02.09.1974
Efri deild: 11. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

8. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég get ekki á mér setið að mótmæla þeim augljósa útúrsnúningi, sem hæstv. fjmrh. leyfði sér að hafa hér í frammi áðan á orðum mínum. Ég sagði að sjálfsögðu aldrei, að ég teldi, að fjárhagsvanda ríkissjóðs ætti að leysa með erlendum lántökum. Ég nefndi þvert á móti önnur úrræði, öll af innlendum toga sprottin: Í fyrsta lagi skattlagningu á ýmiss konar eyðslu, en tók það skýrt fram, að við ættum ekki að stefna að því að skattleggja frekar en orðið væri almennar neysluvörur. Í öðru lagi gæti komið til greina niðurskurður á útgjöldum ríkissjóðs, og einn skatturinn, sem ég nefndi, var verðbólguskattur. En erlendar lántökur koma inn í þessar umr. fyrst og fremst vegna þess, að því er haldið fram í umr. í hv. fjh.- og viðskn. af fulltrúa í fjmrn., að ein af þeim röksemdum, sem liggja að baki þessu frv., sé sú, að erlendar lántökur séu orðnar óhóflega miklar á þessu ári. Það er þess vegna, sem ég taldi mér skylt að láta það uppi, sem rétt er, að ef málið er skoðað frá tölulegu sjónarmiði og erlendar skuldir eru bornar saman við útflutningstekjur þjóðarinnar og heildarþjóðartekjur, þá er þar engin stórkostleg hætta á ferðum.

Ég heyrði hæstv. fjmrh. lesa hér upp úr skruddu einni ágætri fáein orð, sem gengu í gagnstæða átt, og vil aðeins benda á það, að þar var um órökstuddar fullyrðingar að ræða, — fullyrðingar, sem ekki studdust við neinn tölulegan samanburð milli ára eða samanburð við tekjur þjóðarinnar eða útflutningstekjur, og hæstv. fjmrh. verður þar af leiðandi að kyngja staðreyndunum eins og þær eru og eins og þær blasa við, þegar búið er að sýna honum fram á það með rökum, hvernig málin standa, og hann verður að sjálfsögðu að temja sér þau grundvallarsannindi, að ekki er allt satt, sem stendur í bókum.