29.08.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það, sem nú hefur gerst í stjórnmálum á Íslandi, mun vera einsdæmi á sviði stjórnmála, ekki bara á Íslandi, heldur þótt víða væri leitað. Sú ríkisstj., sem nú hefur tekið við völdum hér á landi, er árangur þess hægra sjónarmiðs innan Framsfl., sem virðist hafa eflst og dafnað innan þess flokks nú upp á síðkastið. Formaður Framsfl., núv. hæstv. dóms- og viðskiptaráðherra, sem einn Íslendinga hefur unnið það afrek að mynda ríkisstj. fyrir Sjálfstfl., eftir að form. þess flokks hafði gefist upp við stjórnarmyndun, lýsti því yfir í sjónvarpi s.l. þriðjudagskvöld, að hér væri ekki um að ræða myndun hægri ríkisstjórnar. Hvað sem þessu áliti formanns Framsfl. liður, er enginn vafi á því, að almenningur í landinu sér og skynjar, hvað hér hefur gerst. Það er enginn vafi á því, að í almenningsálitinu er hér svo sannarlega um að ræða hægri ríkisstjórn. Hér hefur verið endurvakin helmingaskiptaregla Sjálfstfl. og Framsfl.

Enginn þarf lengur að vera í vafa um, að það var rétt, sem haldið var fram af hálfu Samtaka frjálslyndra og vinstri manna fyrir kosningarnar í júní s.l., að Framsóknarforustan mundi nota fyrsta tækifærið, sem gæfist, til þess að mynda stjórn með Sjálfstfl. En nú hefur gerst meira en það. Nú hefur form. Framsfl. unnið það afrek út af fyrir sig, eins og hann sjálfur orðaði það, að mynda ríkisstjórn fyrir Sjálfstfl., ok geri aðrir betur.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna lögðu á það áherslu í kosningunum í júní s.l., að vinstri meiri hl. skipaðist hér á Alþingi að kosningum loknum. Þessu sjónarmiði fylgdu þau í þeim viðræðum, sem þau tóku þátt í um myndun vinstri stjórnar, og gerðu á þeim vettvangi það, sem í þeirra valdi stóð, til að árangur næðist í þeim viðræðum. Því miður urðu annarleg sjónarmið innan tveggja stjórnmálaflokka, sem þátt tóku í þeim viðræðum, til þess að koma í veg fyrir, að árangur næðist. Og engan þarf að undra það sjónarmið þess flokks, sem forustu hafði í þeim viðræðum, miðað við það, sem nú hefur séð dagsins ljós.

Vart er ástæða til nú á þessu stigi að ræða stefnuyfirlýsingu núv. hæstv. ríkisstj., enda að því er virðist mjög óljóst, hvað það plagg hefur í reynd að geyma. En forsmekk þess, sem koma skal, fengu launþegar í landinu að sjá hér á Alþingi í s.l. viku, þegar hinn nýi þingmeirihluti samþykkti bindingu alls kaupgjalds í landinu, á sama tíma og heimiluð var um 20% hækkun búvöruverðs til neytenda. Hér er að sjálfsögðu bara upphafið að því, sem koma skal, en nægir þó til þess að sjá, að engrar velvildar þarf launafólk að vænta úr hendi þessarar hæstvirtrar helmingaskiptastjórnar þeirra sjálfstæðis- og framsóknarmanna.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna harma, að annarleg sjónarmið skyldu koma í veg fyrir myndun nýrrar vinstri stjórnar að kosningum loknum, og mun almenningur í landinu krefjast svara af þeirra hálfu, sem þannig komu í veg fyrir, að af myndun slíkrar ríkisstj. varð.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna eru í andstöðu við núv. ríkisstj., en munu að sjálfsögðu láta málefni ráða afstöðu sinni.

En fyrst og fremst munu Samtök frjálslyndra og vinstri manna telja það höfuðskyldu sína að verja kjör og hagsmuni láglaunafólks í landinu og vinna að áframhaldandi uppbyggingu landsbyggðarinnar.

Í kosningunum lögðu Samtök frjálslyndra og vinstri manna áherslu á: að vernda og bæta kjör þeirra lægst launuðu, — að frjáls samningsréttur aðila vinnumarkaðsins um kaup og kjör sé einn af hornsteinum lýðfrjáls samfélags, að unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins á grundvelli áætlana um þróun einstakra atvinnugreina og landshluta, — að sú efling sjávarútvegs, fiskiðnaðar og annars iðnaðar, sem átt hefur sér stað undanfarin ár, haldi áfram, — að lagt verði fram fjármagn, sem raunhæfar úrlausnir í byggðamálum krefjast, — Byggðasjóði verði skipt í deildir eftir landshlutum og landshlutasamtökin fái aðild að ráðstöfun fjármagnsins, — að landinu verði skipt í þróunarsvæði eftir því, hver byggðavandinn væri, og sú svæðaskipting verði lögð til grundvallar aðgerðum í fjárfestingarmálum, skattamálum, húsnæðismálum, samgöngumálum, menntamálum, heilbrigðismálum og öðrum málaflokkum. — að við nýtingu gæða lands og lagar eigi frambúðarhagsmunir alþjóðar og réttur almennings til óspillts umhverfis í hvívetna að ganga fyrir skammsýnum gróðasjónarmiðum og ábatavon fjármálavaldsins, — að aflað verði fylgis við 200 mílna auðlindalögsögu, — að á alþjóðavettvangi verði mörkuð stefna, sjálfstæð utanríkisstefna, og samstaða með smáþjóðum og friðaröflum sé það, sem Íslendingum væri best í samfélagi þjóðanna.

Í samræmi við þessi stefnumið lögðu Samtök frjálslyndra og vinstri manna, bæði í kosningunum og að þeim loknum, ríka áherslu á myndun vinstri stjórnar. Eins og ég sagði áðan, gerðu Samtök frjálslyndra og vinstri manna það, sem í þeirra valdi stóð, til að árangur næðist í þeim viðræðum. Þau lögðu fram skýrar till. í öllum helstu málaflokkum, en voru jafnframt reiðubúin til málamiðlunar til að ná samkomulagi. Samtök frjálslyndra og vinstri manna lögðu t.d. áherslu á, að beita ætti niðurfærsluleið gegn þeim vanda, sem nú er við að stríða í efnahagsmálum. Niðurfærslan ætti að vera þannig, að hún verkaði til kjarajöfnunar, m.a. að tekjur láglaunahópa skerðist ekki frá því, sem nú er, og ýmsir forréttindahópar verði látnir bera fyllilega sinn hluta byrðanna. Samtökin voru og eru þeirrar skoðunar, að sú leið sé réttlátari í alla staði og sanngjarnari gagnvart láglaunafólki í landinu en sú gengisfellingarstefna, sem núv. ríkisstj. hefur ákveðið.

Í andstöðu sinni við núv. ríkisstj. munu Samtök frjálslyndra og vinstri manna halda fast við þau stefnumið, sem ég hef hér rakið, á Alþingi og utan þess, berjast fyrir skýrri vinstri stefnu, stefnu jafnaðar og samvinnu.