05.12.1973
Efri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki út af ræðu hv. 2, þm. Norðurl. e. fara að þreyja hér neinar kappræður. Það er alveg rétt, sem hann hefur sagt, að það mátti flytja þetta mál alveg eins sem sérstakt frv. eins og bæta því hér við, og að forminu til hefði það verið betra, þó að þessi leið væri valin. Ég ber að sjálfsögðu ábyrgð á því, að hún var valin, en önnur ekki. Það segir þó ekki það, að ég telji ekki, að á henni séu vissir gallar. Það skal viðurkennt af minni hálfu.

Um erlendar lántökur skal ég ekki fara að þreyta hér umr. að þessu sinni, það gefst tími til þess síðar. En ég vil vekja athygli á því, að jafnhliða því sem þær hafa vaxið, hefur líka sá sjóður, sem við eigum í erlendum gjaldeyri, vaxið verulega á þessu tímabili, svo að það kemur til frádráttar því, sem vöxtur erlendu skuldanna hefur verið, sem gjaldeyrissjóðurinn hefur vaxið. Við vitum líka, að við höfum átt í stórfelldum kaupum á atvinnutækjum, eins og flotanum, og það hlaut að fara sem fyrr, að það yrði fjármagnað með erlendu lánsfé, svo sem venja hefur verið. Sama er að segja um okkar rafmagnsframkvæmdir. Þær hafa yfirleitt verið fjármagnaðar með þeim hætti, sem gert er hér nú.

Um fjárframlög á vegum ríkisins til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða í sambandi við þá framkvæmdaáætlun, þá held ég, að ég fari þar rétt með, þegar ég segi, að þau eru þó meiri en verið hefur. Það má hins vegar deila um það, hvort það ætli að vera í enn ríkara mæli. Framlög ríkissjóðs til sjóðanna nema þó á þessu ári og næsta ári nokkrum hundruðum millj. kr. umfram það, sem áður hefur verið. En það er alveg rétt, að verkefni þessara sjóða hafa einnig vaxið meira en þetta, og þess vegna hefur þurft að leita aukins lánsfjár.

Skemmtilegt væri það, ef ríkissjóður hefði milljarða í afgang, sem mig dreymir nú ekki um. Það hefur verið svo fyrr, að ríkissjóður hefur fengið verulegar tekjur umfram fjárlög og hefur samt ekki haft stórar fjárhæðir afgangs. Svo var t. d. á árunum 1964, 1965 og 1966, sénstaklega 1965 varð verulegur afgangur, og aftur 1970 var verulegur afgangur, sem var hins vegar notaður til þess að greiða að hluta skuldir frá fyrri árum. Það held ég, að þessum hv. þm. sé jafnljóst og mér, að það muni bæði honum og mér reynast erfitt hér á hv. Alþ. að afgreiða fjárlög, sem sýndu verulegan greiðsluafgang, því að hv. Alþ. mundi gjarnan vilja skipta sem mestu, svo að ég held, að það muni hvorugum okkar takast að koma þannig út með þau. Hitt væri vissulega ánægjulegt, ef hægt væri að safna í sjóði, og ég tel það brýna nauðsyn, að ríkissjóður komi sér upp rekstrarsjóði til þess að taka af mesta kúfinn í umframeyðslu á fyrri hluta ársins. Að því er stefnt, og ég vona, að það takist og því fyrr, því betra.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en þakka að öðru leyti undirtektir hv. þm. undir málið.