05.12.1973
Neðri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

127. mál, umhverfismál

Flm. (Heimir Hannesson) :

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér hefur verið lögð fram, hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að látra semja hið fyrsta heildarlöggjöf um umhverfismál.“ Þáltill. varðar málefni, er kemur inn á mjög víðtæk svið í íslensku þjóðfélagi, og verða því engin tæmandi skil gerð með þessari framsögu, enda varla þess að vænta. Skoða þarf vandlega allar hliðar þessa máls, og er það tilgangur hennar, að hæstv. ríkisstj. verði falið að semja hið fyrsta heildarlöggjöf um þessi mál. sem nefnd hafa verið umhverfismál. Þetta ætti að vera hæstv. ríkisstj. mjög ljúft, og leyfi ég mér í þessu sambandi, þó að hér sé vissulega fyllilega um ópólitískt mál sem slíkt að ræða, að vísa til eftirfarandi setningar úr málefnasamningi hæstv. ríkisstj., með leyfi forseta. Þar segir:

„Að stuðla að breyttu gildismati á þann veg, að til hinna eftirsóknarverðustu lífsgæða verði talið hreint og ómengað umhverfi og fullnægjandi skilyrði til eflingar frjálsrar hugsunar og andlegs þroska einstaklingsins. Við hagnýtingu íslenskra auðlinda skal kosta kapps um náttúruvernd, svo að hver þjóðfélagsþegn eigi þess kost að njóta heilbrigðra lífshátta.“

Þannig lýkur þessum þætti úr fyrrnefndum málefnasamningi.

Frumhugmynd þessarar þáltill. er, eins og segir í grg., sú skoðun flm., sem er um leið skoðun, sem átt hefur vaxandi fylgi að fagna hin síðari ár um allan heim, ekki síst í hinum þróaðri löndum, að lífsgæðin og lífshamingjan væru ekki síst í því fólgin að njóta ánægjulegra samskipta við umhverfi sitt, hvort sem það er í sjálfri náttúrunni eða ekki, og þá ekki síður á vinnustöðum en við heimili, jafnt í þéttbýli sem strjálbýli. Miklar umr. hafa verið hér á landi hin síðustu ár um nauðsyn náttúruverndar, og hefur mönnum skilist í vaxandi mæli, bæði hér og erlendis, að þau lífsgæði ber að varðveita. Einhvern veginn er það þó svo, að það hefur farið fram hjá mönnum í of miklum mæli, að jafnsjálfsagt sé að skapa og varðveita ánægjulegt og fagurt umhverfi í byggð, sem er hið næsta og nánasta umhverfi mannsins árið um kring. Hér er því brýn þörf nýrrar lagasetningar, þar sem núgildandi lög, sem varða þessi mál, verði sett inn í heildarlöggjöf, um leið og tekið verði tillit til hinna nýju lífsviðhorfa í þessum efnum.

Þetta mál er það stórt í sniðum, að ég mun ekki koma með neinar tæmandi till. um þau nýju efnisatriði, er taka þyrfti inn í slíka löggjöf, enda varla við því að búast, en vil aðeins varpa fram örfáum hugmyndum, sem má telja ómótaðar á þessu stigi málsins. Um stöðuna í dag þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Það er alkunna, að umgengnisvenjur eru því miður ekki alltaf jafngóðar og vera skyldi, og þrátt fyrir lofsverðan áhuga ýmissa áhugamannafélaga, eins og landverndarmanna, náttúruáhugamanna, ferðafélaga og fegrunarfélaga blasir þessi staðreynd of víða við, jafnvel á þeim stöðum, þar sem framleiðsla matvæla er aðalatvinnuvegurinn, eins og reyndar er raunin á flestum stöðum í byggð á Íslandi.

Ég minnti á það í upphafi þessarar framsögu, að umhverfismálin næðu inn á mörg svið, Ég ætla að leyfa mér að nefna nokkur dæmi. Þau varða m. a. mengunarmál, gróðurvernd, landgræðslu, skipulagsmál bæjar- og sveitarfélaga, heilbrigðislöggjöf, hreinlætismál, umgengnismál og að sjálfsögðu hina almennu náttúruvernd og síðast, en ekki síst það, sem kannske hefur farið fram hjá mönnum allmikið í framkvæmd, þ. e. verklegar framkvæmdir á öllum sviðum og þar með talin skipulagsmál þéttbýlis og dreifbýlis. Á öllum þessum málum hefur til þessa verið haldið af of miklu handahófi, svo að ekki sé meira sagt, og vandamálin aukist með vaxandi verklegum framkvæmdum, svo og auknum ferðalögum manna bæði um byggðir og óbyggðir. Ég vil aðeins minna á örfá atriði, sem rétt er að staðnæmast við.

Þó að umgengni hafi sennilega að ýmsu leyti batnað, m. a. vegna starfsemi áhugamannasamtaka, er reynt hafa að skapa virkara almenningsálit, er ástandið fjarri því að vera viðunandi. Það er lakast á þeim stöðum, þar sem handahófið er algert og hugtakið umhverfisvernd því miður lítið þekkt. Við þjóðvegina er ástandið víða mjög slæmt, og sjávar- og vatnsfjörur eru víða mengaðar af rusli og óþverra, sem menn skilja eftir sig á yfirreið sinni um landið. Út yfir tekur þó umgengni og ytra útlit ýmissa þeirra staða, er sérstaklega kynna sig sem móttökustaði fyrir innlenda og erlenda gesti, þó að vissulega séu undantekningarnar margar, þar sem snyrtimennska er ríkjandi, en á mörgum stöðum er mikilla lagfæringa þörf. Málefni sumarbústaða eru víða í hinu megnasta ólestri, þar ræður á allt of mörgum stöðum skipulagsleysi og handahóf. Þetta mætti ræða með mörgum fleiri orðum en það skal ekki gert að sinni.

En þá vil ég víkja að öðrum þætti, þ. e. a. s. byggingarmálunum. Eins og ég nefndi áðan, þá hefur það ekki verið nægilega rætt og ekki nægilega skilið, hversu mikill þáttur af framkvæmd þau eru í hinni svokölluðu umhverfisvernd. Það er rétt að taka það fram, að það er e. t. v. ekki óeðlilegt, að þegar þjóð eins og Íslendingar á í hlut, sem hefur stigið sitt framfaraskeið á skemmri tíma en annars staðar hefur þekkst m. a. í húsabyggingum, að við slíkar aðstæður og við slíkan framkvæmdahraða fari eitt og annað úrskeiðis. Ég er þó þeirrar skoðunar, að þó að rétt sé að hafa þessa staðreynd í huga, sé hún alls ekki að öllu leyti frambærileg afsökun fyrir þeirri ytri flatneskju, setu markar íslenska byggingarlist í dag og framkvæmdir í þeim efnum, og á það bæði við opinberar framkvæmdir og framkvæmdir ýmissa einkaaðila í íbúðarhúsabyggingum, þar sem hið opinbera stofnlánakerfi kemur að sjálfsögðu inn. Þetta á við sjálfa byggingarlistina, hinn svokallaða arkitektúr.

Byggingarframkvæmdir eru, eins og ég sagði áðan, vissulega stór þáttur í umhverfismálum, og við skulum ekki gleyma því, að þegar við erum að reisa öll þessi hús okkar úr járni og steinsteypu og gleri, erum við um leið að reisa okkar eigin minnisvarða fyrir komandi kynslóðir. Nú eru allir sammála um, að gamli íslenski bóndabærinn með burstaþökunum sé fögur byggingarlist, sem falli vel inn í heildarmynd íslenskrar náttúru. Varðveisla þeirra fáu burstabæja, sem eftir eru, er mikið menningarstarf. Þetta á að sjálfsögðu við ýmis önnur menningarverðmæti, sem hafa verið á dagskrá að undanförnu, en vissulega er vafamál, hvar draga eigi línuna, en út í það skal ekki farið.

Því miður verð ég að láta í ljós þá skoðun, að við ýmsar af hinum miklu byggingarframkvæmdum síðari ára hafi mjög mikið á það vantað, svo að mildilega sé til orða tekið, að sjónarmiða umhverfisverndar hafi gætt sem skyldi. Við ýmsar af hinum stærri byggingum hefur fyrst og fremst gætt heldur ófrumlegrar eftiröpunar stórborgarhúsanna, eins konar dúkkuhúsa risaborganna, þar sem ekki hefur vottað fyrir viðleitni til að efla og þróa nýja, þjóðlega íslenska byggingarlist. Og í hinum miklu framkvæmdum, þar sem lánakerfi ríkisins hefur staðið undir, hefur enn fremur mjög á það skort, að nægilega mikil viðleitni væri í þá átt að styðja að fagurfræðilegum og listrænum vinnubrögðum.

Sums staðar í bæjunum og þá einkum í höfuðstaðnum er engu líkara en það hafi verið sérstakt kappsmál í framkvæmd að koma sem flestum íbúum fyrir á sem minnstri fermetrastærð. Ég ætla á þessu stigi ekki að nefna nein sérstök dæmi, en vil leggja á þetta sérstaka áherslu. Hér þarf að verða breyting á. Þeir, sem átt hafa þess kost að sjá tiltölulega nýbyggðar borgir og bæi, þar sem önnur sjónarmið hafa ráðið, harma þessa þróun enn frekar og sjá, í hvers konar óefni er komið. Hér þarf að verða stefnubreyting. Það á að koma þeim skilningi inn við framkvæmd allra bygginga, að það er ekki nóg fyrir manninn að fá þak yfir höfuðið, heldur er það ekki síður mikilvægt fyrir vellíðan og alla lífshamingju fólksins, að menn njóti og hafi ánægjuleg samskipti við umhverfið, hvar sem það er. Þegar rætt er um umgengni og skort á frágangi, kæmi til greina að mínu áliti að gera það að algeru skilyrði við lánveitingar húsnæðismálakerfisins, að öllum frágangi, m. a. við lóðir og opin svæði, verði alveg lokið, áður en endanlegum lánveitingum lýkur. Þetta mundi skapa æskilegt aðhald og verulega breytingu í framkvæmd þessara mála.

Eins og ég sagði áðan, verður hér alls ekki um neina tæmandi upptalningu að ræða, heldur nánast drepið á fáein atriði. En ég get þó ekki að því gert að minnast hér á eitt atriði, sem er býsna athyglisvert og ég held, að flestir þeir hafi tekið eftir, sem koma aftur til Íslands að loknu ferðalagi til útlanda. Það þarf ekki að skýra það nánar, að fyrstu tengsl bæði erlendra og innlendra manna, sem koma til hvers lands, eru flugvöllurinn og næsta nágrenni hans og leiðin til næsta viðkomustaðar, og ég held, að það sé ekki óeðlilegt, að það megi kalla það andlit landsins.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að það eigi að vinna að því að skapa eitthvert gerviandlit fyrir erlenda ferðamenn. En ég vil láta þá skoðun í ljós hér, að aðkoman hér á Keflavíkurflugvelli og reyndar að hluta á leiðinni til Reykjavíkur er mjög fjarri því að vera sæmandi. Það fyrsta, sem blasir við mönnum hér, eru bandarísk flugstöðvaskilti á flugskýlum og kvikmyndahúsum á Keflavíkurflugvelli. Ég ætla ekki að ræða pólitískar hliðar þessara mála. Það verður vafalaust gert á öðrum vettvangi. En að mínu áliti er þetta samkrull á alþjóðlegum flugvelli og flotastöð algerlega óþolandi, og verður að kippa því í lag. Ég vil satt að segja lýsa yfir furðu minni, að það sjónarmið skuli ekki hafa komið fram opinberlega fyrr, að sveitarfélög, sem eiga aðild að þessari leið, þessu andliti landsins, skuli ekki hafa fyrir löngu komið sér saman um samræmdar aðgerðir, til þess að frumþörfum umhverfisverndar sé sinnt sem skyldi á þessu svæði, og á það við bæði um Keflavíkurflugvöll og alla leiðina, án þess ég vilji fara út í sérstakar lýsingar eða smáatriði í því sambandi.

Við flm. segjum í grg., að boð og bönn séu ekki rétta leiðin til að ná æskilegum árangri, en þó vil ég ekki láta hjá líða að láta í ljós þá skoðun, að ég tel, að í þeirri heildarlöggjöf, sem þarf að koma á, þyrftu að vera strangari viðurlög við brotum á umgengnisreglum. Þess eru dæmi frá öðrum löndum, og ég held, að það mál þurfi að skoða vel, að hafa strangari viðurlög við alvarlegum hrotum. Ég held, að það líka mundi auka það aðhald, sem þarf að vera. Fleiri rök hníga að því, að heildarlöggjöf er nauðsynleg, en ekki skal farið út í það nánar. Vissulega ræður engin löggjöf neinum úrslitum, nema því aðeins að þjóðin sjálf og almenningsálitið geri slíka löggjöf að staðfestingu á vilja hennar sjálfrar. Sem betur fer bendir ákaflega margt til vaxandi áhuga almennings. Það þarf að stuðla frekar að honum og samstarfi sveitarfélaga og landshlutasamtaka með það markmið í huga að skapa fegurra land fyrir þá kynslóð, sem lifir í landinu, og komandi kynslóðir.

Í grg. leggjum við á það áherslu, að myndarlega sé að þessu unnið á þjóðhátíðarárinu 1974. Ég held, að það verði að ráðast, hvort það tekst að ljúka því frv. á því merkilega ári, en það væru sannarlega tímamót, ef það tækist. Og þó að það drægist fram á næsta ár, þá kannske skiptir það ekki meginmáli, en aðalatriðið er, að að þessu máli sé unnið af festu og farið sé af stað sem fyrst. Við undirbúning þessa mikla máls þarf að hafa nána samvinnu við ýmsa aðila, m. a. náttúruverndarráð, samtök arkitekta, landverndarmenn, og nú er fyrirhugað að stofna nýtt félag listiðnaðarmanna, sem sameinar bæði íslenska teiknara, arkitekta og fleiri hönnuði á sviði listrænnar tjáningar. Ég held, að það kæmi til greina líka að skoða þá hugmynd að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti. Það er sjálfsagt að kanna löggjöf og reynslu nágrannaþjóðanna í þessum efnum og að sjálfsögðu þann kostnað, sem því yrði samfara.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að till. verði vísað til allshn. d. til nánari meðferðar og afgreiðslu.