02.09.1974
Efri deild: 11. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

8. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið frv. þetta til athugunar. N. hefur athugað frv., en ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Til fundarins mætti Höskuldur Jónsson ráðuneytisstjóri og veitti upplýsingar.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með eftirfarandi breytingum: 2. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. okt. 1974. — N. hefur samþ. að gera þessa breytingu að till. forsrh., sem óskaði eftir því, að tímanlegt svigrúm yrði til samráðs við aðila vinnumarkaðsins og bæri að sjálfsögðu að leggja áherslu á að gæta þess, að láglaunafólki yrðu bættar þessar hækkanir og það yrði jafnframt dregið úr því misræmi, sem skapaðist í kjarasamningunum í vetur. Einnig var sú brtt. samþ., að ákvæði til bráðabirgða III falli niður í framhaldi af því.

Minni hl. n. skilar séráliti um frv. það frv., sem hér er til umr., er hlekkur í þeirri keðju af ráðstöfunum, sem miða að því að bægja frá því hættuástandi, sem hefur skapast, og koma efnahagsmálum þjóðarinnar á traustari grundvöll. Þetta ástand er ekki nýtilkomið; og þessar ráðstafanir koma því engum á óvart. Allir, sem komu til Alþingis að loknum þeim kosningum, sem um garð eru gengnar, vissu, að ráðstafanir í efnahagsmálum yrðu meginverkefni nýkjörins Alþingis, og menn vissu, að þær ráðstafanir, sem gerðar yrðu, kæmu við hag almennings í landinu. Blikur hafa verið á lofti allt þetta ár og þjóðin ætlast til þess af Alþ. að það geri ráðstafanir, sem bægi þessum vanda frá. Í raun og veru var það skylda Alþingis að gera ráðstafanir í byrjun þessa árs, sem hefðu tvímælalaust komið mun betur við þjóðfélagið. Þær till., sem þáv. forsrh. lagði fram, höfðu ekki meiri hl. hér á Alþ., eins og kunnugt er. Allt hefur þetta orðið til þess að gera vandann stærri og meiri. Það er t.d. nokkuð ljóst, að það hefði verið hægt að komast hjá þeirri gengisfellingu, sem nú hefur þurft að grípa til, hefði verið grípið í taumana fyrr. En allt heyrir þetta fortíðinni til, og það er ekki annað að gera en taka á þessum vanda eins og hann blasir við í dag.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er að nokkru leyti beint framhald þeirra umr., sem fóru fram á Alþ. í vetur um hækkun söluskatts. Þá var ríkisstj. knúin til að falla frá hækkun um eitt söluskattsstig. Hefur komið í ljós, að sú ákvörðun var óskynsamleg, bæði með tilliti til fjárþarfa ríkissjóðs og með tilliti til hinnar öru verðbólguþróunar innanlands. Síðan þær umr. fóru fram, hefur ríkissjóður þurft að taka á sig aukin útgjöld.

Eins og fram kemur í aths. með lagafrv. þessu, er þar um að ræða auknar niðurgreiðslur, svo og þá staðreynd, að ríkissjóður hefur orðið að hlaupa undir bagga hjá ýmsum ríkisstofnunum vegna mjög erfis fjárhags. Má þar nefna Rafmagnsveitur ríkisins, en fjh.- og viðskn. hefur fengið þær upplýsingar, að ríkissjóður hafi þurft að greiða 270 millj. vegna hallarekstrar þessa fyrirtækis. Þá mun halli Vegagerðar ríkisins hafa verið áætlaður 800 millj. og talsverður hluti þess þegar greiddur úr ríkissjóði. Það virðist einsýnt, að ríkissjóð vantar allmiklar tekjur, eigi rekstur hans að vera hallalaus.

Í þessu sambandi er rétt að benda á málefnasamning ríkisstj., þar sem lögð er áhersla á, að þær aðgerðir, sem nú er verið að framkvæma, komi sem minnst við þá, sem lægst laun hafa og lakast eru settir í þjóðfélaginu. Mun vera ákveðið, að niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum verði haldið áfram. Hversu miklar niðurgreiðslur verða, er ekki ákveðið, en það má benda á, að ef niðurgreiðslum verður haldið áfram í sama mæli, mun það kosta ríkissjóð um 800 millj. kr. fram til áramóta. Það er einnig fyrirsjáanlegt, að fjölskyldubætur verða auknar sem liður í þeim aðgerðum, að þær efnahagsráðstafanir, sem nú eru gerðar, komi sem minnst við þá, sem lægstar ráðstöfunartekjur hafa. Ákvörðun um þetta verður væntanlega tekin að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Einnig er fyrirsjáanleg hækkun á lífeyristryggingum og launum, og allt mun þetta auka útgjöld ríkisins mjög mikið.

Vert er að geta þess, að áætlað er, að nettótekjuaukning ríkissjóðs vegna gengisbreytingarinnar geti orðið 200–300 millj. Slíkar áætlanir verður þó að taka með nokkurri varúð. Það er ljóst, að innflutningur hefur verið óeðlilega mikill að undanförnu. Innflutningur og neysla mun því dragast saman við þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar, og verka þannig til lækkunar á tekjum ríkissjóðs.

Af því, sem nú hefur verið sagt, verður að teljast nauðsynlegt að bæta við tveim söluskattsstigum, eigi ríkissjóður að verða þess megnugur að gera nauðsynlegar ráðstafanir til jöfnunar í þjóðfélaginu. Með þessari hækkun söluskatts er einnig markaður aukinn tekjustofn, sem er til þess fallinn að mæta þeirri tollalækkun, sem verður um næstu áramót vegna samninga Íslands við EFTA og síðar við Efnahagsbandalagið.

Ég vil að lokum leggja á það áherslu, að mikið kapp verði lagt á að tryggja það, að þessar ráðstafanir komi sem minnst við þá, sem lægstar tekjur hafa og geta ekki borið meiri byrðar. Í þeim umr., sem fram hafa farið á Alþ., hefur komið fram ótti margra vegna þeirra tilfærslna í þjóðfélaginu, sem þessar ráðstafanir leiða af sér. Ég vil benda á, að þessar ráðstafanir eru ekki einar um það að skapa tilfærslur. Tilfærslur í íslensku þjóðfélagi eru mikið vandamál, og það, sem fyrst og fremst veldur þessu vandamáli, er verðbólgan. Það verða sennilega meiri tilfærslur vegna verðbólgu milli þeirra, sem hafa fjármagn undir höndum frá lánastofnunum og sjóðum, og þeirra, sem hafa ekki slíkt fjármagn, heldur en allar tilfærslur í gegnum almannatryggingakerfið. Þessar miklu tilfærslur tekur ríkisstj. væntanlega til athugunar, því að hér er um mikið vandamál að ræða, sem að vísu verður erfitt úrlausnar, nema dragi úr verðbólgu.