04.09.1974
Efri deild: 13. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að þetta var rætt í þingflokki Alþfl. og við tókum þá afstöðu, að það væri auðvitað mál hæstv. ríkisstj., með hvaða hætti hún vildi fresta störfum þingsins og komu þess saman að nýju, og við mundum ekki tefja frv., ef fram kæmi í því efni að seinka samkomudegi reglulegs Alþingis fram yfir 10. okt. En í tilefni af því, að nú hafa verið gerðar efnahagsráðstafanir og veruleg gengislækkun er orðin staðreynd, vil ég koma hér með fsp. og raunar ábendingar til hæstv. forsrh., sem ég vil vekja athygli á, að þola enga bið til lausnar.

Gengisskráningin er tekin upp að nýju samkv. nýrri ákvörðun, og öll aðföng til bátaflotans hafa nú þegar hækkað. Hins vegar standa rekstrarlán enn í stað, og því hefur verið svarað af æðstu stjórnvöldum, að ekki væri að vænta úrlausnar á næstunni. Hvað þetta þýðir: á næstunni, veit ég ekki, en ég vil vekja athygli hæstv. forsrh. á því, að þegar síðla árs 1972 voru bátum veittar yfirleitt í upphafi tryggingatímabils eða úthaldstímabils 700–900 þús. kr., og þessi tala er óbreytt í dag sem meginregla, þó að einn og einn geti fengið meira eftir atvikum. Það sjá auðvitað allir í dag, að þetta er orðið gersamlega óraunhæft, að hliðstæð tala hlýtur að liggja um eða yfir 2 millj. kr. Nú hafa olíufélögin séð sig knúin til þess að tilkynna flestum eða öllum útvegsmönnum, að olía verði ekki afhent nema gegn staðgreiðslu, og mikill hluti flotans tekur olíu um borð fyrir 300–600 þús. kr. í einu á hinu nýja gengi. Möguleikar bátaflotans til að fara af stað aftur eru því verri en nokkru sinni áður, nema úr verði bætt snarlega. Þegar Alþ. fer heim og engin sérstök pressa önnur en nöldur í útvegsmönnum liggur fyrir, vildi ég vekja athygli á þessu nú við þetta tækifæri.

Einnig vil ég vekja athygli á því, að Fiskveiðasjóður hefur ekki afgreitt lán, eftir því sem ég best veit, í rúma tvo mánuði, og bíður fjöldi fyrirtækja eftir úrlausn. Það stóð til að halda fund í þessari viku, en hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Það verður mikið á þriðja mánuð. Þetta segir sína sögu, og þess vegna var ég að deila á gengisfellinguna. Það þurfti að leysa margt annað um leið og ekkert síður þegar í stað. Ég benti þá á það úr þessum ræðustól, m.a. lánamálin. Síðan kemur að þessum blessuðum síldarbátum eða loðnubátum, sem hafa verið í Norðursjónum. Allur gengismunurinn nú er hirtur, þeir fá ekki einu sinni niðurgreidda olíu eða hefur ekki verið tekin afstaða til þess enn þá, þó að þeir hafi skapað þann möguleika að greiða stórfé niður með öðrum hluta bátaflotans og togaraflotans, en verða nú að borga allt á háa genginu, en fá afurðaverðið á lága genginu. Í fyrra var dæminu snúið við, þá var gengið hækkað og þá fengu þeir afurðaverðið á háa genginu, en greiddu á lága.

Svona hefur nú verið farið með frjálsan atvinnurekstur í landinu, og alltaf er verið að bjarga þessum mönnum. Hvar endar svona skrípaleikur? Hann endar með því, að öllum er nákvæmlega sama, hvernig þeir reka fyrirtækin. Það skiptir engu máli, því vitlausara því betra, svo að maður tali nú ekki um togarana og skipasmíðina í sambandi við þá. Þar eru gífurlegir erfiðleikar, sem verður að leysa úr, og ég vænti þess að heyra eitthvað um það, hvernig þessi staða er, áður en frv. heldur áfram og við afgreiðum það hér úr deildinni.

Svo er stórmál með saltfiskinn og skreiðina. Það er upplýst, að það er áform hæstv. ríkisstj. að taka og færa á milli innbyrðis í sjávarútveginum, munandi það ekki, að skreiðin var óseljanleg á fjórða ár úr landinu, þó að úr hafi ræst núna. Þeir, sem áttu skreið, voru í gífurlegum vandræðum, og fáir vildu hlusta á þeirra vandamál. Þar hefur blessunarlega ræst úr núna, og það á að hirða það þegar í stað. Ef að líkum lætur, eins og áformað er, og ég svara enn einu sinni við því, þá á að hirða stórfúlgur af saltfiskinum, e.t.v. nokkur hundruð milljóna. Með sama rétti geta þessir framleiðendur marserað austur eða vestur í héruðin og fengið sér þar reiti fyrir sitt starfsfólk til að hvíla sig og þurfa ekki að vera að leggja á sig langan vinnudag til að framleiða það, sem af þeim er hirt af Alþingi Íslendinga og öðrum, — alveg með sama rétti. Þetta er þeirra eign. Og hví skyldi þetta fólk ekki mega hvílast á góðum reit í landi sínu ? Við verðum að gá að því, hvað við erum að fara inn á hér endalaust. Þetta er hrein eignaupptaka með þessum vinnubrögðum, — hrein eignaupptaka. Það, sem þetta fólk vill, er, að það beri sameiginlegar byrðar í þjóðfélaginu. Það er það, sem það vill, en ekki svona millifærslu.

Ég mun ekki tefja framgöngu þessa máls, en ég vildi vekja athygli hæstv. forsrh. á því, að við munum ekki eiga kost á því næstu tvo mánuði eða svo að gagnrýna eitt eða neitt í þjóðfélaginu. Það verður þess vegna síðbúin gagnrýni, þegar öll lög verða komin fram eða frv. mótuð, þegar við fáum færi á því einhvern tíma í nóv. Þá mun sennilega verða búið að ganga frá öllu, þá þarf ekki að fresta hér fundum deilda æ ofan í æ vegna innbyrðis átaka í stjórnarflokkunum og við í stjórnarandstöðunni að mæta það vel, að hægt sér að setja fundi.