05.09.1974
Neðri deild: 18. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

8. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það hefur nokkuð verið deilt um það, hvaða ríkisstj. ætti eignarrétt eða höfundarrétt að þessu frv. Að mínu mati er óþarft að deila um það, því að eignarrétturinn eða höfundarrétturinn er alveg ótvíræður vinstri stjórnarinnar. Á síðasta þingi beitti vinstri stjórnin sér fyrir því að fá söluskattinn hækkaðan um 2 stig, um eitt stig í sambandi við tollalækkunina, sem þá var samþ., og um annað stig í sambandi við tekjuskattslækkunina, sem þá var samþ., þannig að söluskattshækkunin yrði þá 5 stig, en hún varð 4 stig. Ég minnist þess sérstaklega í því sambandi, að hv. 5. þm. Vestf. hélt hér mjög skeleggar ræður og taldi, að það væri mikið vantraust á verkalýðshreyfinguna, ef ekki væri fallist á það, sem hún var búin að semja um, að söluskatturinn yrði hækkaður um 5 stig. Það var till. vinstri stjórnarinnar á síðasta þingi, að söluskatturinn yrði hækkaður um 2 stig, og ég segi nú, að illu heilli náði þessi till. ekki fram að ganga, vegna þess að staðan í efnahagsmálunum og sérstaklega í fjármálum ríkisins væri nú allt önnur og miklu betri, ef á þessa hækkun hefði verið fallist þá. En þó er betra að fá þessa hækkun fram nú heldur en aldrei eða þá hækkun, sem fyrir liggur í þessu frv.

Það er kannske óþarft fyrir mig að fara mörgum orðum um þetta frv. og mæla sérstaklega fyrir því, vegna þess að það hefur verið svo vel gert af tveimur hæstv. fjmrh., hæstv. fyrrv. fjmrh. og hæstv. núv. fjmrh. Þó að þeir hafi ekki að öllu leyti notað sambærilegar tölur, hafa þeir eigi að síður komist að sömu niðurstöðunni, og það skiptir höfuðmáli.

Ég skal reyna að gera nokkru nánari grein fyrir þessum tölum hæstv. ráðh. Á þeim fundi, sem haldinn var í fjh.- og viðskn., mættu tveir þeir menn, sem eiga að hafa einna besta vitneskju um þessi mál, Gísli Blöndal og Höskuldur Jónsson, og gáfu upplýsingar um þau samandregið, sem ég skal nú reyna að greina frá.

Ég vík þá fyrst að skýringu hæstv. fyrrv. fjmrh. og hvernig henni ber saman við þær upplýsingar, sem við fengum í fjh.- og viðskn. Munurinn hjá hæstv. fjmrh. liggur sennilega í því, að hæstv. fyrrv. fjmrh., Halldór E. Sigurðsson, ræðir um þessi mál í þrengri merkingu, ef svo má segja, þ.e.a.s. um fjármál ríkisins eins, en hæstv. núv. fjmrh. tekur fleiri atriði inn í sitt dæmi og talar um það, sem embættismennirnir kalla fjárhagsleg vandamál, sem ráða þarf til lykta með sérstökum aðgerðum. Ég ætla þá að víkja fyrst að dæminu eins og það liggur fyrir samkv. því, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. rakti hér, þegar þetta mál var til 1. umr.

Niðurstaða hans varð sú, að áætlun um stöðu ríkissjóðs, eins og hún var 1. sept. s.l., hafði verið þannig, að hún mundi vera nokkurn veginn hallalaus um áramót, ef niður féllu 1. sept. þær niðurgreiðslur, sem tekna voru upp í maí s.l. í sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem þá voru gerðar. Ef þessar niðurgreiðslur væru felldar niður, ætti staða ríkissjóðs að vera nokkurn veginn slétt um áramót. Síðan þetta var gert upp, hefur það komið fram, að útgjöld vegna sjúkratrygginga eru um 134 millj. kr. hærri á þeim tíma ársins, sem liðinn er, heldur en gert var ráð fyrir í uppgjörinu 1. sept., svo að þar kemur fram halli upp á 130 millj., sem hæstv. fyrrv. fjmrh. vissi ekki um, þegar hann gaf þessa skýrslu.

Nú held ég, að öllum komi saman um, að það komi ekki til neinna mála að láta þær niðurgreiðslur, sem teknar voru upp í maí s.l., falla niður, á sama tíma og hér er framkvæmd gengislækkun og vísitölubinding, sem hefur verulega tekjurýrnun í för með sér, enda hefur niðurstaðan orðið sú, að hæstv. núv. ríkisstj., hefur ákveðið, að þessar uppbætur skuli haldast að fullu út þennan mánuð a.m.k. En það þýðir 200 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð, sem engar tekjur eru til að mæta samkv. uppgjörinu, sem ég minntist á frá 1. sept. s.l., miðað við, að það verði slétt útkoma hjá ríkissjóði um áramót. Ég held, að hver sem niðurstaðan verði í þeim samningum milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna, sem fara að hefjast, detti engum í hug, að þessar niðurgreiðslur verði felldar niður með öllu um næstu mánaðamót. Því mundi fylgja svo mikil kjaraskerðing, að ég tel útilokað, ef að því ráði yrði horfið að fella þær alveg niður, að þá næðist samkomulag milli ríkisstj. og launþegasamtakanna. Ég get líka sagt það sem mína persónulegu skoðun, að ég álit alveg fráleitt, ef horfið yrði að því ráði 1. okt. n.k. til viðbótar þeim ráðstöfunum, sem hafa verið gerðar og óneitanlega fylgir nokkur kjaraskerðing, að fella þessar niðurgreiðslur niður að fullu. Það lengsta, sem mér finnst, að væri hægt að ganga, er að lækka þær um helming og mundi þó kannske verða of langt gengið. En það þýddi, ef að því ráði yrði horfið, að þá mundu koma þar fram aukagreiðslur, sem ríkissjóður yrði að taka að sér fyrir mánuðina okt., nóv. og des., sem nema 300 millj. kr. Þegar bætast svo við þær greiðslur, sem þegar hafa verið ákveðnar í sept., kemur þarna fram upphæð upp á 500 millj. kr., og fyrir þeim niðurgreiðslum eru engar tekjur, miðað við það uppgjör, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. gaf um stöðu ríkissjóðs 1. sept., og ekki heldur þeim 130 millj., sem hafa komið fram síðan og eru halli á sjúkratryggingum.

Nú má alveg eins reikna dæmið þannig, og getur vel farið svo, að niðurstaðan verði sú í þeim samningum, sem eru fram undan, að þessar niðurgreiðslur verði alls ekki felldar niður að neinu leyti, og þá kosta þær mánuðina sept.– des. rúmlega 800 millj. kr., sem engar tekjur eru fyrir samkv. yfirliti, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. gaf hér, þegar málið var til 1. umr., vegna þess að hans yfirlit var miðað við það, að þessar greiðslur féllu niður 1. sept., og á þeim grundvelli einum átti ríkissjóður að geta komið út hallalaus um áramótin, þannig að ef reiknað yrði t.d. með óbreyttum niðurgreiðslum frá því, sem verið hefur að undanförnu, og með þeim 130 millj., sem hafa komið fram sem halli á sjúkratryggingunum, til viðbótar því, sem áður var reiknað með, þá er hér kominn halli um áramót hjá ríkissjóði um 930 millj. Hækkun söluskattsins samkv. þessu frv. mundi ekki mæta þessum útgjöldum nema að sáralitlu leyti. Ég hygg, að það sé gert ráð fyrir, að ef þessi söluskattshækkun gengi í gildi um næstu mánaðamót, mundi hún gefa af sér nm 300 millj. kr. á þessu ári og 150 millj. fyrir des. kæmu svo inn á næsta ári. Það mundi ekki verða til þess að bæta nema þriðjung af þessum útgjöldum, ef reiknað væri með, að niðurgreiðslur héldust alveg að fullu.

Ég held, að þegar menn athuga þetta, þá hljóti þeir að sannfærast um, að sú tekjuöflun, sem hér er farið fram á, sé alveg óhjákvæmileg, því að ef hún næði ekki fram að ganga, fylgdi því annaðhvort fyrirsjáanlegur halli, mikill halli á ríkissjóði, ellegar yrði að fella niður að fullu umræddar niðurgreiðslur. Og ég trúi því ekki, að það sé neinn hv. þm. í þessum sal, sem treystir sér til þess, eftir að gengisfellingin hefur verið framkvæmd, eftir að vísitölubinding hefur verið ákveðin um einhvern tíma, að láta það koma til viðbótar að fella niður þessar niðurgreiðslur að fullu og öllu. Ég held, að allir hv. þm., sem athuga þetta mál án pólitískra hleypidóma, hljóti að komast að þeirri niðurstöðu, að það sé óhjákvæmilegt, að þessar niðurgreiðslur haldi áfram að mjög verulegu leyti, því að hvað sem menn segja um niðurborganir á vöruverði, þá er það þó kannske einhver mesta kjarabót fyrir láglaunastéttirnar og fyrir stóru fjölskyldurnar, meiri en nokkur önnur, og stefnir meira til jöfnunar á lífskjörum en nokkur önnur ráðstöfun. Að vísu leggst söluskatturinn nokkuð á neysluvörur almennings, en ekki nema að sáralitlum hluta, því að söluskatturinn nær miklu meira til margra annarra vara, sem gefa af sér meiri tekjur en neysluvörurnar. Aftur á móti koma niðurborganir á neysluvörum eins og landbúnaðarvörum fullkomlega fram sem kjarabót fyrir almenning og sérstaklega fyrir stóru, barnmörgu fjölskyldurnar, sem búa kannske við slæman efnahag. Það er sú besta kjarabót, sem hægt er að hugsa sér fyrir þær. Auk þess hefur þetta verulega þýðingu fyrir landbúnaðinn á þann hátt, að það eykur sölu á landbúnaðarvörum innanlands og kemur í veg fyrir, að við þurfum að flytja þær úr landi og borga með þeim miklar útflutningsuppbætur. Ég held, að allir hljóti að sjá, að það sé miklu skynsamlegra að borga niður vörur innanlands til íslenskra neytenda heldur en vörurnar séu fluttar út og raunverulega komi til niðurborganir, sem erlendir neytendur njóta, en ekki innlendir.

Frá mínu sjónarmiði er í sambandi við þetta frv. raunverulega deilt um það, hvort menn vilja, að einhver hluti þeirra niðurgreiðslna, sem hér um ræðir, haldist eftir 1. okt. eða ekki. Ef menn greiða atkv. á móti þessu frv., eru þeir að greiða atkv. með því, að niðurgreiðslurnar verði stórlega lækkaðar eða jafnvel felldar niður með öllu. Ég treysti mér ekki til að gera það. Ég greiði atkv. með þessu frv. í trausti þess, að það fé, sem hér kemur inn, verði fyrst og fremst notað til niðurborgana og til að bæta þannig kjör þeirra, sem ég álít lakar setta í þjóðfélaginu. Ég álít, að það verði ekki komist hjá því, að ríkisstj. verji meira fé til þess heldur en fæst inn samkv. þessu frv. og það verulega. Ég álít algerlega rangt að vera að tala í sambandi við þessa fjáröflun um fjáröflun til einhverra annarra hluta en niðurborgana, því að þetta fé á að koma fyrst og fremst til þess að tryggja það, að þær haldi áfram. Fjár til annarra framkvæmda verður að afla með öðrum hætti, eins og raunverulega hefur verið gert hér, bæði í sambandi við vegamálin og raforkumálin. (Gripið fram í.) Þetta mál er alveg ótvírætt þannig frá mínu sjónarmiði.

Ég hef gert hér að umtalsefni þá skýrslu, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. gaf og fjallaði um fjármál ríkissjóðs, eins og sérfræðingarnir kalla það, í þröngri merkingu. Hæstv. núv. fjmrh., þegar hann flutti sína ræðu, miðaði ekki við þennan grundvöll. Hann miðaði við það, sem sérfræðingar kalla fjárhagsleg vandamál, sem ráða þarf til lykta með sérstökum aðgerðum. Mér þykir rétt, af því að hann nefndi ákveðnar tölur í því sambandi, að greina frá því, hvernig þær eru fengnar. Þá er rætt fyrst um ríkissjóð í þrengstu merkingu og gert ráð fyrir, að ekki sé búið að ákveða niðurfellingu á niðurgreiðslum og þær verði þá óbreyttar mánuðina sept.– des., en það nemur 800 millj., sem þær mundu kosta. Þessu til viðbótar kemur svo fram sá halli á sjúkratryggingunum, sem ekki var vitað um, þegar það yfirlit var gert, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. vitnaði til, 130 millj., þannig að samkv. þessu kemur fram halli hjá ríkissjóði í þrengstu merkingu upp á 930 millj. kr. Að þessu leyti ber alveg saman tölunum hjá báðum hæstv. fjmrh.

Það, sem hæstv. núv. fjmrh. tekur svo inn í dæmið til viðbótar, þegar rætt er um fjárhagsleg vandamál, sem ráða þarf til lykta með sérstökum aðgerðum, eru í fyrsta lagi fjármál Vegasjóðs, en þar vantar rúmlega milljarð, til þess að hann geti verið nokkurn veginn sléttur á þessu ári. Með því frv., sem nú er verið að fjalla um í Ed., er gert ráð fyrir að afla nokkurra tekna til hans. Þótt það verði ekki verulega á þessu ári, er gert ráð fyrir að reyna að mæta afganginum með lántökum, þannig að hér er um að ræða lántökumál, sem enn er ekki sýnt, hvernig leysist.

Þá koma í öðru lagi málefni rafveitnanna, en reiknað er með, að hallinn á þeim verði 400 millj. á þessu ári. Með því frv., sem var hér til meðferðar í morgun, var reynt að afla nokkurs fjár til að mæta þessum halla, en hvergi nærri nægilega, svo að þar er enn um verulegt óleyst vandamál að ræða. Þessu til viðbótar koma svo mál, sem sérfræðingarnir kalla lánsfjáröflunarvandamál, og þau eru sem nú skal greina. Það er lán vegna þangverksmiðjunnar, sem búið er að ákveða af Alþ., að taka skuli, 150 millj., það er lán til Skeiðsfossvirkjunar, 35 millj., það er lán vegna byggðalínu, sem verður að vísu ekki framkvæmd á þessu ári, 110 millj., og það er lán til sveitarafvæðingar, 60 millj. Samtals gera þessi fjáröflunarvandamál 355 millj. Þegar þetta allt er samandregið í eitt, koma út 2685 millj. eða upp undir 3 milljarða, eins og hæstv. núv. fjmrh. minntist á. En þannig er hans dæmi fengið, og eins og það er uppsett, þá tel ég, að það sé alveg rétt. Hitt er svo annað mál, hvort við ákveðum niðurgreiðslurnar eins miklar og þar er gert ráð fyrir, þær haldist óbreyttar til áramóta. Það getur vel verið, að sú verði niðurstaðan. En þá verður náttúrlega að afla miklu meira fjár en þess, sem fengist með því frv., sem hér liggur fyrir.

Mér finnst rétt að geta þess, að þetta dæmi lítur ekki eins illa út og ætla mætti af þessum tölum, ef menn gera sér grein fyrir fleiri atriðum, því að t.d. á móti þeirri lánsfjárvöntun, sem hér kemur fram, ber að gæta þess, að margir sjóðir safna á þessu ári verulegum fjármunum, sem enn hefur ekki verið ráðstafað nema að takmörkuðu leyti. Það hefur t.d. safnast óeðlilega mikið fjármagn í lífeyrissjóðunum, og þeir geta áreiðanlega hlaupið undir bagga og eiga að hlaupa meira undir bagga í þessum efnum en þeir gera nú. Það má benda á það enn fremur, að hjá Seðlabankanum hefur safnast mikið bundið sparifé, þannig að Seðlabankinn ætti að einhverju leyti að geta hlaupið hér undir bagga. Og síðast, en ekki síst nefni ég það, sem kannske er stærsta atriðið í þessu sambandi, að Seðlabankinn mun safna á þessu ári um 1200 millj. kr. í sjóð vegna svonefndra refsivaxta. Þessari fjárhæð er alveg óráðstafað, svo að ég álít þennan vanda ekki eins mikinn og sumir vilja vera láta. Ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv., að hér er að sumu leyti um bókhaldsmál að ræða. Það er fjárvöntun á þessum stað, en nóg fé til á hinum staðnum, og vandinn er í því fólginn að færa á milli. Það var það, sem vinstri stjórnin gat því miður ekki, en ég vænti, að núv. ríkisstj. geri, þannig að þótt okkar fjárhagsmál séu stór, — ég geri ekki lítið úr því, — þá álít ég, að þau séu ekki stærst í sambandi við lánsfjármálin. Það er nægilegt lánsfé fyrir hendi, bara ef því er dreift á réttan hátt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín öllu fleiri. En ég vil að síðustu endurtaka það, að frá mínu sjónarmiði séð er hér um að ræða, hvort eigi að afla fjár til aukinna niðurborgana umfram það, sem var 20. maí s.l., ellegar hvort á að fella þessar niðurgreiðslur niður. Ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, þá sé ég ekki fram á annað en staða ríkissjóðs sé slík, að það verði að draga mjög verulega úr þessum niðurborgunum. Ef þetta frv. verður hins vegar samþ., fær ríkisstj. miklu meiri möguleika til þess að halda þeim áfram en ella. Og í sambandi við það, hvort þessi söluskattshækkun á að gilda á næsta ári eða ekki, það kemur náttúrlega til athugunar í sambandi við næstu fjárlög. En ég vil aðeins benda á það, að ef t.d. á næsta ári ætti að halda áfram, þótt ekki væri nema helmingnum af þeim niðurborgunum, sem voru ákveðnar til viðbótar í maí s.l. í sambandi við efnahagsráðstafanir, sem voru gerðar þá, þá nemur það 1200 millj. á ársgrundvelli, en ef niðurborganir héldust áfram óbreyttar, þá nemur það 2400 milljónum á ársgrundvelli, þannig að ef menn vilja skapa ríkisstj. eða ríkisvaldinu og þeim viðsemjendum, sem hún ræðir við á næstunni, einhverja möguleika til kjarajöfnunar með atbeina aðgerða ríkissjóðs, þá held ég, að menn a.m.k. við fyrstu athugun vilji ekki fella þennan söluskatt niður á næsta ári, nema þá eitthvað annað liggi fyrir, sem sýni, að hann sé óþarfur.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en meiri hl. fjh.- og viðskn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.