04.09.1974
Neðri deild: 15. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason). Herra forseti. Það hefur nú gerst hér, að hv. stjórnarþm. hafa fellt þá brtt., sem fram var borin við 2. umr. þessa máls, þess efnis, að hluti af því tiltekna hækkaða verðlagi á bensíni rynni til þess að leggja varanlegt slitlag á götur í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem þær framkvæmdir eru skammt á veg komnar. Ég harma það mjög, að svo skyldi hafa farið. Ég vil þó enn freista þess að fá á þessu lagfæringu og leyfi mér því að leggja fram ásamt hv. 2. þm. Austf., við 3. umr. málsins skrifl. brtt. þess efnis, að einni krónu af þessari tilteknu fjárhæð verði varið til þess verkefnis, sem hér hefur verið áður um rætt. Þessi till. er skriflega fram borin, og ég óska þess, að forseti leiti afbrigða, til þess að hún megi koma til umr.