03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

8. mál, söluskattur

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það hefur komið fyrir áður, að ég og hv. 2. þm. Austf. höfum haft misjafnar skoðanir á tekjuöflun vegna ríkisins, og við því er í sjálfu sér ekki neitt að segja. Það er líka misjafnt, hvað menn meta það, hvort meta á meira samneyslu eða einkaneyslu í landinu, og ég held, að það hafi einmitt verið stefna fyrrv. ríkisstj. að meta samneysluna allmikið og þess vegna hafi hún tekið myndarlega á mörgum þýðingarmiklum verkefnum þjóðarinnar, sem munu lengi í minnum höfð. Ég held, að ég muni því ekki biðja neinn afsökunar á þeirri skattheimtu, sem ég hef gert. Hins vegar verð ég að játa það á mig, að tekjuskattur á Íslandi er nú lægri en hann hefur verið sennilega allt að því frá upphafi vega, og ég stóð fyrir að lækka hann svo. Jafnhliða voru á s.l. vetri lækkuð aðflutningsgjöld á þeim vörum, sem til landsins voru fluttar, svo að ekki þyrfti að undrast, þótt eitthvað þyrfti að aðhafast í aðra átt í tekjuöflun.

Ég verð líka að segja það, að ég taldi, að ekki væri ástæða til að ætla, að tekjur færu svo fram úr áætlun á s.l. sumri, að hægt væri að standa við þær niðurgreiðslur, sem þá voru ákveðnar. Hins vegar er það alveg rétt, eins og hv. 2. þm. Austf. tók fram í ræðu sinni hér áðan, að tekjur hafa reynst það miklar fram til þessa, að einmitt í skýrslu þeirri, sem sérfræðingarnir gerðu fyrir hæstv. núv. forsrh., kom það fram, sem hann réttilega las upp, að gert væri ráð fyrir, að tekjur og gjöld ríkisins mundu standast á, miðað við það, að niðurgreiðslur, sem auknar voru í sumar, yrðu felldar niður 1. sept. Það var miðað við, að það ástand, sem var fyrir þann tíma, yrði ekki látið vara lengur. Það er því á misskilningi byggt að halda, að um 3 milljarða kr. rekstrarhalla sé að ræða á ríkissjóði á þessu ári. Það kæmi þá eitthvað nýtt upp, sem ekki er séð fyrir nú.

Það, sem ég hins vegar rengdi í sambandi við þetta og taldi óvarlegt, en gekk þó inn á, var að meta það, að ríkissjóður mundi klára sig með sín útgjöld til áramóta, ef ekki væri bætt á útgjöldin og niðurgreiðslurnar væru felldar niður 1. sept. Þetta er rétt fram tekið. Hins vegar óttaðist ég það og óttast enn, að afturkippurinn í útflutningi og þar af leiðandi tekjum af aðflutningsgjöldum og að einhverju leyti söluskatti mundi verða það mikill eftir þær aðgerðir, sem nú væru gerðar í efnahagsmálum, að þess vegna mundi draga meira úr tekjunum en reiknað var með. Um þetta má að sjálfsögðu alltaf deila, og fyrir því get ég ekki frekar en aðrir fært rök. Hins vegar var það, sem lagt var til grundvallar í umr. um stjórnarmyndun, þegar rætt var bæði á vinstri og hægri kant, að upp væru tekin ný útgjöld, þ.e. að niðurgreiðslunum yrði ekki hætt 1. sept., eins og gert var ráð fyrir í nál. því, sem hv. 2. þm. Austf. las hér upp áðan, og fleiri útgjöld kæmu þar til, m.a. aðgerðir í efnahagsmálum, sem tengdar væru þeim aðgerðum, sem nú þegar er búið að gera að nokkru leyti, eins og gengisbreyting og kostnaður, sem leiddi af gengisbreytingunni sjálfri. Ég hélt því fram í umr. á báðum stöðum, að þetta væri ekki hægt að gera nema afla ríkissjóði nýrra tekna, og taldi, að tvö söluskattsstigin mundu nægja til þess. Vona ég, að hv. 2. þm. Austf. muni, að ég hélt þessu fram. Enn fremur hélt ég því fram, að í fjárl. 1975 yrði að halda áfram að lækka aðflutningsgjöldin og því yrði ekki hægt að mæta nema með þeirri leið, sem við töldum á s.l. vetri, að raun bæri bæri vitni um, að afla nýrra tekna vegna þeirra breytinga, sem yrðu á kerfinu innbyrðis. Ég benti auk þess á það vandamál, sem væri bæði í sambandi við vegagerðina og Rafmagnsveitur ríkisins, vegna þess að ekki tókst að fá fram þá tekjuöflun á s.l. ári, sem þörf var á til þess að halda uppi eðlilegum framkvæmdum. Það var ekki hægt að halda uppi þeim framkvæmdum, sem vegáætlunin gerði ráð fyrir, vegna þeirrar hækkunar, sem á hefði orðið, en eðlilegum framkvæmdum yrði að halda uppi í vegagerð, eins og gert hefur verið, og til þess mun Vegagerðina skorta fjármagn á þessu ári.

Þetta vildi ég, að kæmi hér fram nú við þessa umr. Hér er í raun og veru um það að ræða að mæta með tekjuöflun verkefnum, sem ekki var gert ráð fyrir í þeirri skýrslu, sem hér var gerð, og þarf enginn að því að brosa, því að þetta eru staðreyndir einar.

Hinu vil ég svo bæta við, að ég vona, að hv. 2. landsk. hafi fylgst það vel með umr. í fyrri lotunni, að hann hafi einnig vitað þetta. En við munum það, við hv. 2. þm. Austf., að við ásamt hv. 5. þm. Vestf. og hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni sátum sérstakan fund einmitt til þess að ræða um áhrif gengisbreytingar á tekjuöflun og útgjöld ríkissjóðs, þá þætti, sem við áttum við að etja.

Hitt vil ég svo segja í sambandi við útgjöld nú síðustu mánuðina, að það hefur jafnan verið svo með reynsluna af viðskiptum ríkissjóðs við Seðlabankann, að þau hafa verið einna erfiðust í júní, júlí og ágúst. m.a. er engin tekjuskattsinnheimta í júlímánuði, og í ágúst varð hún að þessu sinni mjög takmörkuð vegna þess, hve skattstofurnar voru seinar á ferðinni með álagninguna. Staðan um síðustu mánaðamót hygg ég, að hafi ekki verið verri en vant er, þannig að ég hygg, að þær spár, sem sérfræðingarnir spáðu um afkomu ríkissjóðs á árinu, fái staðist, þegar fram hjá þessum sérstöku verkefnum, sem hér er raunverulega verið að fjalla um, er lítið, því að hér er verið að fjalla um að afla tekna til þess að mæta útgjaldaþörf, sem ekki var reiknað með í þessari skýrslu og er hins vegar ákveðið, að farið verði í. Það er auðvitað ekki endalaust hægt að bæta á ríkissjóð útgjöldum, án þess að tekna verði aflað.

Ég endurtek, að það er engum í hag, hvorki mér, hv. 2. þm. Austf. né öðrum hv. þm., að bæta á ríkissjóð útgjöldum, án þess að tekna sé aflað til að koma þar á móti. Og allir viljum við koma áfram þeim verkefnum, sem við höfum áhuga á, og ég hygg, að svo verði einnig, þegar fram líða stundir. Ég held, að verkefnin á Íslandi séu svo mörg, nauðsynleg og stór, að það verði erfitt að fá þingheim til að skera þau við trog, eða a.m.k. ætla ég að bíða þeirrar stundar, áður en ég fullyrði, að svo verði gert.