30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

8. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að söluskattur verði hækkaður um tvö prósentustig, úr 11% í 13%. Eins og fram kemur í aths. við frv., er 1% viðlagagjald, 1% gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana og 4% söluskattsauki einnig lagt á sama gjaldstofn og söluskattur. Til athugunar kom að bæta hækkun þeirri, sem hér um ræðir, við söluskattsauka, en frá því var horfið. Má reyndar á það minna, að svo var gert ráð fyrir á s.l. vetri, að söluskattsaukinn yrði þá 5%. Að ráði varð þó að leggja til hækkun á söluskattinum sem slíkum. Réð þar tvennt.

Í fyrsta lagi er söluskattsaukinn tengdur sérstökum kjarasamningum og mun eigi við honum hróflað án undangenginna viðræðna við aðila vinnumarkaðarins. Í öðru lagi eiga sveitarfélögin enga hlutdeild í tekjum af söluskattsauka, en fá hins vegar 8% af hinum almennu söluskattstekjum í sinn hlut. Fjárhag sveitarfélaganna er því miður svo háttað, að full þörf er á að taka þar af nokkurt mið, þegar hreyft er við tekjustofnum ríkisins.

Sennilega hefur öllum hv. þm. aldrei verið eins ljós þörf ríkissjóðs fyrir auknar tekjur og nú. Allir flokkar þingsins hafa að undanförnu tekið þátt í tilraunum til stjórnarmyndunar. Skýrslur hafa legið frammi um ástand og horfur efnahags mála og afkomuhorfur ríkissjóðs. Öllum þm. má því vera ljóst, að brýnna aðgerða er þörf til þess að afla ríkissjóði tekna og það tekna, er til skila koma í ríkissjóð á þessu ári. Undanfarna daga hefur skuld ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi við Seðlabankann numið 2–3 milljörðum. Að hluta má skýra þessa erfiðu stöðu með miklum framlögum ríkissjóðs til ríkisfyrirtækja umfram það, sem ætlað var í fjárl. Niðurstaða launasamninga við starfsmenn ríkisins lá ekki fyrir fyrr en um mánaðamótin maí– júní, en laun varð að greiða samkv. þeim frá áramótum. Og loks hafa þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þóttu til að halda efnahagslífinu í skefjum nú í sumar, þ.e.a.s. viðnámslögin, haft gífurleg útgjöld í för með sér. Hefur jafnan verið á það treyst, að nú á haustmánuðum yrðu gerðar ráðstafanir til þess að rétta nokkuð af þennan halla.

Sú hækkun, sem hér um ræðir á söluskatti, gefur ríkissjóði um 140 millj. kr. tekjur á mánuði. Eindagi söluskatts er 26. dagur næsta mánaðar, eftir að neytandinn er krafinn um skattinn, svo að ljóst er, að í ár mun þessi hækkun ekki koma til skila í ríkissjóð nema fyrir tæpa 3 mánuði, fáist frv. þetta samþ. Tekjur ríkissjóðs á þessu ári af hækkuninni verða því vart yfir 400 millj. kr.

Það er ekki ætlun mín að gefa á þessu stigi málsins yfirlit yfir fjármál ríkisins, til þess hefur mér ekki unnist tími að fá það unnið þá fáu daga, sem ég hef gegnt embætti fjmrh. En ég minni á það, sem ég sagði áðan, að þm. hafa undir höndum ítarleg gögn um ástand fjármálanna. Þá er auk þess tiltölulega stutt í fram lagningu fjárlagafrv. fyrir árið 1976 og mun þá gerð ítarleg grein fyrir stefnu þeirri í opinberum fjármálum, sem lögð verður til grundvallar rekstri ríkissjóðs á næsta ári.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um það frv., sem hér liggur fyrir. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.