórn Húseigendafélags Reykjavíkur vill hér með láta í ljós stuðning við fram komna þáltill. Eggerts G. Þorsteinssonar alþm. um athugun á breytingu á fasteignamatsl. og lögunum um sambýli í fjölbýlishúsum. Svo sem oft hefur áður komið fram, m. a. í ályktun aðalfundar Húseigendafélags Reykjavíkur frá 1971, verður að telja innheimtufyrirkomulag fasteignagjalda í fjölbýlishúsum mjög ósanngjarnt. Ríkjandi fyrirkomulag er á þann veg að hægt er að auglýsa til uppboðs eignir skuldlausra skilamanna vegna vanskila og óreiðu annars íbúðareiganda í sama húsi.

Stjórn Húseigendafélags Reykjavíkur hefur ítrekað rætt þetta mál og gert ályktanir um það, sbr. ályktun aðalfundar Húseigendafélagsins frá 1971, svo hljóðandi:

„Aðalfundur Húseigendafélags Reykjavíkur telur, að sérgreina eigi fasteignamat hvers húshluta, sem þinglýstur er séreigandi að, og sé það gjaldstofn til skattálagningar, en ekki húseignin öll ósundurgreind, svo sem nú er. Gjaldheimtan í Reykjavík gefur þá út fasteignaseðla í samræmi við þá skiptingu.“

Stjórn Húseigendafélags lætur í ljós ánægju yfir því, að málið skuli nú loks hafa verið tekið upp hjá hinu virðulega Alþ., og væntir þess, að þáltill. verði samþykkt, svo að fljótlega megi vænta þeirra breytinga á l. um sameign í fjölbýlishúsum og l. um fasteignamatið, sem í þáltill. greinir.“

Þetta er erindi Húseigendafélagsins til Alþ. vegna þessarar þáltill.

Til viðbótar þessu vil ég segja aðeins örfá orð. Það er að fróðustu manna yfirsýn ekki talið útilokað, að breyta þurfi fleiri lagabálkum en hér hafa verið nefndir, og það er ástæðan til þess, að málið er flutt í formi þáltill. Ég tel, að það sé lítt frambærilegt að gera snöggsoðna breytingu á þessum tveimur veigamiklu lagabálkum, án þess að fram hafi farið á því vandleg athugun allra þeirra, sem gerst til þekkja.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði að loknum þessum hluta umr. vísað til hv. allshn.