03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

8. mál, söluskattur

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Áður en ég kem að efnisatriðum þess frv., sem hér liggur fyrir, kemst ég ekki hjá því að fara nokkrum orðum um formsatriði, er varða afgreiðslu þessa máls og raunar annarra stjfrv., sem nú er verið að ýta með miklum hraða í gegnum þetta aukaþing.

Ég verð að rifja það upp fyrir mönnum, að í 2. gr. stjórnarskrárinnar er gert ráð fyrir þrískiptingu valdsins á Íslandi, í íslenska lýðveldinu, milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, eins og tíðkast í öllum ríkjum, sem hafa svipað stjórnarfyrirkomulag og við höfum.

Með því að hér er þingbundin stjórn, er ráðh. ætlað, raunar skylt að sitja á Alþ., hvort sem þeir eru kjörnir þm. eða ekki. En eins og sjá má af bæði stjórnarskránni og þingsköpum, eru alveg sérstök ákvæði um ráðh. og þeir lúta alveg sérstökum lögum í störfum þingsins. Þeir hafa margvísleg sérréttindi, sem ekki eru í sjálfu sér óeðlileg, því að þeim er ætlað að vera hér til þess að flytja mál ríkisstj., útskýra mál ríkisstj. og verja mál ríkisstj. Hins vegar liggur í hlutarins eðli, að ef þessi skipting á valdinu á að þýða nokkurn skapaðan hlut, hlýtur Alþ. að starfa á vissan hátt sjálfstætt frá ríkisstj., og kjarninn í starfi Alþ. hvað snertir athugun og rannsókn mála er nefndarstörfin. Það er alveg rétt, að það er í raun og veru ekkert í lögum nema þetta almenna ákvæði stjórnarskrárinnar, sem bannar, að ráðh. gegni venjulegum störfum hér á Alþ. Það er ekkert, sem bannar, að ráðh. sé forseti á Alþ. En engum manni hefur dottið í hug hingað til mér vitanlega að gera það. Það er heldur enginn lagabókstafur nema þetta stjórnarskrárákvæði, sem segir, að ráðherrar skuli ekki vera í þn. En þegar menn athuga, að þn. eiga að rannsaka og kanna einmitt sérstaklega, en ekki síst frumvörp ríkisstj., eiga að leita álits annarra aðila og athuga þessi mál, þá sést, að það er algerlega gagnstætt grundvallarhugsun stjórnkerfisins, að ráðh. eigi sæti í nefndum, enda hygg ég, að það standi í fræðibókum, að það sé í sjálfu sér ekkert, sem banni það, að ráðh. sitji í n. á Alþ., en það hafi ekki tíðkast. Að vísu eru undantekningar frá því. Það hafa komið fyrir einstaka tilfelli, og þetta er ekki óalgengt varðandi utanrmn. Engu að síður er það regla, að ekki hefur tíðkast, að ráðh. sitji í þn., og það er algerlega óviðeigandi og raunverulega brýtur í bága við grundvallarhugsjón okkar stjórnkerfis.

Nú hefur það gerst á þessu skamma sumarþingi, að þessari reglu hefur verið kastað út og gleymt. Núv. ríkisstj. virðist ekki hafa nokkra tilfinningu fyrir þessari skiptingu valdsins, og hún hefur starfað síðan hún tók til valda án þess að sinna því á nokkurn hátt, þótt það hafi verið gagnrýnt, að það er ekki viðeigandi og það er ekki í samræmi við anda íslensks stjórnarfars, að ráðh. sitji í þingnefndum. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að það sé algert einsdæmi í sögu Alþ.,forsrh. landsins sitji sem formaður í þn., sem á að fjalla um stjfrv. um stórfelldar álögur á þjóðina og það sé hann, sem eigi að stjórna meðferð n. á þessu frv. Auðvitað var hann fljótur að því. Það var ekki mikið verið að leita út fyrir þingsalina eða spyrja stéttir eða hagsmunahópa um þetta frv. Það var afgreitt fljótt og vel. En ég hygg, að þetta hafi aldrei komið fyrir áður. Ég hygg, að það hafi aldrei komið fyrir áður, að stjfrv. sé vísað til afgreiðslu til n., þar sem sitja 4 ráðh. af 7 nm., m.ö.o. ríkisstj. sjálf hefur hreinan meiri hl. í n. Það, að fjmrh. landsins leggi til við Alþ. að vísa frv. um stórfelldar skattaálögur á þjóðina til n., þar sem hann á sjálfur sæti með þremur meðráðh. sínum og þeir eru í meiri hl., hefur aldrei áður komið fyrir í þingsögunni, og í sannleika sagt er þetta þinghneyksli. Það heitir svo, að hér á Íslandi eigi að vera þingbundin ríkisstj., en ég fæ ekki betur séð á þessu sumarþingi en hér sitji stjórnbundið þing.

Alþingi Íslendinga hefur sætt mikilli gagnrýni á undanförnum árum og áratugum fyrir það, að völd þess og áhrif fari minnkandi, og er sagt, að við séum að verða afgreiðslustofnun eða gúmmístimpill. Ég hef aldrei viljað viðurkenna þetta. En það er ekki hægt að komast hjá því að viðurkenna, að núv. ríkisstj. hefur á örfáum dögum gert þessar ásakanir að sannleika. Ég skil ekki af hverju. Í þessari nýju ríkisstj. eiga sæti tveir af lærðustu prófessorum þjóðarinnar í stjórnlagafræðum og a.m.k. tveir lögfræðingar að auki. Þingsköpin eru gömul og gera ráð fyrir ýmsum möguleikum. Segir t.d. í 15. gr. um nefndir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú þykir nauðsynlegt vegna vinnubragða að hafa mannaskipti í nefndum, lengur eða skemur, og skal vinnunefndin (þ.e. sérstök nefnd, sem er til á þessu þingi) þá hlutast til um. að mannaskiptin komist á, þó svo, að viðkomandi fastanefndir samþykki.“

Það er sennilega innan við klukkustundarverk að breyta um nm. samkv. þessu ákvæði. Mér þykja þm. stjórnarflokkanna, þeir fáu, sem hafa fyrir því að mæta á fundum á þessu þingi, vera að gera sér þetta furðulega að góðu, ef þeir sætta sig við, að svona sé með þá farið. Ég vil því vegna virðingar Alþingis krefjast þess, að ráðh. núv. ríkisstj. víki á stundinni úr öllum þn., sem þeir eru starfandi í. Það er ekki nema klukkustundarverk að setja aðra þm. í þessar n., og það er nóg af stjþm., sem ekki eru það uppteknir, að þeir geti ekki gegnt þessum störfum með sóma.

Herra forseti. Ég skal láta útrætt um þetta formsatriði. Það er að vissu leyti formsatriði. En það er mikið á bak við þetta, virðing Alþingis og það, hvort það á að vera afgreiðslustofnun og gúmmístimpill eða sjálfstæð stofnun, sem fer með eitt af þremur valdssviðum íslenska lýðveldisins.

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram um söluskattinn, hefur komið í ljós, að þessari nýju ríkisstj. er margt sérstaklega vel gefið. Hún virðist t.d. hafa tvo fjmrh., sem báðir eru búnir að tala í þessum umr., og það er eins og hvítt og svart, hvað þeir segja. Þeir eru aðeins sammála um eitt: Það þarf í flýti að leggja á þjóðina tvö söluskattsstig, sem eru álögur upp á rúmlega 1800 millj. kr. á ársgrundvelli og munu leggjast af fullum þunga á verðlag í landinu, án þess að ætlunin sé, að launþegum sé að nokkru leyti bætt. Annar fjmrh. telur, að ástand ríkissjóðs sé svo hroðalegt, að það verði að gera tafarlausar björgunarráðstafanir og ná inn 300 millj. kr. fyrir áramót til þess að bjarga þessum milljónum, sem hann telur, að vanti í sjóðinn. Hinn ráðh. segir, að þetta sé bölvuð vitleysa, ríkissjóður sé ekkert illa staddur, það sé bara vegna sumarleyfa, sem hann er illa staddur hjá Seðlabankanum í augnablikinu. Hinn ráðh., sá seinni, sem gaf hollráðin, þegar þeir skiptust á skrifstofum, telur, að það sé ekki vegna lélegrar afkomu, sem þurfi að leggja þetta á, heldur bara af því að ríkissjóður sé að taka á sig ný verkefni. Hverjum eigum við að trúa? Hver er stefna og skoðun þessarar ríkisstj.?

Hæstv. ríkisstj. hefur ekki setið að völdum viku enn þá. Hún er langt komin með að koma tveimur stórmálum gegnum Alþ. á þessum tíma, m.a. fyrir umburðarlyndi stjórnarandstöðunnar, sem ekki hefur séð ástæðu til að tefja framgang þessara mála, enda augljóst, að mikill meiri hl. styður núv. ríkisstj. og á því rétt á því að fá vilja sinn fram.

Í sambandi við þá gengislækkun, sem þegar hefur verið gerð, er það að segja, að valdíð til gengislækkunar flutti Alþ. sjálft til annarra aðila, og er því ekkert óeðlilegt, að ráðstafanir í sambandi við gengislækkun fái tiltölulega skjóta afgreiðslu, raunar nauðsynlegt, að svo sé, úr því að gengið hefur verið lækkað. En mér er tjáð af kunnugum mönnum, að þegar litið er á heildarvöruútflutning og þjónustuútflutning Íslendinga, muni þessi gengisbreyting flytja um 9 milljarða kr. Nú er þetta að vísu heildartala, og í henni felast fjöldamargir liðir á fjöldamörgum stöðum, sem koma bæði inn og út á reikningunum, eins og orða má. En það eru lægstu áætlanir þeirra manna, sem ég vil trúa og kunnugir eru, að beinar álögur á allan almenning í landinu í sambandi við þessa gengislækkun séu yfir 4 milljarða, og sumir áætla nokkru hærra. Söluskatturinn mun, að því er nú er áætlað, gefa um 900 millj. á hvert prósentustig. Ríkissjóður fær það að vísu ekki allt, 8% eða 70 millj. renna til sveitarfélaganna. En álögurnar á þjóðina eru hinar sömu, svo að þarna er verið á ársgrundvelli að leggja á þjóðina a.m.k. um 800 millj. kr. Við skulum láta landbúnaðarafurðahækkunina um 20% eiga sig. Það kom fyrir hjúin maddömu Framsókn og Mr. Íhald, eins og stundum vill verða, að þau áttu lausaleikskrakka, áður en til hjónabandsins kom. Þessi lausaleikskrakki var hækkun á landbúnaðarafurðum um rúmlega 20%, sem var lögð á neytendur bótalaust. En við erum umburðarlyndir í þeim efnum, Íslendingar. Við skulum ekki einu sinni telja þetta með, við skulum láta bensínhækkunina bíða og við skulum láta raforkuskattinn bíða, því að eftir því sem best er hægt að frétta í baksölum Alþ., mun varla vera orðið samkomulag í stjórnarherbúðunum um þetta. Tökum bara þessi tvö stóru atriði, gengislækkunina og söluskattinn. Það eru álögur, sem nema a.m.k. 6–7 milljörðum kr. á einni viku. Núv. ríkisstj. hefur ekki setið viku enn þá, en hún hefur lagt nýjar álögur á þjóðina, sem nema a.m.k. 1 milljarði á dag. — Einn milljarður á dag, Matthías. Ég held, að það verði ekki hjá því komist, að þetta sé — ja, ég vil ekki segja glæsilegt met, en a.m.k. öruggt Íslandsmet, og er þó töluvert langt til jafnað. Það hefur engin ríkisstj. nokkru sinni byrjað feril sinn á sambærilegan hátt, að reka aukaþing áfram með slíku óðagoti, að jafnvel virðing þingsins er tröðkuð undir fótum, og vinna svo það afrek að leggja sem svarar a.m.k. milljarði nýjar álögur á þjóðina á hverjum degi. Ég vona, að þeir fylgi góðu fordæmi og hvíli sig sjöunda daginn.

Hæstv. ríkisstj. hefur í stjórnarsáttmála sínum, ef sáttmála skyldi kalla, lofað ýmsu, sem muni einhvern tíma koma á móti þessum álögum og létta þær fyrir launþega almannatrygginga og fyrir annað láglaunafólk í landinu. Þar er bent á ýmsar hugmyndir með mjög almennu orðalagi, en ekkert hneppt fast. Hitt eru að verða staðreyndir, að álögurnar koma og þær koma fljótt, og þær eru eins þungar og við var að búast af hreinni íhaldsstjórn.

Það var ekkert nýtt að heyra hæstv. samgrh. hér áðan, hann er gamall og góður kunningi, en það er öllu nýstárlegra að heyra hinn fjmrh., sem Sjálfstfl. leggur til, tala um þessi mál. Fyrir nokkrum mánuðum mælti hann fyrir allmikið unnu og ítarlegu skattafrv., sem flokkur hans flutti hér, og ég hygg, að það hafi verið skoðun manna, að það frv. mundi svipta ríkissjóð 3–4 milljarða kr. tekjum, ef það hefði verið samþ. eins og það var. Hann taldi það vera nokkru minna, en 1–2 milljarðar voru lágmarkstölur. Þá sagði hann, að með samræmdri stefnu í efnahagsmálum, hagræðingu í ríkisrekstri hefði auðveldlega verið hægt að brúa þetta bil með sparnaði á vissum sviðum og minni framkvæmdahraða, — auðveldlega hægt. Við skulum sjá, hvað það er auðvelt núna og hvort Sjálfstfl. vill standa við ekki aðeins þessa yfirlýsingu, heldur fjölda margar aðrar, sem hann hefur sjálfur gefið.

Fyrir síðustu jól var lagt fyrir Alþ. frv. um tollskrá, sem hafði í för með sér allmikla lækkun á tollum, og þáv. ríkisstj. vildi fá 1% hækkun á söluskatti. Aðaltalsmaður Sjálfstfl., sem var fyrrv. fjmrh. þess flokks, kallaði þetta 1% söluskatts „tuddabragð“, ef þeir hafa það rétt eftir í þingtíðindunum, sem ég vona, að þeir geri. Og hann sagði: „Að í 30 milljarða fjárl. skuli það skipta sköpum, að hæstv. fjmrh. fái 1% söluskatt, það er auðvitað allt of fjarstætt til að leggja við því eyra.“ Þetta var skoðun Sjálfstfl. á söluskattsmálum fyrir örfáum mánuðum. Sá fyrrv. ráðh. sagði: „Ég vil fá að sjá fjárlagadæmið allt, áður en ég tek nokkra afstöðu til svona mála.“

Meginafstaða okkar Alþfl.-manna er sú, að við neitum ekki, — við viðurkennum, að það er við margvíslegan og mjög mikinn vanda að etja í efnahagsmálum Íslendinga. Það höfum við alltaf sagt og segjum enn. En við neitum því að samþykkja álögur eftir álögur, sem nú koma frá hæstv. ríkisstj., án þess að fá að sjá heildarmyndina í öðru en almennum orðum og loforðum, og við teljum alveg fráleitt, að það sé hægt að samþykkja allt það, sem hér hefur komið fram. Við samþykktum ekki aðgerðir varðandi gengislækkun og við getum ekki samþykkt þennan söluskatt. Það hafa ekki verið færð þau rök fram, sem réttlæta þessar aðgerðir, og hvorki við hér á Alþ. né þjóðin höfum fengið að sjá neina tæmandi heildarmynd af því, hvað ríkisstj. ætlar sér að gera í efnahagsmálum, enda efast ég stórlega um, að hún hafi nokkra hugmynd um það sjálf, því að það virtist hafa farið allur tíminn hjá þeim í að semja um eitthvað annað en það, hvernig leysa eigi efnahagsmál í einstökum atriðum.