04.09.1974
Efri deild: 13. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég get lýst því yfir eins og aðrir ræðumenn hér á undan, að ég mun ekki tefja framgang þessa máls, sem hér er á dagskrá. En ég vil nota þetta tækifæri til þess að átelja mjög harðlega þá aðferð, sem er á höfð um störf þm. og fundarboðun í þessari hv. d. Af kynnum mínum af forsetastörfum veit ég, að hér er ekki um að ræða sök hæstv. forseta d., nema síður sé, hér er um óskir ríkisstj. að ræða, sem eru alger misþyrming á venjulegri fundarboðun. Kl. 10 í morgun hringdi ég niður í Alþ., og þá er mér tjáð, að enginn fundur verði í d. í dag. Kl. hálftólf kemur síðan boð um, að fundur eigi að hefjast kl. 2. Þegar við komum svo til þessa þingfundar, er það fyrsta, sem mætir okkur, frestunarbeiðni undir forustu hæstv. forsrh., frestun á fundinum. Þetta er algjör misþyrming og það þegar í upphafi fundar. Oft hefur það komið fyrir, að einstakir þingflokkar hafi beðið um frestun á máli, sem skyndilega kemur upp, og það er eðlilegt. En að í upphafi venjulegs boðaðs fundartíma skuli vera beðið um frestun á fundi, eru algerlega óhæf vinnubrögð. Varðandi framtíðina vil ég, að ríkisstj. taki þetta til alvarlegrar athugunar, ef um nokkra samvinnu við þd. á að vera að ræða. Ég veit ekki, með hvaða hætti er hægt að innleiða óþarfa andstöðu við ríkisstj., ef ekki er með þessum hætti, og ég vil ekki, að hæstv. forsrh. hafi forustu um slík vinnubrögð. Það er móðgun við þdm.