30.08.1974
Efri deild: 8. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það fer sjálfsagt fleirum líkt og mér, þegar mál eins og þessi eru á dagskrá, um gengislækkun, lækkun íslensku krónunnar, að það fer nokkur hrollur um menn. Ég þekki a.m.k. ekki til annars en heldur illra áhrifa af slíkum ráðstöfunum. Ég hef ekki komið auga á það, að gengisfelling sem slík hafi verið frambúðarlausn á okkar vandamálum. Hún hefur e.t.v. til bráðabirgða leyst vanda á einhverjum sviðum, en hún hefur einnig skapað vanda á öðrum sviðum. Meðan annað kemur ekki í ljós en það, sem stendur í hinni loðnu og einkennilegu stefnuyfirlýsingu hæstv. núv. ríkisstj., eru vitanlega alvarlegustu áhrifin af ráðstöfun sem þessari þau, sem fram koma á heimilum launafólks í landinu, því að enn verður ekki annað séð, þó að vonandi eigi eitthvað annað eftir að koma í ljós, en hér sé um beina tilfærslu fjármagns í landinu að ræða til atvinnurekenda og peningavaldsins í landinu og frá heimilum launafólks, frá alþýðustéttum þessa lands. Við slíku var vitanlega að búast og verður því miður að búast af þeirri íhaldsstjórn, sem nú hefur tekið völdin hér og menn sjá, að dembir nú yfir okkur í stórum stíl þeim gjöfum, sem launþegar þurfa svo sannarlega að vera menn til að taka á móti.

Ég skal hins vegar verða við þeim tilmælum hæstv. forsrh. að hafa hér ekki uppi langt mál. Þegar hefur verið í Nd. gerð ítarleg grein fyrir afstöðu Alþb. til þessa máls og reyndar til efnahagsmálanna í heild, og það nægir fyllilega að vísa til þess. Alþb. er andvigt þessu máli og mun greiða atkv. gegn því.