05.12.1973
Neðri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

70. mál, starfskjör launþega

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er einnig eins og hið fyrra, sem ég mælti hér fyrir, komið frá hv. Ed. og hefur verið samþ. þar einróma.

Þetta frv. er þannig til komið, að það hefur verið almenn skoðun og ríkjandi, að kjarasamningar stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda væru algerlega bindandi fyrir alla vinnuveitendur og launþega í viðkomandi starfsgrein og á því svæði, sem samningar ná til, án alls tillits til þess, hvort þeir vinnuveitendur og launþegar, sem um er að ræða, væru aðilar að þeim samtökum, sem undirrita kjarasamninga, eða ekki. Þetta ríkjandi álit hefur þó beðið nokkurn hnekki í forsendum og að nokkru leyti í dómsorðum a. m. k. tveggja hæstaréttardóma frá árinu 1971 og nokkurra dóma, sem fyrr hafa verið upp kveðnir og að sumu leyti er sérstaklega vísað til í grg., sem frv. fylgir. Er raunar auðsætt, að þessir dómar skapa verulega réttaróvissu að því er varðar rétt verkafólks og verkalýðsfélaga gagnvart þeim vinnuveitendum, sem standa utan vinnuveitendasamtakanna. En þar er um að ræða mikinn fjölda, sérstaklega smáatvinnurekenda. Enn meiri óvissu leiðir af þessum dómum fyrir launafólk, þegar svo vill til, að hinir síðarnefndu eru ekki skipulagðir í viðeigandi stéttarfélagi, en slíkt er nokkuð algengt, bæði sem tímabundið ástand, þegar menn flytjast á milli starfsgreina, og þó e. t. v. sérstaklega þegar um aukavinnu er að ræða eða vinnu hluta úr degi. Af þessu leiðir, að möguleikar eru fyrir hendi fyrir einstaka vinnuveitendur að nota sér aðstöðu sína til að skammta verkafólki naumari rétt heldur en kjarasamningar segja til um.

7. gr. l. nr. 80 1938, vinnulöggjafarinnar, er að vísu ætlað að girða fyrir slíkar hættur, en svo virðist sem sú lagagr. tryggi ekki fullan rétt launþega í öllum tilvikum, og þykir því rétt og eðlilegt að taka af allan hugsanlegan vafa, eins og gert er með ákvæðum 1. gr. þessa frv. Með 2. gr. frv. er svo ákveðið, að öllum launþegum sé rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, og enn fremur, að vinnuveitendum sé skylt að halda eftir af launum starfsfólksins iðgjaldahluta þess og standa réttum lífeyrissjóði skil á honum ásamt mótframlagi sínu. Svo er 3. gr. ætlað að tryggja viðkomandi stéttarfélagi á sama hátt greiðslur í sjúkra- og orlofssjóði. En í 4. gr. eru ákvæði, sem kveða skýlaust á um stöðu framangetinna iðgjalda til sjóðanna í skuldaröð í hugsanlegum þrotabúum atvinnurekenda.

Ákvæði þessa frv. eru hvorki svo mörg né flókin, að ég telji nauðsyn á að hafa um þau öllu fleiri orð. Ég vil þó geta þess, að frv. er upphaflega samið, að tilhlutan Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, og hefur miðstjórn Alþýðusambandsins gert samþykkt, sem mælir eindregið með því, að það verði að lögum. Undir meðferð málsins í Ed. var leitað álits Vinnuveitendasambands Íslands um það, og mælti það með samþykkt frv., enda er auðsætt, að sú mögulega misnotkun, sem þarna er fyrir hendi, gæti skapað einnig mismunun í hópi vinnuveitenda og óeðlilega samkeppnisaðstöðu þeirra, sem standa utan vinnuveitendasambandanna, þar sem þeir gætu hugsanlega sparað sér yfir 7% viðbót við útborguð laun verkafólks og þannig öðlast óeðlilega samkeppnisaðstöðu við þá vinnuveitendur, sem skipulagðir eru í sínum stéttarfél. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að vinnuveitendasamtökin, sem starfandi eru, séu ákvæðum þessa frv. meðmælt.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fara um þetta frv. fleiri orðum. Ég vænti þess, að í þessari hv. þd. hljóti málið greiða meðferð, eins og það gerði í hv. Ed., og legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til hv. félmn.