30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

8. mál, söluskattur

Landbrh. (Halldór E. Sigarðsson):

Herra forseti. Frv. um söluskattshækkun, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er gamall kunningi þessa árs og raunar ársins sem leið. Þegar þáv. ríkisstj. varð að lækka tolltekjur ríkissjóðs, vegna þess að samningar hafa verið gerðir þar um, að það skyldi gert í áföngum, og áfangi átti að koma til 1. jan. 1974, þá varð ljóst, að ekki væri hægt að koma á þeirri framkvæmd, svo að vel færi, nema aflað yrði tekna með öðrum hætti. Var reyndar yfir lýst af fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórninni, þegar EFTA samningarnir voru gerðir, að þá þýddi það, að þeirri tollalækkun, sem yrði gerð með þeim samningum, yrði að mæta með auknum söluskatti, bæði þá og síðar. Þetta kom fram hjá þáv. fjmrh. og þáv. viðskrh.

Hins vegar gerðist það svo á Alþ. í vetur, að þáv. ríkisstj. hafði ekki þingstyrk til þess að koma fram hækkun á söluskatti til þess að mæta þessum tollalækkunum. Það var von mín, sem þá fór með þetta mál, að hv. alþm. virtu svo samninga við önnur ríki, að það bæri að fylgja þeim, þó að um stjórnarskipti yrði að ræða, og ætti hver þm. að virða slíka samninga svo, að stjórnarskipti gætu ekki breytt afstöðu þeirra til tekjuöflunar. Þess vegna treysti ég því, að það mundi nást samstaða hér á hv. Alþ. um tekjuöflun til þess að mæta þeirri tollalækkun, sem gera varð vegna milliríkjasamninga, sem áður höfðu verið gerðir.

Hins vegar reyndist það svo, að hér á hv. Alþ. tókst ekki samstaða um það. Það féll því í minn hlut að standa frammi fyrir því ásamt þeim ráðh., sem þá voru, hvort íslenska ríkið ætti að hætta á það að rifta nærri 60 viðskiptasamningum eða hætta á tekjutap ríkissjóðs upp á 400 –500 millj. Ég lagði til í þáv. ríkisstj., að heldur yrðum við að standa frammi fyrir vandamálinu heima fyrir en rifta gerðum samningum, þá yrðum við að halda. Ég hafði líka vonast til þess, að það yrði síðar með væntanlegu samkomulagi á milli stéttarfélaganna og ríkisstj. um breytingu á tekjuskatti og söluskatti hægt að bæta þetta upp. Þetta fór hins vegar á annan veg. Þrátt fyrir það, sem ég taldi mig þó hafa fyrirheit um, að samningar þeir, sem ríkisstj. næði við stéttarfélögin um skattkerfisbreytinguna, mundu verða virtir og samþ. hér á hv. Alþ., var ríkisstj. knúin til þess að falla frá einu söluskattsstigi til þess að koma í gegn þeirri skattkerfisbreytingu, sem gerð var.

Það var því ljóst, þegar þetta hvorttveggja var úr greipum gengið, að þá mundi fara svo, að það mundi skorta fé til ríkissjóðs vegna þessara breytinga. Við þetta bættist svo það, að síðar á árinu voru niðurgreiðslur auknar og það í ríkum mæli til þess að halda atvinnuvegunum gangandi, þar sem ekki fékkst samstaða um það á Alþ. að gera viðeigandi ráðstafanir í efnahagsmálum, eins og ríkisstj. hafði lagt til. Öllum var ljóst, sem til þekktu, að þessu yrði ekki mætt nema með auknum tekjum, jafnvel þótt tekjur ríkissjóðs færu verulega fram úr áætlun, þær hafa gert það meira en gert var ráð fyrir. Auk þess hefur svo það bæst við, að þessum niðurgreiðslum hefur verið haldið áfram lengur en upphaflega var ætlað, og var ljóst, að ekki væri hægt að halda þeim áfram hér eftir nema afla til þess tekna.

Í þeim viðræðum, sem fram fóru um stjórnarmyndun, bæði til vinstri og hægri handar, sýndi ég fram á það með rökum, m.a. með því að gera grein fyrir því, hvaða hugsanleg áhrif gengisbreytingar gætu haft á tekjur ríkissjóðs, að tekna yrði ekki aflað sem skyldi, nema þessum tveimur söluskattsstigum yrði náð, og mundi þó tæplega nást fullur jöfnuður með þeim hætti, en við það yrði þó að búa að sinni, þar sem þetta yrði undirbúningur undir tekjuöflun næsta árs. Enn fremur hafði það svo bæst við, að tekjuöflun sú, sem átti að gera hér á s.l. vetri vegna Rafmagnsveitna ríkisins og einnig vegna Vegasjóðs, náði ekki fram að ganga, en hvort tveggja þetta kemur til með að hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Ég lagði því ríkt á í þessum umr., að hjá þessari tekjuöflun yrði ekki komist, hana yrði að taka og þýddi ekkert að stinga höfðinu í sandinn gagnvart því. Ég vil hins vegar upplýsa það vegna þess, sem fram kom hér, að einn af samninganefndarmönnunum í viðræðunum um vinstri stjórn, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, fyrrv. sjútvrh., lagðist gegn þessu í þeim viðræðum, og þykir mér rétt að taka það fram, svo að ekki leiki á því vafi, hver afstaða hans var, og er það sennilega afstaða hans flokks í umr., þótt það hafi ekki legið ljóslega fyrir. Hins vegar fannst mér, að þessi afstaða hans hefði ekki við rök að styðjast, eins og ég benti á í þeim umr.

Ég vil því segja það, að þessi tekjuöflun er eðlileg og sjálfsögð, og gæti bætt við, eins og einn hv. þm. sagði einu sinni: „Þótt fyrr hefði verið“. Þá hefði betur faríð. Ég gleðst yfir því, að hv. þm. skuli nú sjá, að rök mín í þessu máli hafa verið réttmæt.

Ég vil hins vegar bæta því við út af því, sem hv. 10. landsk. þm. sagði, að ég held, að það sé fjarri öllu lagi, að fyrrv. ríkisstj. hafi gleymt sveitarfélögunum. Ég dreg í efa, að aðrir hafi gert þar betur. A.m.k. var deilt á þáv. fjmrh. fyrir hækkun útgjalda, og átti sú breyting, sem gerð var í því að létta af gjöldum sveitarfélaganna til trygginganna og lögreglukostnaðarins, ekki lítinn þátt í hækkun ríkisútgjaldanna. Út í það skal ég ekki fara, því að það er svo margrætt mál. — Hitt er ljóst, að tekna þurfa allir þeir að afla, sem þurfa að halda uppi eðlilegum rekstri og eðlilegum framkvæmdum í landinu, eins og við allir gjarnan viljum gera.