04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Frsm. (Matthías Bjarnason Sjútvrh.):

Herra forseti. Lög um happdrættislán ríkissjóðs til þess að fullgera Djúpveg voru samþ. 16. maí á s.l. vori, og í þeim segir, að ríkissjóður skuli gefa út til sölu innanlands happdrættisskuldabréf samtals að fjárhæð 80 millj. kr. Í þessum l. var sagt, að bréfin skyldu gefin út fyrir 15. maí 1974 eða degi áður en l. voru samþ. Því er nauðsyn að breyta þessum l., því að það er ætlunin að gefa út bréf til sölu á þessu ári og á næsta ári, og því var þetta frv. flutt. Enn fremur er lagt til, að heimilað verði að skipta bréfunum í allt að þrjá flokka og gefa þau út á lengra tímabili, ef í ljós kemur, að auðveldara reynist að selja þau á þann hátt en ef þau væru gefin út í einu lagi.

N. hefur athugað frv. og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.