06.12.1973
Efri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Frsm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson bar hér fram allmargar spurningar varðandi þau 10 skip, sem hér um ræðir. Ég verð því að svara því til, að ég þekki ekki nægilega mikið til þessara skipa til þess að geta sagt til um það, hver svör eigi að vera við þessum spurningum, sem hv. þm. bar fram, og vil mælast til þess, úr því að hæstv. fjmrh. er ekki staddur á fundinum, að hann beini þessum fsp. til hans við 3. umr. málsins.

Það var hæstv. ríkisstj., sem hafði frumkvæði að því að veita 80% fyrirgreiðslu til kaupa á þessum skipum, að sjálfsögðu að höfðu samráði við Fiskveiðasjóð, en Framkvæmdastofnun ríkisins átti ekki hlut að því máli, að um var að ræða þessa 80% fyrirgreiðslu. Það var því ekki skoðað neitt sérstaklega af hálfu Framkvæmdastofnunarinnar, og ég held því, að hæstv. fjmrh. verði að svara því til, hvaða rök voru talin fyrir því, að fyrirgreiðslan yrði með þessum hætti í sambandi við þessi skipakaup. En ég vil láta þess getið, að varðandi lán Byggðasjóðs til kaupa á þessum skipum var talið, að þarna væri um nokkuð óvenjulegan hlut að ræða, að þar sem fyrirgreiðsla til kaupa á þessum skipum væri komin upp í 80%, þá væri kannske minni þörf á því, að byggðasjóður hlypi þar undir bagga, einkum líka og sér í lagi með hliðsjón af því, að ekki er hægt að segja, að Byggðasjóður eigi að koma til greina í jafnríkum mæli varðandi kaup á þessum skipum og þegar um er að ræða skip, sem landa bolfiski á hinum ýmsu stöðum úti um landið, og þar af leiðandi var niðurstaðan, að lán til þessara skipa yrðu 2% af kaupverði.

Ég verð að öðru leyti að vísa þessum spurningum frá mér og óska eftir því, að hv. þm. beini þeim til fjmrh. við 3. umr. málsins.