05.09.1974
Neðri deild: 16. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Varðandi það mál, sem hér er til umr., vil ég aðeins segja örfá orð.

Það er rétt, sem hæstv. forsrh. greindi hér frá, að þetta var rætt á óformlegan hátt við formenn þingflokka, a.m.k. stjórnarandstöðunnar, að ég hygg. Ég vil taka það sérstaklega fram og greindi honum frá því, að ég hefði talið eðlilegt, að um slíkt mál hefði verið rætt formlega við þingflokksformenn flokkanna.

Varðandi afstöðu mína til þessa er það að segja, að ég hefði talið eðlilegt, eins og mál nú standa, að Alþ. hefði komið saman 10. okt., eins og lög gera ráð fyrir. Það var nefnt hér áðan af hv. 3. þm. Reykv., að mörg stórmál, stórar ákvarðanir a.m.k. liggja í loftinu og eru líkur á, að verði teknar á þeim tíma, sem Alþ. mun ekki sitja að störfum. Ég hefði talið eðlilegt, að alþm. hefði verið gefinn á því kostur að taka þátt í þeim störfum, auk þess sem fyrir reglulegu Alþ. liggja strax í upphafi þau störf að kjósa þn., og reynslan hefur sýnt, að a.m.k. einni þeirra n., sem þar er kjörin, hefur ekki veitt af þeim tíma, sem henni hefur verið ætlaður, þ.e.a.s frá 10. okt. til jólahlés, þ.e. fjvn. Ég held því eða a.m.k. óttast, að þeirri n. gefist ekki tækifæri til að sinna störfum sínum á eðlilegan hátt, miðað við, að þing komi ekki saman fyrr en í lok okt. Ég hefði því talið eðlilegt, að reglulegt Alþ. hefði komið saman a.m.k. 10. okt. og þingið komist á laggirnar. Hefði mönnum sýnst svo, að ekki væri ástæða til, eftir að það hefði gerst, að láta þing sitja, þá hefði mátt fresta því til þess tíma, sem menn hefðu talið eðlilegt, að það kæmi þá aftur saman. En ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta eða tefja umr. Við munum ekki, úr því sem komið er, hafa frekari afskipti af þessu máli, en ég vildi gera grein fyrir afstöðu minni til þess hér og nú.