04.09.1974
Efri deild: 13. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það vakti ótvírætt þjóðarathygli, þegar stefnuyfirlýsing núv. ríkisstj. var birt, hversu loðin hún var í mikilvægum atriðum og þunn í roðinu. Stefna í efnahagsmálum var lítil sem engin mörkuð. Í yfirlýsingunni var getið um ráðstafanir í efnahagsmálum og þá einkum ákveðnar bráðabirgðaráðstafanir, sem svo var orðað, að ekki þyldu neina bið; en ráðstafanirnar sjálfar voru ekki nefndar á nafn. Þá þegar fór menn að gruna, að leynisamningur kynni að hafa verið gerður milli núv. stjórnarflokka um aðgerðir í efnahagsmálum, fyrst og fremst vegna þess, að menn vildu ekki trúa því, að um leið og ríkisstj. var mynduð, hefði ekki verið mörkuð einhver heildarstefna í efnahagsmálum.

Síðan þessi stefnuyfirlýsing var birt, hefur hæstv. ríkisstj. verið að tína úr pússi sínu eitt og eitt mál, sem kastað hefur verið fyrir þingið, án þess að Alþ. fengi jafnframt að vita, hvert yrði heildarsamhengi þessara aðgerða. Fyrst sáum við framan í allmyndarlega gengisfellingu, síðan bættist við 2% söluskattur, sem reyndar var rökstuddur á þann hátt, að fjárhagur Vegasjóðs og Rafmagnsveitna ríkisins gerði þessa skattheimtu óhjákvæmilega, og svo þar á eftir kom í ljós, að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að vekja til lífs og gera að lögum frumvörp um Vegasjóð og Rafmagnsveitur ríkisins og þar með að skattleggja tvívegis út á eitt og sama vandamálið. Bak við þessa tilviljunarkenndu og einkennilegu afgreiðslu mála kann út af fyrir sig að leynast einhver stefna, en ef svo er, ef hún er einhvers staðar á lífi, sú stefna, eins og Búkolla forðum, þá hefur hún enn ekki verið kynnt Alþ. og enn síður þjóðinni. Og nú bætist það sem sagt við, að hæstv. forsrh. ætlar sér ekki aðeins að senda sumarþingið heim, sem út af fyrir sig getur ekki talist óeðlilegt, heldur ætlar hann og ríkisstj. einnig að tryggja sér það, að ráðh. þurfi ekki að sjá framan í hv. alþm. fyrr en í októberlok. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. af þessu tilefni og vænti þess, að hann sjái sér fært að svara þeirri spurningu: Er það rétt, sem fullyrt hefur verið, að gerður hafi verið leynisamningur milli Sjálfstfl. og Framsfl. um stefnu í efnahagsmálum og kjaramálum og aðgerðir til úrlausnar á aðsteðjandi vandamálum? Ef svo er, að einhver slíkur samningur hafi verið gerður, hvenær verður hann þá birtur þingi og þjóð? Eða ef svarið er neikvætt, er þá ríkisstj. enn stefnulaus í efnahags- og kjaramálum?

Ég býst við, að mörgum hv. alþm. muni þykja gott og notalegt að eiga frí fram í byrjun nóv., og ég á einnig von á því, að hæstv. fjmrh. taki því vel að fá gott næði til þess að böggla saman fjárl. En er ekki ljóst öllum hv. þm., að það hlýtur að teljast óviðeigandi að fresta þingfundum fram í nóvemberbyrjun, þegar svo virðist standa á, að verið er að gera umfangsmiklar og örlagaríkar efnahagsaðgerðir, sem Alþ. hefur enn ekki fengið tækifæri til að fjalla um?

Ég vil lýsa því yfir, að ég er andvígur þessu frv. Mér virðist ljóst, að annað hvort hefur verið gerður leynisamningur, sem Alþ. hefur enn ekki fengið að frétta af, ellegar þá að ríkisstj. hefur enn ekki komið sér saman um stefnu í efnahagsmálum. Ég hef spurt, hvort sé hið rétta, og vænti þess að fá hér svar. En hvort heldur sem er, þá er ljóst, að Alþ. á að koma saman á eðlilegum fundartíma, 10. okt. n.k., til þess að ræða um efnahags- og kjaramálin, sem þá verða augljóslega komin í enn frekari brennipunkt en nokkru sinni fyrr. Ef stjórnin reynist þá enn stefnulaus, verður sannarlega mál til þess komið, að Alþ. taki málin í sínar hendur og fái þá tækifæri til þess að lýsa vantrausti sínu á þessari hæstv. ríkisstj. og jafnvel þá að skipta um stjórn, ef þörf krefur að dómi meiri hl. hv. alþm.

Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh., hefur því verið lýst yfir, m.a. af hálfu Alþb., að formlegur framgangur þessa máls verði ekki tafinn og greitt verði fyrir því, að málið fái formlega úrlausn, en jafnframt var gerður fyrirvari á því, að Alþb. mundi gera aths. við þingfrestunina sem slíka. Ég hef nú þegar lýst því yfir, að ég er andvígur þessu frv. og get því ekki talið eðlilegt, að málinu verði ekki vísað til n. Ég tel eðlilegt, að því verði vísað til hv. allshn., og geri það að till. minni, en vil jafnframt lýsa því yfir, að ég mun ekki á nokkurn hátt beita mér fyrir því, að afgreiðsla málsins verði tafin, heldur fá um málið eins skjóta afgreiðslu og hugsast getur.