03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

8. mál, söluskattur

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég skil síðasta hv. ræðumann, hv. 4. þm. Reykn., mætavel, að honum þyki þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram frá hálfu hæstv. ríkisstj. varðandi þessa tekjuöflun ríkissjóðs, heldur veigalitlar og hann vilji gjarnan hafa einhvern fyrirvara á um afstöðu sína til þessa máls.

Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum, að hér er um að ræða frv., sem gerir ráð fyrir tiltekinni tekjuöflun fyrir ríkissjóð, og þær einu upplýsingar, sem hafa komið fram, sem í rauninni er eitthvað hægt að styðjast við, eru frá fyrrv. fjmrh. varðandi stöðu ríkissjóðs og að hvaða leyti hann þurfi á auknum tekjum að halda. Hefur komið fram, að sú úttekt, sem sérfræðingar gerðu 12. júlí í sumar, gerði ráð fyrir, að jöfnuður yrði á tekjum og gjöldum ríkissjóðs á árinu. Nokkru síðar bætti fyrrv. fjmrh. við þessa skýrslu nýrri athugun sinni og sérfræðinga sinna í fjmrn. Hann bætti við viðbótarupplýsingum 11. ágúst eða fyrir rétt rúmum hálfum mánuði, og þar staðfesti fjmrh. og sérfræðingar hans, að fyrri úttekt væri rétt og það þyrfti aðeins að athuga um ný útgjöld, sem kynnu að verða lögð á ríkissjóð á þeim mánuðum, sem eftir eru af árinu, og athuga þá um leið þær nýju tekjur, sem ríkissjóður ætti von á í fylgd efnahagsráðstafana.

Það er rétt, sem kom fram í þessum umr. frá hv. 5. þm. Vestf., allar þær tölur, sem hann nefndi í þessum efnum, voru réttar, því að við höfðum blöðin beint frá fyrrv. fjmrh., þar sem hann gerði grein fyrir þessu. Þar komst fyrrv. fjmrh. að þessari niðurstöðu, að með því að gera ráð fyrir, að áfram yrði haldið út árið helmingnum af þeim aukaniðurgreiðslum, sem ákveðnar voru í maí s.l., með því að gera ráð fyrir að auka fjölskyldubætur á þessu ári um 200 millj. kr., sem jafngildir 600 millj. á ársgrundvelli, með því að gera ráð fyrir 5% hækkun á bótum almannatrygginganna til bótaþega og með því einnig að reikna með 200 millj. kr. auknum útgjöldum ríkissjóðs það sem eftir væri af þessu ári vegna gengisbreytingarinnar, þá komst hann að þeirri niðurstöðu, að þá gæti orðið um að ræða halla hjá ríkissjóði á árinu upp á 400 millj. kr. Hann hafði reiknað í þessu dæmi með því, að brúttótekjurnar, sem ríkissjóður hefði af 15% gengislækkun, næmu 500 millj. kr. En það er alveg fullupplýst nú, að þessar tekjur ríkissjóðs verða miklu meiri og auðvitað einnig meiri þegar gengislækkunin hefur orðið meir en þarna var reiknað með. Þessar upplýsingar sérfræðinganna, sem liggja fyrir frá því í júlí og síðan frá miðjum ágúst, benda til þess, að fjárhagsvandi ríkissjóðs, miðað við þau útgjöld, sem okkur er kunnugt um, að eigi að eiga sér stað það, sem eftir er af árinu, sé nálega enginn.

Núv. hæstv. fjmrh. hefur ekki borið sig að því að reyna að hnekkja þessu á nokkurn hátt. Hann bara snýst í kringum hlutina, segir ekki eitt einasta orð um þetta, en segir: Vandamál ríkissjóðs alls er upp á 3 milljarða. — Hvað kemur það þessu máli við? Hér er verið að ræða um tekjur ríkissjóðs og afla ríkissjóði tekna. Við höfum hér frumvörp varðandi önnur vandamál. sem fyrir liggja. Við vitum, að það eru ákveðin vandamál hjá ríkisrafveitunum, og það hefur verið lagt hér fram frv. um að auka tekjur ríkisrafveitnanna. Það er alveg sjálfstætt frv., eins og vera ber, og það er ekki ágreiningur um það, að ég ætla. Við Alþb.- menn höfum lýst yfir fylgi okkar við það frv. í öllum meginatriðum, og er því alveg ástæðulaust að blanda því inn í þetta, enda hefur aldrei heyrst, að það eigi að hækka söluskatt vegna afkomu ríkisrafveitnanna. Slíkt er bara út í bláinn. Þannig er bara verið að vefja fyrir mönnum, það er verið að flækja fyrir mönnum sannindi málsins.

Það liggur líka hér fyrir annað frv., um tekjur Vegasjóðs, og það er auðvitað býsna fróðlegt að íhuga það mál. Fyrr á þessu ári vildi fyrrv. ríkisstj. hækka bensínskattinn um 4 kr. á lítra vegna þarfa Vegasjóðs. En hver var þá afstaða núv. hæstv. fjmrh. og hans flokks? Þeir stóðu gegn þessari tekjuöflun í Vegasjóð. En það var alveg augljóst, að Vegasjóður þurfti á auknum tekjum að halda. En þeir stöðvuðu afgreiðslu þess máls á sínum tíma og drógu þetta auðvitað fram eftir öllu ári. (Gripið fram í: Það er ósatt.) Er það ósatt? Það liggur skjalfest fyrir í þingtíðindum og þýðir ekkert að bera á móti því. Af hverju skyldi málið ekki hafa náð fram að ganga, nema af því að Sjálfstfl. lagðist í götuna, lagðist í veginn. Síðan var rætt um þetta í sambandi við væntanlega myndun vinstri stjórnar, og þá höfðum við fallist á það fyrir okkar leyti að hækka bensínskattinn um 5 kr. á lítra, af því að það hafði dregist langt fram á árið með þessa tekjuöflun. En við töldum, að það ætti alls ekki að fara hærra. En svo þegar núv. ríkisstj. kemur til. þá hækkar hún þetta enn upp í 7 kr. ásamt með verulega aukinni gengislækkun, sem þýðir auðvitað stórum meiri hækkun á bensínverðinu.

Þarna er á ferðinni sérstök till. um auknar tekjur fyrir Vegasjóð, og það á ekki að blanda því á neinn hátt saman við frv. um almennar tekjur ríkissjóðs, þ.e.a.s. um söluskattstekjur ríkissjóðs. Ég tel, að þetta mál komi þannig fyrir þingíð, að það sé alveg augljóst mál, að núv. hæstv. fjmrh. grauti hér öllu saman, hann hræri saman í sínum huga afkomu Vegasjóðs, Rafmagnsveitna ríkisins og ótal annarra sjóða og ríkissjóðs og reynir að rökstyðja frv.-flutning sinn með þessu. Þetta er vitanlega alveg út í hött. Svona er ekki hægt að standa að málum. Ef hæstv. ráðh. ætlar sér að standa á þennan hátt að málum, fer einn þm. frá honum í þessari umr., annar í þeirri næstu og þeir hrynja allir af honum. Menn styðja hann ekki til þess að vinna að framgangi mála á þennan hátt. Það er miklu nær fyrir hæstv. fjmrh., að gera hér skilmerkilega grein fyrir því, hver er fjárhagsstaða ríkissjóðs. Er ástæða til þess að auka tekjur ríkissjóðs? Eins og hér hefur verið bent á, hefur Sjálfstfl. haldið því fram alveg fram til hins síðasta, að tekjur ríkissjóðs væru allt of miklar og ætti að draga úr þeim. En hann stendur nú að því að auka við tekjur ríkissjóðs á ársgrundvelli um í kringum 4 milljarða. 2 milljarðar koma inn af söluskattshækkuninni og aðrir 2 milljarðar koma inn vegna hinnar almennu dýrtíðaraukningar, sem verður með gengislækkuninni. En um leið og gengislækkunin er framkvæmd, hækkar söluskattsgrundvöllurinn almennt, og þá hækka innflutningsgjöldin líka af sjálfu sér.

Svo segir hæstv. fjmrh. nú, að hann hefði viljað vera laus við að flytja þetta frv. Ég held, að hann ætti þá bara að verða við þessari ósk sinni og hætta við þetta frv. En hann segir, að ástæðan til þess, að hann neyðist út í þetta, sé sá arfur, sem ég skilji eftir mig varðandi ríkissjóð. Þorði hann ekki að segja, að þetta væri sá arfur, sem Framsókn hefði skilið eftir sig? Eða má kannske ekki segja það núna Nei. En rétt er nú, að hæstv. ráðh. athugi það, að honum ber skylda til þess að gera hér á skilmerkilegan hátt grein fyrir því, af hverju er verið að fara fram á auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Aðra fjárþörf fyrir ýmsa sjóði og ýmsar framkvæmdir í landinu ber að taka sérstaklega fyrir og gera það þá upp um leið, hversu þær framkvæmdir eiga að fá mikið fé miðað við núverandi aðstæður, hvað á að ráðast þar í mikið og þá hvað þessi vandi er stór í raun og veru.

Ósköp var líka ömurlegt að heyra hæstv. fjmrh. bera sig undan þeim vanda, að það væri erfitt að spara hjá ríkissjóði, þegar væri svona áliðið á árið. Þótt hann gæti fyrir nokkrum mánuðum hugsað sér að spara hjá ríkinu um 3 milljarða, var ósköp erfitt að spara um nokkrar krónur nú, þó að talsvert lifi nú eftir af árinu.

Ég þarf svo ekki að endurtaka það í raun og veru, að það er auðvitað alveg út í bláinn sagt hjá honum að halda því fram, að við, sem tókum þátt í því að reyna að mynda hér nýja vinstri stjórn, mundum hafa samþykkt þetta eða hitt, sem hann er hér að geta sér til um. Það liggur fyrir, hver var afstaða okkar í þeim viðræðum til hækkunar á söluskatti. Það liggur skjalfest fyrir, að við vorum á móti þessari hækkun og léðum aldrei máls á hækkun söluskattsins. En það er rétt, að það komu fram till. um það. Svo hefur sem sagt reynslan sýnt, að það stóð ekki á Sjálfstfl. að hlaupa inn á þessa till. um hækkun á söluskattinum.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar. Málið fer nú í n. og verður athugað bar. En ég legg áherslu á það fyrir mitt leyti, að það séu gefnar hér skilmerkilegar upplýsingar um þörfina á því að auka við tekjur ríkissjóðs, eins og hér er lagt til, þannig að þar verði ekkert undan dregið og ekki reynt að fela það í einhverjum óljósum fullyrðingum, eins og hér hefur verið gert.