25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

21. mál, rannsókn á brúarstæðum yfir Dýrafjörð og Önundarfjörð

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að hér er um afar mikilvægt mál að ræða, ekki eingöngu frá sjónarmiði samgangna við Vestfirðina norðanverða, heldur er hér einnig um mjög mikilvægt byggðamál að ræða og getur raunar ráðið í því sambandi úrslitum um byggð á þessum svæðum. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það, vegna þess að í athugunum á mismunandi vegarstæðum er mjög tíðkað nú að leggja til grundvallar svokallaða arðsemisútreikninga, sem í sjálfu sér ern góðra gjalda verðir, en slíkir útreikningar geta aldrei tekið tillit til slíkra sjónarmiða, sem, hér hafa verið nefnd. Þetta held ég því, að þurfi að hafa vandlega í huga, þegar þetta tvennt er metið.

Að sjálfsögðu hafa heimamenn ákaflega mikinn áhuga á þessum framkvæmdum. Ég hef gert mér far um að fylgjast með þeim og hef fengið upplýsingar frá Vegamálaskrifstofunni, mjög svipaðar þeim, sem ráðh. gaf hér áðan, og ég get tekið undir og lýst ánægju minni með störf sérfræðinganna þar, sem ég treysti fyllilega. Mér hefur hins vegar skilist — og vil láta það koma í ljós sem mína skoðun — af þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að brú yfir Önundarfjörð sé mjög líkleg og allt bendi til þess, að hún sé arðbær, eins og þeir reikna það út, en brú yfir Dýrafjörð hins vegar eitthvað vafasamari. En þar álít ég, að megi ekki rasa um ráð fram og hafna þeirri framkvæmd, áður en — litið er á hinar ýmsu aðstæður, sem hv. fyrirspyrjandi spurði um og ég treysti vissulega hæstv. ráðh. til þess að leggja áherslu á.