30.08.1974
Neðri deild: 9. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti, Í dag hafa gengisbraskararnir fengið það, sem þeir vildu. Spákaupmennirnir, sem rætt er um í fréttatilkynningu Seðlabankans um 17% gengislækkun, geta farið að telja sér gróðann.

Þegar ljóst var snemma á þessu ári, að viðskiptakjör íslenska þjóðarbúsins gagnvart umheiminum færu versnandi, jafnframt því sem nokkrar kostnaðartilhækkanir kæmu til innanlands auk þeirra, sem beinlínis eru innfluttar vegna verðbólguþróunar á alþjóðamarkaði, tók fyrrv. ríkisstj. að ræða úrræði til að afstýra þeim vanda, sem menn töldu sig sjá fram undan. Þegar á daginn kom, að fyrrv. ríkisstj. hafði ekki þingmeirihluta fyrir þeim aðgerðum, sem hún taldi ráðlegastar, eins og á stóð í vor, var eftir því leitað, hvort þáv. stjórnarandstaða væri til viðtals um að líta á frv. ríkisstj. og sjá, hvort hún gæti fellt sig við framgang þess, e.t.v. með einhverjum breytingum. En við slíkt var ekki komandi. Þá höfðu stjórnmálabraskararnir og gengisbraskararnir náð höndum saman. Afleiðing af því fóstbræðralagi, sem þá tókst, er nýafstaðin stjórnarmyndun, og ávöxtur þess er svo gengislækkunin, sem nú er kunngerð og aðeins er upphafið af aðgerðum í efnahagsmálum, aðeins toppurinn á þeim ísjaka, sem enn marar að mestu í kafi.

Það er sannfæring mín og sannfæring þeirra stjórnmálasamtaka, sem ég tala fyrir, að þessi gengislækkun, sem nú hefur verið gerð, sé óþörf og hún sé skaðleg. Þær aðgerðir til að afstýra efnahagsvanda, sem drög voru lögð að í frv. í vor um viðnám gegn verðbólgu, byggðust fyrst og fremst á niðurfærsluaðgerðum. Og enn héldum við í SF fram sams konar úrræðum í þátttöku okkar í stjórnarmyndunarviðræðum í sumar. En þessar till. um niðurfærslu, um, að óhjákvæmilegar byrðar kæmu fyrst og fremst á þá, sem hygðust skammta sér of ríflega sneið af þeim tekjum, sem þjóðin hefur til ráðstöfunar, fengu ekki hljómgrunn í vor hjá stjórnarandstöðunni þáverandi og þær fengu ekki þann hljómgrunn, sem nægði, í þeim viðræðum sem áttu sér stað í sumar um myndun fjögurra flokka stjórnar.

Það var vitað þegar í vor, þegar þessi mál voru á döfinni, að sterk öfl í Framsfl. kærðu sig ekkert um þau úrræði, sem þar var brotið upp á, heldur lögðu á það allt kapp að ná höndum saman við Sjálfstfl., við þau öfl í þeim hópi, sem ætið og ævinlega hafa mænt á gengislækkanir og þær stórfelldar til þess að ráða fram úr aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum. Þessi gengislækkun er skaðleg vegna þess, að þótt ekki sé látið svo heita, að hér sé um að ræða stofngengisbreytingu, heldur markaðsgengisbreytingu, þá er stökkið svo stórt, lækkunin svo mikil, að menn hljóta að skilja það sem fráhvarf frá þeirri sveigjanlegu gengisstefnu, sem upp var tekin fyrir rúmum tveimur árum og síðan hefur verið fylgt, þeirri stefnu, að gengið skuli eftir aðstæðum færast annað hvort upp eða niður, eftir því sem rök eru til á hverjum tíma. Slík meðferð gengismála hefur ekki síst þann kost að útiloka gengisbrask og spákaupmennsku. Þar vita menn aldrei fyrir fram, hvað við tekur. Sú mikla lækkun, sem nú er gerð, um 17%, ýtir hins vegar undir verðbólguhugsunarháttinn, þann hugsunarhátt, að ætíð sé óhætt að reka spákaupmennsku með það fyrir augum að gengisbreytingar verði stórfelldar og næstum einvörðungu niður á við.

Það hefur verið rakið fyrr í þessum umr., og ég ætla ekki að gera það að umræðuefni í löngu máli, en það hlýtur að vera eitt af aðalumræðuefnum og umhugsunarefnum manna, þegar slíkar ráðstafanir eru gerðar, sem nú hafa verið tilkynntar, hver þróun hefur orðið í innflutningi og útflutningi á síðustu mánuðum. Innflutningur hefur orðið nær 2/3 meiri en á tilsvarandi tíma fyrra árs. Innflytjendur hafa keppst við að flytja inn vörur til þess að verða á undan gengisbreytingunni, þar sem hins vegar útflytjendur hafa lagt allt kapp á, eftir því sem þeir hafa megnað, að draga útflutning á sinni framleiðslu og draga greiðslur fyrir útfluttar vörur í bið eftir því, að breytt gengi færði þeim aukinn hagnað. Við þessar aðstæður er ekki að furða, þótt gjaldeyrissjóður rýrni, og ekki heldur að furða, þótt útlánaþensla verði nær óviðráðanleg, þegar í senn sækja á lánastofnanir innflytjendur og útflytjendur, sem eru að fjármagna ráðstafanir, sem byggjast á því, að verið er að bíða eftir ábata af gengislækkun. Þeir, sem tapa eins og fyrri daginn, eru sparifjáreigendurnir, sem lagt hafa fram lánsfjármagnið, sem lánastofnanirnar veita svo til gengisbraskaranna, hvort heldur innflytjenda eða útflytjenda. Hér er enn á ný sett í gang gömul og skaðleg svikamylla og að mínum dómi algerlega að óþörfu. Önnur úrræði eru að mínum dómi a.m.k. jafntiltæk og hefðu verið mun heilladrýgri.

Það er eðlilegt, að þeir, sem standa að slíkum ráðstöfunum sem nú hafa verið ákveðnar, vilji skjóta afgreiðslu á þeim hliðarráðstöfunum, sem lagt er til, að gerðar verði á þskj. 19. Ég mun ekki leggja neinn stein í götu þessa, að þetta mál hljóti skjóta afgreiðslu, en stuðningi get ég ekki heitið því.