05.09.1974
Efri deild: 17. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hætta mér í að fara út í ljóðagerð eða þess háttar, enda eru hér færari menn til þeirra verka en ég. Það gleður mig stórum, að ég finn það, að ég á eftir síðar að hlusta á fagurt ljóð út af setningu minni í gær. Hefur hún þá náð þeim tilgangi, sem henni var ætlað. Hins vegar held ég, að það muni reynast landsmönnum hér eftir sem hingað til hin mesta nauðsyn að kynnast landi sínu og jafnvel betur en þeir hafa gert, og mun kannske koma til þess með bættri vegagerð og því stóra átaki, sem gert hefur verið í vegagerð á þessu ári, að fleiri landsmenn skoði sitt eigið land, áður en þeir skoða lönd annarra þjóða. Ég álít, að það sé heppileg stefna, og vil gjarnan veita þeirri stefnu lið.

Ég get líka bætt því við, að ég hef, frá því að ég varð þm. fram til þessa og geri ráð fyrir því hér eftir, á meðan ég sit á þingi, fylgt þeirri stefnu að afla fé til vegagerðar alveg án tillits til þess, hverjir hafa verið í ríkisstj. Á öllum 12 viðreisnarstjórnarárunum stóð ég við hlið þáv. vegamálaráðh. um að afla fjár til vegagerðar vegna málsins sjálfs og af engum öðrum ástæðum. En það er líka auðheyrt á öllum hv. þm., og ég gleðst yfir því, að þeir meta fjárþörfina og ástæðuna fyrir því, að fjár sé aflað til þess að bæta úr vegagerð hér á landi, því að það er hin mesta þörf.

Út af þeim þrem atriðum, sem hér hafa komið fram, vil ég segja þetta:

Í fyrsta lagi í sambandi við vegina í kauptúnum og kaupstöðum, að ég er þeim hv. þm. þrem, sem að því hafa vikið, sammála um nauðsyn þess að koma þeim málum í betra horf en nú er. Það ber brýna nauðsyn til þess, að í hinum einstöku þorpum og kauptúnum þessa lands sé komið varanlegu slitlagi á vegi og götur. Hins vegar get ég ekki fylgt þeirri till., sem hér er fram komin, eins og ég gerði grein fyrir í hv. Nd. í gær, vegna fjárþarfar Vegasjóðs, en tel, að að þessu máli þurfi að vinna. Var á s.l. vetri lagt hér fram frv. um ný vegalög, þar sem þetta mál var tekið til nokkurrar meðferðar. Það mál mun verða til meðferðar á næsta þingi, og ég mun reyna að láta undirbúa það eins vel og hægt er og þá hafa þetta atriði í huga.

Í öðru lagi vil ég segja um það, sem hv. 10. landsk. sagði um 12. gr., að ég held, að þar sé um að ræða aðeins það sama og er í núgildandi vegalögum og var ekki talin ástæða til þess að fjalla þar um, enda hefur ekkert verið við því máli hreyft nú og mun ekki verða gert að sinni.

Út af tekjum ríkissjóðs af bifreiðum vil ég segja það, að það hefur verið sú stefna, sem ég hef talað fyrir, að Vegasjóður fengi sérskattana, sem lagðir væru á bifreiðarnar, þ.e. bensínskatt, þungaskatt og innflutningsgjald af bifreiðum. Á síðustu árum hefur verið sérstök fjárveiting á fjárlögum, sem var miðuð við það að vera álíka upphæð og leyfisgjaldið yrði, og enn fremur hefur ríkissjóður tekið að sér að greiða vexti og afborganir af lánum Vegasjóðs, því að að öðrum kosti hefðu vegaframkvæmdir ekki orðið hér neinar á þessu landi, svo að teljandi séu. Þeirri stefnu tel ég að verði að halda áfram og verði að nota lánsmöguleika til þess að byggja upp vegakerfið, því að við eigum svo mikið ógert í þeim efnum. Hins vegar tel ég, að það hljóti að verða hér eftir sem hingað til, að almennar tolltekjur verði að vera tekjur ríkissjóðs, af hvaða vörutegundum sem er, því að það sé svo erfitt að eiga að fara að sundurgreina það, og ef inn á þá braut ætti að fara, mundi það geta haft alvarlegar afleiðingar.

Þetta vildi ég upplýsa í sambandi við þessar umr., en tek svo undir, að ég er hv. þm. þakklátur fyrir það, sem ég reyndar vissi; að almennum skilningi á vegagerð í landinu er að mæta hjá þm., hvar í flokki sem þeir eru.