25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

21. mál, rannsókn á brúarstæðum yfir Dýrafjörð og Önundarfjörð

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Vestf. er í þremur liðum: „1. Er lokið rannsókn á brúarstæðum yfir Dýrafjörð og Önundarfjörð, sem veitt var fjármagn til á árunum 1972 og 1973 samkv. vegáætlun fyrir árin 1972–1976? 2. Ef rannsókn er lokið, hver er niðurstaða hennar? 3. Ef rannsókn er ekki lokið, hvar er hún á vegi stödd?“

Svar mitt við þessu er það, að rannsókn á vega- og brúarstæðum yfir Dýra- og Önundarfjörð er enn ekki lokið. Kannaðar hafa verið þrjár línur yfir Önundarfjörð og ein yfir Dýrafjörð, og er búist við, að kostnaðaráætlanir liggi fyrir við endurskoðun vegáætlunar í vetur. Ef ljós kemur við þessa athugun, að um sé að ræða hagkvæmar lausnir, má búast við, að gera þurfi vistfræðilegar rannsóknir vegna mannvirkjagerðanna með tilliti til náttúruverndarlaga, og er nærtækt að áætla, að slíkar rannsóknir mundu taka eitt ár. En þær verða vitanlega ekki gerðar, ef niðurstöður eru mjög neikvæðar og þeim, sem um þessi mál fjalla, og þá fyrst og fremst Alþ. þykir þær ekki fýsilegar.

Nánar get ég skýrt, hvað gert hefur verið. Það hafa verið kannaðar þrjár veglínur yfir Önundarfjörð. 1. Könnuð var lína yfir Holtstanga rétt innan við eyðibýlið Kirkjuból. Fjörðurinn er mjóstur á þessum stað, en mun dýpri en innar í firðinum. Ekki var þessi lína mæld, því að húm var talin óhagstæðri en hinar. 2. Mæld var lína frá vegamótum Flateyrarvegar og Vestfjarðavegar neðan við Breiðadalsheiði og yfir fjörðinn móts við fyrrnefnd vegamót og að vegamótum Valþjófsdalsvegar og Vestfjarðavegar. 3. Einnig var mæld lína með sömu endurbótum og í síðasta lið sagði, en farið yfir fjörðinn á milli Tannaness og Innri-Veðrarár.

Um Dýrafjörð er það að segja, að einungis hefur verið könnuð ein lína yfir Dýrafjörð, en hún er yfir fjörðinn frá Lambadalsodda að Ketilseyri. Áætlað er af Vegagerð ríkisins, að kostnaðaráætlunin fyrir þessar tillögur og samanburður við endurbyggingu vegarins fyrir botn fjarðarins liggi fyrir í vetur, áður en vegáætlun fyrir árin 1974–1977 verður endurskoðuð, og kemur þá að sjálfsögðu til álita í fyrsta lagi vegamálastjórnarinnar og síðan Alþ., hver af þessum leiðum verður valin.