02.09.1974
Efri deild: 11. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

8. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., varð fjh.- og viðskn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, og koma fram þrjú nál. Ég skila sérstöku nál., sem fulltrúi Alþfl. á þskj. 25.

Í aths. við frv. segir, að greiðslustaða ríkissjóðs hafi farið mjög versnandi á undanförnum mánuðum og komi þar til áhrif frá auknum niðurgreiðslum og erfiðum fjárhag hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Vegasjóði. Til þess að bæta úr þessu til skamms tíma er hér lagt til, að söluskattur verði hækkaður um 2% og verði alls 19 stig af smásöluverði, er snúi þá að neytanda.

Hér er farið inn á nýjar brautir með því að leggja til, að söluskattur, sem er eftir reynslu langtímaskattstofn, sé hækkaður til þess að mæta skammtímalausn á stöðu ríkissjóðs. Á Alþ. í vetur var gerð skattkerfisbreyting, sem við í Alþfl. stóðum að, til að draga úr beinum sköttum og fara yfir í neysluskatta. Þetta er því athyglisverðara, sem það var eitt af aðalmálum hjá sjálfstæðismönnum við afgreiðslu fjárl. fyrir yfirstandandi ár, að setja ætti þak, eins og þeir orðuðu það, á fjárl. og draga þannig verulega úr aukinni skattheimtu á almenning í landinu. Nú hafa mál hins vegar skipast þannig, að þeir, sem lögðu til, að byrjað væri á þaksmíðinni, svo frumlegt sem það nú er, eru komnir á þak stjórnmálanna, og skyldi maður því ætla, að hinir „nýju fiðlarar á þakinu“ hæfu að spila samkv. fyrri forskrift, en svo er að sjá sem þær nótur finnist nú ekki. Sá tónn, sem með þessu frv. er gefinn, virðist mér því vera falskur og ekki í samræmi við frv. og orð hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. núv. sjútvrh., sem voru talsmenn flokksins varðandi frv.- gerð á sínum tíma í vetur.

Fyrir Alþ. liggur nú að leysa úr fjárhagsvandræðum Rafmagnsveitna ríkisins og Vegasjóðs, og meðan ekki liggur fyrir, að vandamál þessara tveggja ríkisstofnana verði leyst, eins og till. eru um á þessum þskj., telur undirritaður ekki rétt að koma með hækkun á söluskatti til skyndilausnar fjárhagsvandræðum þessara ríkisfyrirtækja.

Það er viðurkennt af öllum, að of mikil þensla ríkir hér í efnahagskerfi okkar og óðaverðbólgan geisar með meiri ofsa en nokkru sinni áður. Höfum við þá sett glæsilegt Evrópumet og er að jafnast við heimsmetið í Suður-Ameríku. Það væri því rökrétt að ætlast til þess, að fyrstu ráðstafanir hæstv. ríkisstj. væru til þess gerðar að hamla rösklega á móti verðbólgunni, en ekki sem olíuskvetta á bálið.

Það kom fram á fundi n., að staða ríkissjóðs var í ágúst - 2.8 milljarðar, og mun það vera, miðað við sama tíma í fyrra, um 2 milljörðum lakari staða. Mér barst í hendur rétt áður en ég fór í ræðustól yfirlit, eins og okkur var lofað á fundinum, er sýnir hreyfingu á stöðu ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi við Seðlabankann, en inneign var um áramót 144 millj., en staðan er yfirdregin nú 30. ágúst um 1230 millj. kr., svo að sveiflan er hér rúmlega 1300 millj. í óhag fyrir ríkissjóð. Hæst fór þessi yfirdráttur, eins og ég nefndi áðan í - 2.8 milljarða. Hins vegar var ekki um það spurt beint, hvernig staðan væri í innheimtu skatta, svo að við fengjum sambærilega fjármagnshreyfingu inn og út hjá ríkissjóði, og einnig um tolltekjur. Til þess er of skammur tími, og þess vegna er m.a. óeðlilegt, að þessi hraði sé hafður á afgreiðslu þessa máls frá mínu sjónarmiði. Einnig var upplýst, að lántökur eru orðnar miklar. Það var nefnt um 9 milljarðar eða meira á þessu ári, og er það hærri tala en áður hefur verið. Þá kom ekki fram heldur, hvort hlutfall hefur farið versnandi varðandi heildartekjur ríkissjóðs eða ekki, milli þessara tveggja þátta: lántöku og tekjuöflunar ríkissjóðs.

Ég tel því óeðlilegt að afgreiða málið nú þegar með þessum hraða, þar sem við fáum ekki heildaryfirsýn yfir þessi mál, og legg því til, að frv. verði fellt, fyrst ekki er hægt að bíða og fá betri yfirsýn yfir þá fjármagnshreyfingu, sem snertir svo mjög afkomu ríkissjóðs. Ég lýsi því andstöðu við þetta frv. eins og það liggur fyrir, og sérstaklega þegar við vitum ekki um afgreiðslu á verðjöfnunargjaldi á raforku og við vitum ekki um afgreiðslu á tekjuöflun í Vegasjóð, en gert mun ráð fyrir að leggja verulega mikið á bensín til að fá verulega auknar tekjur í Vegasjóð. Þörfin er vissulega mikil. En það er mál allra manna, þegar þenslan er svona mikil í þjóðfélaginu, að ríkisvaldið verði að draga úr, sigla hægar, og enginn hefur verið harðari talsmaður þess en einmitt Sjálfstfl., þegar þenslan er svona mikil, að ríkisvaldið sé ekki í kapphlaupi við einstaklingana, eins og sjálfstæðismenn hafa orðað það. Það hafa engir verið harðari talsmenn þess. Við hinir á vinstri vængnum höfum þó viljað, að ríkið héldi uppi sem jafnastri útgerð á fjármagni. En það getur farið svo, að um of sé gert í því efni, og nú miðað við ríkjandi aðstæður eru allir stjórnmálaflokkar sammála um, að hömlun sé rökrétt, en alls ekki hvöt til aukinna útgjalda fyrir almenning og sparnaðarhvötin sé ekki í algeru lágmarki.

Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann, það er hægt að fara aðeins til 18. des. 1972 og vitna í sjónvarpsviðtal, sem ég reyndar gerði ekki á föstudaginn, þar sem ég var beðinn um að tefja tímann þá ekki, en þá var sjónvarpsvíðtal við fyrrv. forsrh. og hann inntur mjög eftir því, hvers vegna þáv. vinstri stjórn stæði að gengisfellingu, sem var aðeins minni en þessi. Orðrétt, með leyfi forseta, örstutt, sagði Ólafur Jóhannesson þáv. forsrh.:

„Ég álít, að með þessari aðferð sé rekstrargrundvöllur tryggður fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, atvinnuöryggi tryggt og kaupmáttur launa tryggður. Það er höfuðatriðið að mínum dómi.“

Rétt áðan var talsmaður fyrrv. forsrh. að ljúka hér máli sínu og sagði, að vandinn, sem við stæðum frammi fyrir núna, væri gamall. margra mánaða gamall, langt á leið kominn. Ekki virðast ráðstafanirnar, sem gerðar voru í des., hafa borið mjög mikinn árangur. Sama forsendan er lesin upp í dag fyrir þessari gengisfellingu, og þess vegna er ég á móti henni, vegna þess að reynslan yfir 30 ára tímabil sýnir okkur, í hvað stefnir, og það er enn verra vegna þess, að bankavaldið er svo sterkt, að hvergi nærri er hlustað á þau hagsmunasamtök, sem eiga hér hlut að máli og alltaf er verið að bjarga, en þó ekki hlustað á, þegar þau koma með tillögu sameiginlega tekna á stórum fundum sínum. Þá gleymist að hlusta á þau.

Jóhann Hafstein segir þá líka í viðtali, örstutt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég fyrir mitt leyti gagnrýni fyrst og fremst þessa gengislækkun vegna þess, hvernig hana hefur borið að:

Hana ber nú að í góðæri, meira góðæri en við höfum haft kannske um langan tíma. Það er kjarni málsins. Þegar við erum að fella gengið, verða að vera fyrir þeir erfiðleikar í rekstrinum og það lággengi á sjávarafurðum, að allt sé komið í hnút. En það er öðru nær núna. Það er mjölið eitt, sem er erfitt, lítilsháttar verðlækkun á blokkinni og engar sérstakar sölutilraunir gerðar til þess að losna við freðfiskinn nema á hefðbundna markaði í Bandaríkjunum og Rússlandi. Mér er ekki kunnugt um það. Ef svo væri, mætti gjarnan segja þjóðinni frá því, hversu stór átök hafa verið gerð til þess að losna við neytendafisk, pakkaðar neytendablokkir, á annan markað. Það er þó skylda þessara manna, þegar herðir að, að reyna að bjarga sér heldur en koma bara til almennings og biðja um, að gengið sé fellt og fært á milli í þjóðarbúinu, svo að milljörðum nemur. Það þætti ekki búmannlegt, ef þannig stæði einstaklingur að hjá sjálfum sér, hann reyndi engan veginn að bjarga sér, biði bara eftir því, að tvö stór fyrirtæki, sem hafa verið og eru mikilsverð fyrir Ísland, sendu pantanir inn, og ekkert annað. Yfirleitt reyna þessir aðilar enga markaðsöflun nema í Bandaríkjunum og lítils háttar austan tjalds og svo búið. Mér vitanlega hefur fiskur í neytendapakkningum sáralítið lækkað, ef þá nokkuð, það er blokkin. Er það merkilegt, þar sem því hefur verið haldið svo mjög fram, að togarafiskurinn væri slík úrvalsvara, að ekkert jafnaðist á við hann, og það er mjög merkilegt, að fiskur hjá þessum togurum okkar, ágætum skipum, skuli ekki vera eftirsóttari en raun ber vitni.

Ég vil ekki að tefja tímann með því að fara út í vangaveltur um sjálfa gengisfellinguna, hún er gerð og búin. En ég vildi drepa á þetta í samhengi, vegna þess að mér virðist því miður, að við stefnum um of í verðþenslu gagnstætt því, sem við, held ég allir hér inni, gjarnan vildum, að við gætum haft raunverulegan hemil á verðbólgunni.