05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh: og viðskn, hefur tekið frv. þetta til meðferðar. Meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá Nd., en minni hl., Ragnar Arnalds og Jón Árm. Héðinsson, skilar séráliti.

Hæstv. samgrh. hefur gert grein fyrir frv. þessu og er því ekki ástæða til að bæta miklu við. En það er eins með þetta frv. og mörg önnur mál, sem hafa verið afgreidd á þessu þingi og er verið að afgreiða, að það kom fram svipað frv. á síðasta þingi, en dagaði þar uppi.

Þetta frv. miðar að því að bæta hag Vegasjóðs, þannig að hann geti sinnt þeim framkvæmdum, sem áætlaðar eru. Sú regla hefur verið tekin upp að gera vegáætlanir fram í tímann. Slíkum áætlunum fylgja að sjálfsögðu miklir kostir, að áætla vegagerðir fram í tímann. Það hlýtur að vera betra að ná þeim markmiðum, sem reynt er að ná með vegagerð, m.a. stuðla að því, að landið sé allt byggt, og jafna búsetuna í landinu. En það má ekki gerast, að þetta plagg, vegáætlun, sé aðeins loforðalisti, sem ekki er efndur. Ef slík vinnubrögð eru höfð, vekur það falskar vonir meðal fólksins í landinu og hljóta að vera slæm vinnubrögð. Með þessu frv. er verið að stefna að því, að hægt verði að framfylgja vegáætlun, en það hefur því miður ekki tekist alltaf mjög vel. Við hljótum að stefna að því, að hægt sé að framfylgja þessari áætlun og efna þau loforð, sem þar eru gefin.

Með þessu frv. eru lagðar nýjar álögur á bifreiðaeigendur. En þess ber að gæta, að þessar álögur renna beint til viðhalds og nýbygginga í vegakerfinu. Kostnaður hefur farið hækkandi við viðhald og endurbyggingu veganna, og ef ekki er aflað tekna, hlýtur slíkt að koma fram í verri vegum og verða bifreiðaeigendum dýrkeypt í viðhaldi hinna dýru tækja, sem nú eru notuð hér í landinu.

Uppbygging vegakerfisins hefur gengið hægt og sígandi, og það hefur verið sagt, að Íslendingar hafi í raun og veru náð undraverðum árangri í uppbyggingu atvinnulífsins miðað við ófullnægjandi vegakerfi. En með vaxandi þjóðartekjum hljótum við að leggja enn meiri áherslu á uppbyggingu vegakerfisins. Slík uppbygging hefur áhrif á búsetuna í landinu, hún hefur áhríf á nýtingu náttúruauðæfa og lifnaðarhætti manna og lífsform. Þetta frv. á að tryggja það, að sóknin í uppbyggingu veganna stöðvist ekki og er því lífshagsmunamál. Það hefur verið horfið frá því að leggja niður ýmiss konar smágjöld á bifreiðar, þ. á m. þungaskatt af bensínbifreiðum, og í þess stað hefur fyrirhuguð bensínhækkun verið lækkuð um eina kr. Ég lít svo á, að með þessu sé málinu aðeins frestað, þ.e. að leggja niður þessa smáskatta, og verði tekið upp að nýju. Ég vænti þess, að svo verði gert, ekki aðeins á sviði tekna Vegasjóðs, heldur tekna ríkisins almennt, en við hljótum að stefna að því að einfalda tekjuöflunarkerfi ríkisins eins og hægt er.

Að lokum vil ég segja það, að það hefur margt verið rætt og ritað um vegagerð á Íslandi, og ég get ekki stillt mig um að vitna hér, með leyfi hæstv. forseta í grein, sem var skrifuð í norskt tímarit, Samfærdsel og trafik, 1970, en þar segir: „Á Íslandi eru í raun og veru ekki vegir.“ Sem dæmi tekur greinarhöfundur Austurland, sem hefur löngum búið við versta vegakerfi í landinu og vakti því mesta athygli höfundar. Hann segir á þessa leið:

„Milli sjávarþorpa á Austur–Íslandi verður t.d. oft að keyra út af veginum til að komast áfram. Oft er ekki hægt að sjá mun á veginum og landinu umhverfis hann. Þegar ekið er út frá sjávarþorpi, má oft sjá skilti, þar sem varað er við að leggja af stað á öðru en fjórhjóladrifnu farartæki.“

Sem betur fer hefur þetta nú batnað nokkuð, sérstaklega á síðustu árum eða frá því að þessi grein var skrifuð. En það fæst ekki viðunandi ástand í þessum málum og það verður ekki komið á viðunandi ástandi, nema Vegasjóði sé séð fyrir nægum tekjum.