05.09.1974
Neðri deild: 18. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

8. mál, söluskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það vakti nokkra athygli manna við 1. umr. þessa máls hér í hv. d., að svo virtist sem það væru tveir fjmrh., sem fyrir því mæltu. Það var svo ítrekað hér áðan af hv. frsm. n., sem um mál þetta hefur fjallað, hv. 4. þm. Reykv. Raunar var hann ekki frsm. n., sem um málið hafði fjallað, heldur að leitast við að skýra út tvö mismunandi sjónarmið tveggja ráðh. Og menn spyrja sig auðvitað að því, hvernig á því standi, fyrst búið er að mynda ríkisstj., að svo virðist sem hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. geti ekki komið sér saman um það, hvor eigi að tala fyrir þessu máli eða við hvað eigi að miða, út frá hvaða forsendum eigi að ganga, þegar málið er lagt fyrir. Skýringin á þessu er mjög einföld. Þjóðtrúin kennir okkur hana. Hann segir okkur frá því, að ef maður læst snögglega eða skyndilega, þá er hann óvenjulega jarðbundinn, þegar hann vaknar upp aftur sem eilífðarvera. Hann áttar sig ekki strax á því, að hérvistardögum hans sé lokið, og heldur, að hann sé enn eins og venjulegur mennskur maður.

Núv. ríkisstj. hefur ekki setið að völdum nema í um það bil 7 daga. Fyrrv. fjmrh. hæstv. hefur það snögglega látið af embætti, að hann hefur kannske ekki enn þá gert sér fyllilega grein fyrir því, að það er ekki lengur hann, heldur annar maður, sem fer með þetta embætti. Það er sem sagt enn, 7 dögum eftir að hæstv. ríkisstj. tók við völdum, reimt í ríkisstj., og e.t.v. munu þeir reimleikar standa eitthvað eilítið lengur en í dag og í gær.

Þeir atburðir, sem átt hafa sér stað í lok s.l. mánaðar með myndun samsteypustjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. hafa ekki orðið nokkuð lengi í þessu landi, Þar hafa tekið höndum saman tveir stærstu flokkar landsins, þeir flokkar, sem hafa inni að halda flestöll öfl peninga- og fjármagnshyggju hér í þessu landi. Þar sem svo langt er liðið frá því, að þessir tveir flokkar hafa saman unnið, er það svo, að margir hafa gleymt þeirri reynslu, sem af því fékkst, og enn fleiri hafa enga reynslu af því fengið. Má því vera, að menn geri sér ekki fyllilega grein fyrir því nú í upphafi þessa stjórnarsamstarfs, hver reynslan af því muni verða. Menn segja sem svo: Við þekkjum þessa flakka mætavel báða, og þeir eru ekkert svo óskaplegir hvor í sínu lagi. En þjóðtrúin getur enn kennt okkur gamla dæmisögu um, hvað bræðralag þessara tveggja stærstu flokka landsins hefur í för með sér.

Þjóðin hefur búið í landi sínu í 1100 ár og því gefist nægur tími til þess að kynnast landinu og íbúum þess öðrum en þeim, sem teljast til mannfólksins. Meðal þeirra íbúa eru t.d. tvö ágæt dýr, sem við allir þekkjum, kötturinn og tófan. Íslendingar bera engan sérstakan ótta til þessara tveggja dýra, þau eru ekkert mannskæð sitt í hvoru lagi. En lendi þeim saman og ali þau af sér afkvæmi, þá segir þjóðtrúin okkur, að það afkvæmi heiti skuggabaldur og sé einn sá mesti meinvættur, sem á Íslandi hafi verið til. Það er þetta, sem gerst hefur í íslenskum stjórnmálum síðustu dagana. Tveir stærstu flokkar landsins, þeir flokkar, sem inni hafa að halda flestöll peninga- og fjármagnsöfl á Íslandi, hafa gengið í hjónaband og alið afkvæmi. Það afkvæmi er skuggabaldur íslenskra stjórnmála, sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum. Og það er e.t.v. dálítið gaman að geta þess, að ég var í gær að fletta upp í einni ágætri bók, sem heitir Íslenskir þjóðhættir, eftir Jónas frá Hrafnagili, og rakst þar á setningu, sem lýsir vel þessu afkvæmi. Það á einmitt vel við, að vitnað sé til hennar undir því máli, sem hér er til umr., sem er frv. til l. um söluskatt, er hækkar söluskatt um 2 stig og tekur af almenningi í landinu 2000 millj. kr. á ársgrundvelli. En þar er þessum skuggabaldri úr hinni íslensku b:jóðtrú lýst svo: „Öll eru þessi kvikindi lítt vinnandi og leggjast eins og stefnuvargar á fé manna.“ Á 7 dögum hefur þessi ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. lagst á fé manna þannig, að sú ríkisstj. er að flytja til 7 milljarða kr. a.m.k. úr vösum almennings yfir í ríkishítina og til fyrirtækja, og ef það er ekki að leggjast eins og stefnuvargur á fé manna, þá veit ég ekki, hvernig þau orð á að túlka.

Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði í umr. í þessari d. fyrir nokkrum dögum, að sú ríkisstj., sem við hefði tekið, væri stjórn forstjóranna, en ekki fólksins. Það er rétt. Það eru mattadorarnir meðal íslenskra fjármagnshyggjumanna, sem halda nú um stjórnvölinn. Álögurnar á almenning bera þess vitni.

Um það mál. sem hér er til umr., frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt, vil ég segja það, að mér finnst það ekki nógu skýrt hafa komið fram í þeim rökstuðningi, sem hér hefur verið færður fyrir þessu máli af hálfu stjórnarliða, að annars vegar er rætt um að hækka skatt, sem hlýtur að vera til frambúðar, og hins vegar er rætt um tímabundinn vanda ríkissjóðs. Sagt er, að hækka þurfi söluskatt um 2 stig til þess að mæta tímabundnum fjárskorti ríkissjóðs og ýmissa opinberra stofnana. En hvert mannsbarn á Íslandi veit, að þegar búið er að hækka skatt, verður sá skattur ekki niður felldur, og hvert mannsbarn á Íslandi veit, að þessi rökstuðningur stjórnarflokkanna á ekki við um þetta mál, vegna þess að við skulum vonast til þess, að á þessu og e.t.v. næsta ári verði hægt að leysa fjárhagsvandkvæði ríkissjóðs og annarra opinberra sjóða, sem notuð eru til rökstuðnings fyrir þessu máli, en eftir stendur þá enn 2 stiga hækkun á söluskatti, sem hér er verið að afráða. Spurningin er því ekki sú að bera saman annars vegar þær tekjur, sem söluskattshækkun um 2 stig gefur ríkissjóði á yfirstandandi ári og e.t.v. því næsta, og hins vegar þann fjárskort, sem ríkissjóður á í nú og næsta ár. Fjárskortinn verður að leysa, hann verður leystur, en söluskatturinn kemur til með að standa lengur, hann kemur ekki til með að standa bara árið 1974 og árið 1975, heldur til frambúðar. Ég vil vekja athygli á því, að til þess er ætlast af stjórnarflokkunum, að hann geri það, því að ella hefðu þeir látið fylgja með þessu frv. sínu yfirlýsingu frá ríkisstj. um, að söluskattshækkunin yrði afnumin annaðhvort í árslok 1974 eða árslok 1975.

Það er vissulega skylda þm. að sjá nauðsynlegum framkvæmdum fyrir fé. En þeim ber ekki síður að gæta þess að ofbjóða ekki gjaldþoli þegnanna og að mismuna ekki mönnum gagnvart sköttum. Ég hef þá trú, að þannig sé komið á Íslandi nú, að ekki sé langt í það, að búið verði að spenna bogann í skattamálum eins hátt og unnt er, og ég held, að enginn hv. þm. efist um, að mikils misréttis gætir í skattalöggjöf Íslendinga í dag. En það er ekki um það rætt að lagfæra þetta misrétti í sáttmála núv. stjórnarflokka. Það eru ekki lagðar fram till. hér á Alþ. um að bæta úr þessum misrétti. Nei, það eru lagðar fram till. hér á Alþ. um að auka á það með því að hækka neysluskatta á öllum almenningi um 2 stig, án þess að nokkuð sé sýnt, sem eigi að koma þar á móti.

Það er orðið nauðsynlegt að gera kerfisbreytingu á íslenskri skattalöggjöf. Alþfl. hefur flutt till. um, að það eigi að gera. En svona afgreiðsla eins og á að afráða hér í dag getur spillt stórkostlega fyrir því, að þessi endurskoðun verði upp tekin og hún leiði til einhverrar niðurstöðu. Eftir því sem við göngum lengra á þeirri braut, sem verið er að ganga nú, þeim mun erfiðara verður að stiga spor til baka.

Það er auðvitað ljóst mál, að það verða seint tíndar til allar þær framkvæmdur, sem vinna þarf á Íslandi. Við búum í stóru landi. þar sem mikið á eftir að gera, og sjálfsagt getum við öll tínt til fjölmargar framkvæmdir, sem við getum öll orðið sammála um, að nauðsynlega þyrfti að fá fé til. Spurningin er því ekki sú, hvort það sé framkvæmdaþörfin, sem eigi að ráða skatthæð í landinu. Spurningin er sú að velja og hafna. Spurningin er sú, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, þm. á Alþ., að við erum ekki að ráðstafa okkar eigin fé, við erum að ráðstafa fé þjóðarinnar. Hver króna, sem héðan fer, er sótt í vasa fólksins, og það er ábyrgðarhluti af okkur, þó að illa horfi, — ég viðurkenni vissulega, að það horfir illa í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar, — að svara því með því einu að leita ofan í vasa almennings og tina þar upp fleiri krónur.

Það liggur ljóst fyrir, að launþegar í landinu eru á móti þessari aðgerð, sem hér er lögð til af hálfu stjórnarflokkanna. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar hefur komið skýrt í ljós. Hún þolir það ekki þegjandi, að ríkisstj. án nokkurs samráðs eða samtala við hana hafi 7 milljarða á ári af almenningi og ráðstafi því eftir eigin geðþótta, enda hefur verkalýðshreyfingin eða miðstjórn Alþýðusambandsins nú skorað á aðildarfélög sín að segja upp samningum, og horfur eru á því, að illdeilur geti tekist á vinnumarkaði e.t.v. í vetur.

Einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. sagði við mig, skömmu eftir að þessi stjórn var mynduð, að eitt af því, sem styrkti hana hvað mest, væri það, hvað hún hefði öflugan þingmeirihl., stjórnarþm. gætu leyft sér þann munað að sprikla í einstökum málum eins og hann sagði.

Nú vill svo til, að meðal stuðningsmanna núv. stjórnarflokka eru nokkrir hv. alþm., sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir verkalýðshreyfinguna í þessu landi, sem er nú að hefja undirbúning að varnaraðgerðum gegn áformum hæstv. ríkisstj. Þeir standa öðrum fæti í jötu íhaldsstjórnarinnar, en hinum fætinum í verkalýðshreyfingunni. Það væri forvitnilegt að fá að víta, hvort þessir hv. þm., t.d. þeir hv. þm. Pétur Sigurðsson, sem ekki hefur sést hér á fundum í þessari hv. d. nú um nokkuð langt skeið, og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sem hér er viðstaddur, hafi í hyggju að nota sér spriklleyfið og með hvorum fætinum þessir hv. þm. ætla að sprikla, þeim, sem þeir standa með í jötu íhaldsstjórnarinnar, eða hinum, sem launafólkið í landinu hefur hlaðið undir þá.

Ég þarf svo ekki að taka það fram, að þm. Alþfl. hér í þessari d. munu greiða atkv. gegn því frv., sem hér er lagt fram.