03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

8. mál, söluskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því, að núv. hæstv. fjmrh. ætlar sér að taka gott „start“ í því að fara eftir þeim heilræðum, sem fyrirrennari hans leiðbeindi honum um, þegar hann tók við starfi, og ef svo heldur fram sem horfir, þá mun honum a.m.k. miklu sæmra heitið skattamálaráðh. en fjmrh.

Það fer ekki hjá því, þegar til umr. er frv. eins og það, sem hér er nú rætt, um hækkun á söluskatti vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs, þá verði manni hugsað til þess, sem átti sér stað á Alþ. fyrir nokkrum mánuðum, þegar verið var að ræða ekki einhliða hækkun söluskatts, heldur breytingu á skattkerfinu, þ.e.a.s. annars vegar hækkun á söluskatti og hins vegar lækkun á hinum beinu sköttum á almenning í landinu. Það er vissulega fróðlegt að fletta upp í þeim umr. sem þá átti sér stað, og margir af hv. þm. þáv. stjórnarandstöðuflokks, Sjálfstfl., tóku þátt í, bæði með löngum og mörgum ræðum. Þar var að sjálfsögðu hæstv. núv. félmrh., sem talsmaður þingflokks Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, núv. hv. 1. þm. Sunnl., hið sunnlenska goð þeirra sjálfstæðismanna, og núv. hæstv. fjmrh., ekki má gleyma honum. Það er vissulega fróðlegt að rifja upp, þótt ekki væri nema örfá orð í sambandi við það, sem þessir hv. og nú sumir hverjir hæstv. þm. sögðu á þessum tíma. Það eru margar bls. ræður hvers og eins þessara hv. þm., sem þeir fluttu, þegar þetta mál var til umr. hér á Alþ.

Núv. hæstv. félmrh., sem hafði a.m.k. í fyrstu orð fyrir þeim stjórnarandstæðingum í Sjálfstfl., talaði langt mál, að vísu merkilegt víða, vildi fá margar upplýsingar. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að bað væri stórvafasamt, hvort nokkur ástæða væri til þess að að hækka söluskatt neitt til þess að koma á móti tekjuþörf ríkissjóðs vegna lækkunar á beinum sköttum, sem átti að breyta með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Hann segir á einum stað í sinni ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil aðeins á þessu stigi halda því fram, að tekjur af aðflutningsgjöldum, af áfengis- og tóbaksverslun, af núgildandi 11% söluskatti, af launaskatti, af tekjuskatti félaga og eignarskatti og öðrum tekjum, umfram fjárlög muni nálgast 3 milljarða, eftir því sem fyrir liggur nú.“

Það er ekkert lítið. Hann segir áfram: „Virðist það raunar vera árátta hjá þessari ríkisstj., að hún má aldrei heyra niðurskurð á útgjöldum ríkisins nefndan. Ef koma einhver ófyrirséð útgjöld, þarf að hækka skattana, þá þarf að ná inn nýjum tekjum. En það virðist ekki hvarfla að hæstv. ríkisstj., að af 30 milljarða kr. fjárl. sé hægt að spara einn einasta eyri.“

Þetta voru orð núv. hæstv. félmrh. Hann víkur síðan að nokkrum leiðum, sem hann telur, að eigi að fara til þess að snúast við þessum vanda. Og fyrsta leiðin hjá honum er að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Önnur leiðin, „sem vissulega kemur til athugunar,“ segir núv. hæstv. félmrh. „áður en farið er að samþykkja stórfelldar nýjar skattaálögur, er matið á, hversu miklar tekjur verða umfram fjárlög svo sem ég rakti hér nokkuð hér áðan.“

Auðvitað á þetta við enn í dag, og það ætti síst að standa á forustuflokknum í núv. ríkisstj., Sjálfstfl., að fletta upp skýrum dæmum og upplýsingum um það, hver staða ríkissjóðs er í dag.

Hæstv. núv. félmrh. lýkur þessari ræðu sinni í þetta skiptið með því að segja, að tekjuskatturinn eigi að lækka meira en frv. gerði ráð fyrir og söluskatturinn hækka miklu minna en þá var ætlað. Menn muna, að þá vildi Sjálfstfl. samþykkja allt að 2 stiga hækkun á söluskatti. Nú var, eins og menn muna, niðurstaðan sú, að það varð 4 stiga hækkun, sem samþ. var, þannig að hafi verið nóg 2 stiga hækkun söluskatts á þessum tíma, þá hefðu átt að nægja til þess, sem nú er, þau 4 stig, sem samþ. voru á þinginu í vetur.

Eins og ég sagði áðan voru fleiri en hæstv. félmrh. úr hópi þeirra sjálfstæðismanna, sem töluðu við þessar umr. Hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, talaði langt mál, þegar þetta var hér á dagskrá, eins og að líkum lætur. Ég get ómögulega stillt mig um að vitna í örfá orð úr ræðu þessa hv. þm., sem hann viðhafði, þegar þessi mál voru rædd hér í vetur. Í löngu máli greindi hann frá nokkurs konar úttekt, sem hann hafði gert á þessu dæmi til þess að glöggva sig á því, hvað þyrfti í raun og veru að vera góður við þáv. ríkisstj. til þess að samþykkja fyrir hana og henni mundi nægja. Og hann lýkur þessari úttekt með því að segja:

„Ég er sannfærður um það, að þegar farið er ofan í þetta dæmi, mun mörgum sýnast, að tekjuaukningin verði meiri,“ — heldur en 9 milljarðar, eins og hann var þá búinn að nefna, — „jafnvel 10–11 milljarðar. En mér þótti vissara að vera í neðri kantinum,“ bætir hann svo við. 10–11 milljarða átti þetta að gefa ríkissjóði þá að mati þeirra sjálfstæðismanna s.l. vetur, 4 stiga hækkun á söluskatti. (Gripið fram í.) Nei, þetta er orðrétt upp úr þingtíðindum og ég segi eins og síðasti hv. ræðumaður, ég vona, að þeir hafi farið þar rétt með og þetta sé rétt. Eða áttu við, að það sé málum blandað hjá hv. þm., sem talaði það? Það má vera. (Gripið fram í.) Hvert stig gaf 900 millj. í vetur að áliti þessa hv. þm. sjálfs, og það er enginn vafi, að það er komið upp í 1000 millj. núna, hafi það mat hans verið rétt þá. Og hann segir svo áfram:

„Það er því nægilegt að samþykkja 2% söluskattshækkun til þess að ná þeim tekjum, sem þarf vegna breytinga á skattakerfinu. Enn eru 2% á ferðinni. Og hann bætir við eins og hæstv. félmrh.: „Það kemur vissulega til álita, hvort þörf er að samþykkja nokkra söluskattshækkun.“ Þannig var staða ríkissjóðs þá að mati þeirra hv. sjálfstæðismanna.

Að lokum ætla ég að víkja örfáum orðum að núv. hæstv. fjmrh. Það var ekki síður margt merkilegt, sem kom fram í ræðu hans við þessar umr. Hæstv. núv. fjmrh. komst að þeirri niðurstöðu, að með þeim breytingum, sem þá átti að gera í sambandi við söluskatt, væri þáv. hæstv. ríkisstj. að ná til sín a.m.k. 1200 millj. kr. meira en nokkur þörf var á við þær aðstæður, sem þá voru að hans mati. En athyglisverðust eru þó orð í niðurlagi þeirrar ræðu, sem núv. hæstv. fjmrh. hélt á þessum tíma, en hann segir þá: „Það getur hver litið í eigin barm, hvað það snertir. Þegar einstaklingurinn telur, að hann hafi í sínum áætlunum ofmetið tekjur sínar, hvað gerir hann þá?“ spyr hann. Og hann svarar sér sjálfur auðvitað: „Þá gerir hann till. til sjálfs sín um sparnað í ákveðnum tilvikum, til þess að láta enda ná saman. Þannig á að fara að í þessu dæmi, og í stað þess að samþykkja vaxandi skattbyrði, í stað þess að halda áfram þeirri eyðslustefnu, sem núv. ríkisstj. hefur haft á stefnuskrá sinni allt frá upphafi, þá leggjum við sjálfstæðismenn til, að lítið verði í eigin barm og við skoðum, hvar eigi að líta á okkar eigið dæmi og ráðast á ríkisbáknið, sem hefur þanist út meira en nokkru sinni fyrr.“

Þetta eru lokaorð í ræðu núv. hæstv. fjmrh., þegar til umr. var hér á Alþ. í vetur frv. um skattkerfisbreytingu. Ég held, að augljóst sé af því, sem hér hefur verið sagt, að snögg sinnaskipti hafi átt sér stað hjá þessum hv. þingmönnum frá því, sem var fyrir nokkrum mánuðum. En þeir um það. Það er þeirra mál.

Hæstv. fjmrh., þ.e.a.s. hinn raunverulegi í núv. ríkisstj., greindi frá því í ræðu sinni áðan, að staða ríkissjóðs væri nú um tæplega 3 milljarðar, sem hún væri neikvæð. (Fjmrh.: Vandi ríkissjóðs.) Vandi ríkissjóðs, leiðréttir hann, og alltaf vil ég hafa það, sem sannara reynist. Vandi ríkissjóðs nú er því sem næst 3 milljarðar. Þeim, sem hlýddu á hæstv. samgrh. hér áðan og bera það saman við orð hæstv. fjmrh., hlýtur að vera ljóst, að það er ekki sama mat þessara tveggja hæstv. ráðh. á stöðu ríkissjóðs, eins og hún blasir við í dag. Annar hæstv. ráðh., fjmrh., segir vandamálið upp á 3 milljarða. Fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. samgrh., segir, að staðan nú hjá ríkissjóði sé ekkert verri en verið hafi á svipuðum tíma á undanförnum árum. Og það vill svo til. af því að hæstv. samgrh. vitnar í fund, sem haldinn var einmitt í hans rn., að í þeim viðræðum, sem fram fóru fyrir stuttu, þegar rætt var um myndun vinstri stjórnar, voru lagðar fram upplýsingar, — upplýsingar um hvað? Jú, upplýsingar um stöðu ríkissjóðs að mati fjmrn., að mati þáv. fjmrh. sjálfs. Og hverjar voru þær? Jú, þar var gert ráð fyrir því í eigin upplýsingum þáv. fjmrh., að hallarekstur á ríkissjóði mundi vera um 400 millj. 11. ágúst s.l. Sé þessi staða nú komin upp í 3 milljarða, þá hefur eitthvað farið úrskeiðis á þeim dögum, sem síðan eru liðnir, og kannske þá fyrst og fremst hjá hinum nýju valdhöfum. Í þessu dæmi þáv. hæstv. fjmrh. var gert ráð fyrir niðurgreiðslum um 400 millj., þ.e.a.s. helmingnum af því, sem nú er. Þar var einnig gert ráð fyrir því, að fjölskyldubætur hækkuðu um 200 millj. frá því, sem þá var. Og það var einnig gert ráð fyrir því, að 5 vísitölustiga hækkun lífeyristrygginga og tiltekinna launa kæmi inn í þetta dæmi, sem næmi 100 millj. kr., og útgjaldahækkun vegna gengisbreytingar var þá áætluð 200 millj. Samtals eru í þessum upplýsingum þáv. fjmrh. sjálfs 900 millj. Síðan kemur tekjuaukning vegna gengisbreytingarinnar, sem Framsfl. talaði þá um, 15%, en er nú orðin 17%. Þá var gengishagnaður áætlaður 500 millj., sem viðurkennt hefur verið, að var allt of lágt áætlað. Það væri a.m.k. 650–700 millj. kr. gengishagnaður, sem hefði komið til ríkissjóðs með 15% gengisfellingu, hvað þá 17%, þannig að hefði þetta dæmi verði tekið á þeirri stundu, sem þessar upplýsingar voru fengnar frá fjmrh. sjálfum, 11. ágúst s.l., þá hefði að réttu ríkissjóður staðið á sléttu miðað við það, að helmingur af niðurgreiðslunum hefði verið látinn halda áfram og tilteknar bætur, fjölskyldubætur og lífeyristryggingar, hefðu líka verið auknar.

Þetta er sú hryggðarmynd, sem núv. stjórnarlið dregur upp af stöðu ríkissjóðs í dag. Þetta er staðreynd, sem ég vænti, að fyrrv. hæstv. fjmrh. neiti ekki að hafa tekið þátt í að láta í té upplýsingar um. Séu þessar upplýsingar, sem ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en séu réttar, þá er hér um vísvitandi blekkingar að ræða af hálfu þess forustuflokks í ríkisstj., sem nú ræður ríkjum. Það er enginn vafi á því, að ég a.m.k. ætla ekki fyrrv. hæstv. fjmrh. það, að hann hafi gert minna úr þessu en efni stóðu til. Hann var ekki þekktur að slíku í sinni fjmrh.- tíð, að gera minna úr erfiðleikum ríkissjóðs heldur en efni stóðu til á hverjum tíma. Ég segi því: Ég trúi því, að þessar upplýsingar fyrrv. fjmrh. séu réttar, og hvað sem nú er sagt af núv. hæstv. fjmrh. og hverjum sem er úr stjórnarliði núv. ríkisstj. umfram það, sem hefur komið fram í þessum upplýsingum núv. hæstv. samgrh., það er rangt, það er verið að ýkja og það stórlega. Í þessu er verið að draga inn í dæmið bæði vandamál Vegasjóðs, vandamál stofnana eins og Pósts og síma og Rafmagnsveitna ríkisins og fleiri slíkra stofnana. Afmarkað ríkissjóðsdæmið stendur eftir þessum upplýsingum svo til á sléttu. Það er því óþarfi að vera að koma fram nú á Alþ. af hendi núv. valdhafa með 2% hækkun á söluskatti til þess að bæta stöðu ríkissjóðs, því að hann er ekki í þeim vanda, sem þeir sjálfir lýsa og básúna út. Enda er vitað mál og þarf ekki að segja neinum, sem fylgist með, að aukning á tekjum af söluskattsstofni vegna gengisfellingarinnar verður mun meiri en hér er gert ráð fyrir. Auk þess er enginn vafi á því, að tekjur af aðflutningsgjöldum koma til með að stórhækka á komandi mánuðum. Þetta virðast núv. valdhafar ekki vilja líta á. Ég er undrandi yfir því, hversu hæstv. ráðh. Framsfl. og þá kannske ekki síst fyrrv. hæstv. fjmrh., þegjandi og svo til hljóðalaust undir þessum útúrsnúningi forustuflokksins í ríkisstj. að því er varðar ríkisfjármálin. Mér þykir það með eindæmum, auk þess sem ráðh. gera þetta, að hv. 4. þm. Reykv., formaður þingflokks Framsfl., skuli steinþegja, þegar hans samstarfsflokkur í ríkisstj. hagræðir á svona herfilegan hátt staðreyndum í málinu.

Af framansögðu þarf vart að taka það fram, að við í SF greiðum atkv. á móti þessu frv. Við teljum það óþarft, eins og mál standa í dag. Það er þegar búið að koma með álögur af hendi hæstv. ríkisstj. langt umfram það, sem þörf var á til þess að bjarga þeim viðurkennda efnahagsvanda, sem allflestir hafa viðurkennt, að var fyrir höndum. Við munum því greiða atkv. á móti því.

Ég ætla að síðustu að spyrja hæstv. ráðh. Sjálfstfl., sem hér eru í þingsal, að því, hvort þeir séu sammála því áliti hæstv. samgrh., að tekjuskattur á Íslandi sé nú lægri en hann hefur nokkurn tíma verið frá upphafi vega. Er þetta sameiginlegt álit hæstv. ríkisstj.? Eru hæstv. ráðh. eða óbreyttir þm. Sjálfstfl. sammála þessari túlkun núv. hæstv. samgrh. um skattamál á Íslandi?