30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

8. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það var aðeins út af orðum hv. 11. landsk. þm. varðandi framlengingu þessa frv. og þau vinnubrögð, sem við eru höfð. Ég held, að hann misminni ákaflega mikið, ef hann man ekki eftir því þau 15 ár, sem hann hefur setið á þingi, að fram hafa verið lögð frv. og þau tekin til 1. umr. með leyfi til afbrigða hjá viðkomandi d. Hvort fréttamenn hafa orðið sér úti um efni þessa frv. fyrri hluta dags eða síðari, um það skal ég ekki dæma, en þau vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð, eru mjög algeng á Alþ. og þess vegna ástæðulaust fyrir hv. þm. að greiða atkv. gegn afbrigðum, enda er það mjög ótítt og nánast ekki nema undir alveg sérstökum kringumstæðum, sem slíkt á sér stað.

Núv. ríkisstj. taldi eðlilegt að gera nú þegar þær ráðstafanir, sem taldar eru nauðsynlegar til þess að spyrna við fótum og stöðva það ástand, sem verið hefur í efnahagsmálum á undanförnum mánuðum. Það hefur kannske miklu frekar verið háttur flokksbræðra hv. 11. landsk. þm. að hafa hlutina eins og gert var að mig minnir vorið 1972. Alþ. var sent heim og 2–3 dögum síðar voru gefin út brbl. og ráðstafanir í efnahagsmálum gerðar, án þess að Alþ. hafi verið gerð grein fyrir hlutunum. Eins og kom hér fram áður, er hér um að ræða ráðstafanir, sem þekktar voru og allir vissu um frá þeim umr., sem átt hafa sér stað um stjórnarmyndun, og vitað var, að gera þurfti til þess að spyrna við fótum, þannig að sú ríkisstj., sem við tæki, hefði tækifæri til þess að gera sér grein fyrir því, með hvaða hætti hún leggur til við Alþingi, að gerðar verði ráðstafanir varðandi úrlausn efnahags- og fjármála ríkisins.

Mér er fullkomlega ljóst, að hv. Alþb.- menn hafa ekki mikla tilhneigingu í dag til þess að kalla það vanda, sem við blasir. Þeir hafa orðið frægir fyrir að nefna þetta bókhaldsvanda, það væri eitthvað, sem hægt væri að færa á milli debet og credit eða eitthvað því um líkt. Þetta hefur verið nefndur velmegunarvandi, og ég sé, að í málgagni þeirra í dag er reynt með stórum fyrirsögnum og miklu máli að telja þjóðinni trú um, að hér sé nánast ekkert að og stjórnarvera þeirra hafi verið með þeim hætti, að allar ráðstafanir, sem ekki eru bær vinsælustu, séu með öllu óþarfar.

Ég minni á það, að þegar hæstv. fyrrv. forsrh. lagði fram frv. sitt um efnahagsaðgerðir s.l. vor, þá fylgdi því skýrsla, sem ríkisstj. hafði látið vinna fyrir sig af sínum sérfræðingum, og sú skýrsla sýndi allt annað en hér væri um að ræða eða við að glíma bókhaldsvanda eða velmegunarvanda.

Ég skal viðurkenna, að það er ekkert skemmtilegt að taka við embætti fjmrh. og þurfa að byrja á því að spyrna við fótum með þessum hætti, og menn verða sjálfsagt ekki vinsælir af því. En ég geri mér líka ljóst, að ég hef aldrei mátt búast við því, að ég yrði vinsæll fjmrh. á því að þurfa að gera ráðstafanir, sem mætti rekja til stjórnleysismanna eins og flokksbræðra hv. 11. landsk. þm., sem sátu í síðustu ríkisstj.