30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

8. mál, söluskattur

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram, að ég tel fráleitt, að unnt sé að ætlast til þess, að hv. þdm. geti rætt efni þessa frv. nú, þegar það er tekið til 1. umr., án þess að tími hafi verið gefinn til þess að lesa það eða kanna þau rök, sem kunna að vera flutt fyrir því í grg. Þeir, sem hlustuðu á hádegisfréttir í útvarpinu, gátu að vísu heyrt nokkurn hluta grg. lesinn í fréttatíma. Ég minnist þess ekki áður, að einstakar greinar og grg. frv. séu lesnar upp í útvarpi, áður en þeim er útbýtt í hv. Alþ., en nýir siðir koma með nýjum herrum. Og kannske kemur að því, að þm. verði sagt að sitja heima við útvarpstækið og kynnast þar þskj. og þeir gætu síðan hringt til skrifstofu Alþingis og tilkynnt um afstöðu sína til mála. En þetta er kafli út af fyrir sig. En ég sé ekki, að ástæða sé til að hraða svo afgreiðslu þessa máls, að komið verði í veg fyrir, að skoðanaskipti um efni málsins geti faríð fram við 1. umr., eins og þingsköp gera ráð fyrir. Með þessari tilhögun er verið að fækka umr. í d. í tvær. Þessa málsmeðferð tel ég ámælisverða og ekki lofa góðu um væntanleg vinnubrögð hæstv. fjmrh. og harma, að það skuli vera fyrsta verk hans gagnvart þessari hv. d. að hefta með þessu móti í raun málfrelsi þdm. Til að mótmæla þessum vinnubrögðum hef ég greitt atkv. gegn því að leyfa þau afbrigði, að málið komi til 1. umr. á fundi í dag.

Þá tel ég fráleit þau vinnubrögð að ætla að knýja fram söluskattshækkun eina fyrir sig og án samhengis við aðrar væntanlegar efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj., bæði þær, sem valda auknum útgjöldum ríkissjóðs, og þær, sem auka við tekjur hans. Mat hv. þm. á því, hvort þörf er á hækkun söluskatts, er að sjálfsögðu háð ýmsu því, sem nú liggur ekki fyrir, t.d. hve miklar eru áætlaðar nettótekjur ríkissjóðs vegna gengislækkunar, sem nú hefur verið tilkynnt, hver eru áform hæstv. ríkisstj. um áframhaldandi niðurgreiðslur brýnustu nauðsynjavara, hvort ætlunin er að auka fjölskyldubætur eða gera aðrar ráðstafanir til að milda hjá þeim, sem við erfiðust kjör búa, þá lífskjaraskerðingu, sem hæstv. ríkisstj. hyggst framkvæma og söluskattshækkunin er aðeins hluti af.

Það er í rauninni fráleitt að ætlast til þess, að hv. þd. tjái sig um eða taki afstöðu til slíkrar aukinnar skattlagningar, sem felst í hækkun söluskatts um 2 stig, einnar sér án nokkurrar yfirsýnar yfir heildaráform í efnahagsmálum, án samhengis við aðrar ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum, en hv. þd. hefur ekki fengið að sjá, jafnvel ekki stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. Ef hæstv. fjmrh. ætlar að haga svo vinnubrögðum sínum í framtíðinni, mun honum reynast torsótt leiðin til þeirra vinsælda, sem hann hefur að undanförnu lýst yfir í fjölmiðlum, að hann aðallega keppi eftir. Og nokkuð mun það koma þegnum þjóðfélagsins spánskt fyrir sjónir, að eftir kosningaáróður Sjálfstfl. um nauðsyn þess, að minnkaður verði sá hluti, sem tekjur ríkissjóðs eru af þjóðartekjunum, þá skuli fyrstu till. ráðh. flokksins í nýrri ríkisstj., þar sem Sjálfstfl. hefur undirtökin, vera þær að auka skatttekjur ríkissjóðs líklega um 1800–2000 millj. kr. á ári með einni saman söluskattshækkun og svo mjög liggi hinum nýju valdhöfum Sjálfstfl. á, að þm. sé ekki gefinn kostur á svo mikið sem lesa þskj. um skattlagninguna, áður en 1. umr. fer fram.

Eins og ég hef hér greint, tel ég ekki vera unnt að fjalla um efni þessa frv. nú við 1. umr., en fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. mun væntan lega gera tilraun til að afla í n. nauðsynlegra gagna og upplýsinga og gera að þeim fengnum grein fyrir afstöðu Alþb. til þessa frv.