05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég mun greiða atkv. með því frv., sem hér er til umr., en að vísu með hálfum huga. Ekki er það vegna þess, að ég óttast, að vilji landsmanna til að lýsa landinu í ljóðum dvíni við bættar samgöngur, eins og mér skildist á hæstv. samgrh. Ég held satt að segja, að vilji til slíks muni aukast með auknum kynnum af landi og þjóð og einnig viljinn til þess að kynnast landinu í ljóðum, landi, sem við þá sjáum betur og þekkjum betur. Ég fylgi því með hálfum hug vegna þess, að mér þykir æðioft og títt höggvið í sama knérunn, þegar afla þarf aukinna tekna í Vegasjóð.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því, að tekjur Vegasjóðs eru allt of litlar til þess að halda áfram þeim miklu framkvæmdum, sem síðasta ríkisstjórn lagði grundvöll að og ég er heils hugar fylgjandi, ekki síst samgöngubótum á landsbyggðinni, sem eru nánast sjálfsagt réttlætismál og sjálfsögð krafa þeirra, sem landið allt vilja byggja. Ég vara hins vegar við því, að þessi leið sé farin svo sleitulaust sem verið hefur. Mér skilst, að með þeirri hækkun, sem nú verður, og einnig með gengisfellingunni og fleiru verði bensínlítrinn kominn upp í um það bil eða yfir 50 kr. Mun það þykja æðidýrt bensín, a.m.k. í okkar vestræna heimi. Ég hefði gjarnan viljað fá ýmsar upplýsingar, t.d. samanburð á kostnaði á bensínlítra hér og í öðrum löndum. Ég geri mér ekki vonir um, að það liggi fyrir nú, en mér sýnist, að þetta mætti gjarnan skoða.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að drjúgur hluti af stofnkostnaði bifreiða rennur í ríkissjóð. Ég hygg, að það séu um 55%, og ég hef það fyrir satt frá þeim mönnum, sem fróðastir eru á þessu sviði, að það muni vera hærri hundraðshluti, langtum hærri, en tíðkast í okkar nágrannalöndum. Þó hygg ég, að það sé jafnframt óumdeilanlegt, að bifreiðin er meira þarfaþing og nauðsynjahlutur hérna en víðast annars staðar, þar sem samgöngur eru háðari henni en annars staðar er.

Nú er það vitanlega rétt, að góðir vegir eru ein forsenda þess, að bifreiðar sé hægt að nota eins og vera ber. En það verður að vera þarna eitthvert skynsamlegt hlutfall á milli, annars vegar rekstrarkostnaður bifreiðarinnar og þess, sem til veganna er lagt. Menn verða a.m.k. að hafa efni á því að aka þessa vegi. Ég held því, að leggja beri fram upplýsingar um alla tekjuöflun ríkissjóðs og Vegasjóðs af bifreiðum, bæði af stofnkostnaði og af bensíni og öðrum gjöldum, og skoða þetta í heild sinni og athuga, hvort ekki er rétt að breyta þarna e.t.v. um.

Ég geri mér grein fyrir því, að ríkissjóður hefur tekið á sínar herðar greiðslu af þeim lánum, sem til vega hafa verið tekin. En ég vorkenni ríkissjóði ekki að gera það með tilliti til þeirra gífurlegu tekna, sem ríkissjóður hefur af innflutningi bifreiða. Raunar sýnist mér það sjálfsagt og e.t.v. spurning, hvort ekki á að fara í vaxandi mæli einmitt þessa leið, að afla fjár til vegagerðar með lánum, sem ríkissjóður síðan greiði af þeim miklu tekjum, sem hann hefur af bifreiðainnflutningi.

Þetta vildi ég láta koma hér fram. Ég hefði raunar gjarnan viljað, að tími hefði leyft að fá hér fram upplýsingar um rekstrarkostnað bifreiða, en til þess mun ekki vera tími. Ég mun því leggja fram fsp. um slíkt, þegar reglulegt þing kemur saman. Ég tel nauðsynlegt, að þetta sé skoðað.

Þetta vil ég segja, um leið og ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta frv., fyrst og fremst vegna augljósrar þarfar Vegasjóðs fyrir auknar tekjur.