04.09.1974
Efri deild: 13. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Frv. þetta skýrir sig sjálft. Í aths. við frv. er þess getið, að aukaþing hafi setið að störfum síðan 18. júlí og ríkisstj. hafi ekki verið mynduð fyrr en 28. ágúst s.l. Af þessu leiðir, að ríkisstj. gefst lítill tími til undirbúnings mála fyrir reglulegt þing, sem lögum samkv. ætti að koma saman 10. okt. n.k. Er hér bæði um að ræða fjárlagafrv. sjálft, sem er 1. mál hvers þings, svo og ýmis önnur lagafrv.

Efni þessa frv. hefur verið rætt við formenn þingflokkanna, og þeir hafa tjáð mér, að þeir muni ekki torvelda afgreiðslu þessa frv., en áskilja sér að sjálfsögðu rétt til þess að greina frá afstöðu sinni til þessarar frestunar á samkomudegi reglulegs Alþingis.

Með tilvísun til þess, að hér er um mjög einfalt mál að ræða, geri ég ekki till. um, að það verði falið sérstakri n. hér í hv. d. til athugunar, nema ósk komi fram um það, en legg til, að því verði vísað til 2. umr.