25.07.1974
Sameinað þing: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, landgræðslu- og gróðurverndaráætlun

Fjmrh (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í sambandi við flutning þess máls, sem hér liggur nú fyrir til fyrri umræðu, vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim nm., sem unnu að því að gera þetta nál., fyrir það mikla starf, sem er á bak við nál. Þegar valið var í þessa nefnd, var það gert með tilliti til þess, að í hana væru valdir hinir hæfustu menn, og einnig með tilliti til þess, að freistað væri að ná algerri samstöðu um málið frá upphafi til endaloka. Hv. nm., sem unnu í milliþn. undir forustu hæstv. fyrrv. forseta Alþingis, Eysteins Jónssonar, hafa skilað þessu verki einróma og með miklum myndarskap. Ég vil einnig við þetta tækifæri þakka hv. form. þingflokkanna fyrir samstarfsvilja þeirra um að standa sem einn maður að flutningi þessa máls á þjóðhátíðarfundi Alþingis á Þingvelli n.k. sunnudag. Ég gleðst yfir því, að um slíkt mál sem þetta skuli vera sameiginlegt álit allra hv. þingmanna að gera það að þjóðhátíðarmáli með myndarbrag, þar sem flm. er raðað með eðlilegum hætti með tilliti til stærðar flokka hér á Alþingi. Ég vil þakka þessum aðilum báðum fyrir meðferð málsins og lýsa sérstakri ánægju minni yfir því.