05.09.1974
Neðri deild: 18. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

8. mál, söluskattur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja þessar umr. neitt að ráði. Við 1. umr. þessa máls gerði hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, mjög glögga grein fyrir viðhorfi okkar Alþb.-manna til málsins, og ég get í verulegum atriðum vísað til þess, sem þar kom fram. En þar sem ég ásamt hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni, hef orðið fyrir þeirri lífsreynslu þessa síðustu daga að sitja í þn., þ.e.a.s. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., þar sem 4 hæstv. ráðh. skipa meiri hl., auk sendisveins þeirra, hv. 4. þm. Reykv., en að honum vík ég kannske nokkrum orðum síðar, þótti mér hlýða að segja hér fáein orð um þetta mál, enda þótt hv. 5. þm. Vestf. hafi þegar gert ljósa og glögga grein fyrir nál. okkar og því, sem þar liggur að baki.

Ég hef ekki lagt það í vana minn að skýra ítarlega frá umr., sem fara fram í þn., sem ég á sæti í, enda mun ég ekki gera það að þessu sinni frekar venju. En ég held, að það sé ekkert ofsagt, að þegar við hv. 5. þm. Vestf. sátum í þessari afar virðulegu n. og vorum að spyrja um eitt og annað, þá hafi farið þannig, að ekki aðeins okkur, heldur hinum nm. líka hafi fundist sem allt yrði í þeim mun meiri þoku sem við spurðum fleiri spurninga og fengum fleiri svör. Þokan varð því þéttari sem fleiri ráðh. töluðu, því að það var eins og allt rækist þar á annað horn. Þetta er hv. þdm. hér e.t.v. dálítið kunnugt af því, sem hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. hafa sagt í sambandi við þetta mál, og í sambandi við heildarmyndina af fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Ég hygg, að á nefndarfundinum hafi hv. 4. þm. Reykv. ekki verið í neitt minni þoku en við aðrir í sambandi við það, hver væri hin áætlaða fjárhagsniðurstaða ríkissjóðs. Ég heyrði það á máli hans hér áðan, að hann hefur gert mjög virðingarverða tilraun til þess að komast út úr þokunni, enda þótt mér sýndist, að eftir því sem hann nefndi fleiri tölur, væri lengra frá því, að honum hefði tekist það enn.

Það, sem við vorum að spyrja um í þessari afar virðulegu ráðherranefnd, var í fyrsta lagi þetta: Liggur fyrir áætlun um afkomu ríkissjóðs á þessu ári að óbreyttum lögum og óbreyttum ákvörðunum?

2. Hverjar eru fyrirætlanir hæstv. ríkisstj., sem koma til með að breyta stöðu ríkissjóðs á þessu ári til hækkunar eða lækkunar frá því, sem áætla má út frá þeim lögum, sem í gildi eru?

3. Ef þarna vantar á, sem kann að vera, er þá skynsamlegt út af fyrir sig að hækka söluskatt í því skyni að rétta við fjárhag ríkissjóðs á þessu ári? Hvað er það mikið, sem 2 söluskattsstig gefa á þessu ári?

Hæstv. núv. fjmrh. gaf þær upplýsingar, sem ég hygg, að séu alveg réttar, að miðað við það, að þetta frv. verði samþ. og söluskattur innheimtur samkv. því frá 1. okt., þá gefi þessi 2 stig 270 eða í mesta lagi 300 millj. í ríkiskassann á þessu ári. Nú dettur engum manni í hug, að þetta sé hin skynsamlega leið, ef ekki á að halda áfram að innheimta þennan söluskatt, enda er það upplýst og ljóst, að sú er ætlunin. Þess vegna stöndum við í rauninni frammi fyrir því, að það er verið að lögfesta þessa söluskattshækkun til frambúðar, það er verið að leggja á sem svarar tveimur milljörðum miðað við ársgrunvöll. Þetta er vitanlega skattur til frambúðar, og þess vegna má í rauninni segja, að öll þessi miklu ræðuhöld um, að þessi aðgerð eigi að rétta svo og svo mikið við fjárhag ríkissjóðs á þessu ári, séu dálítið út í hött.

Það, sem hæstv. núv. fjmrh. gaf okkur upplýsingar um, og það, sem hann byggði það á, að það vantaði í rauninni 3000 eða allt að því 3000 millj. í sambandi við ríkissjóð og ríkisstofnanir, það voru að ýmsu leyti fróðlegar tölur. En það verður að gera, eins og þegar hefur í raun og veru verið gert, vissar aths. við þær tölur og við það, að það sé á nokkurn hátt hægt að rökstyðja, að söluskattshækkunin nú eigi að koma þarna á móti.

Það eru í fyrsta lagi 800 millj. kr. niðurgreiðslur til áramóta. Það er e.t.v. fyrst og fremst þessi tala, sem gæti réttlætt það, að aflað yrði viðbótarfjár í ríkissjóðinn. Við höfum margspurt: Er þá tekin ákvörðun um það. að þessar niðurgreiðslur skuli haldast óbreyttar til áramóta? Nei, svörin eru raunar þau, að það hafi ekki verið gert, það hafi komið til tals að halda eins og helmingnum af þessum niðurgreiðslum, en þó er það ekki heldur ákveðið. Það er sem sagt engin ákvörðun um þetta tekin. Við hefðum vissulega verið til viðtals um það, hvort þyrfti að afla einhverra sérstakra tekna til þess að halda þessum niðurgreiðslum áfram og hvort það væri þá ekki um að ræða aðrar leiðir og við hefðum verið til með að benda þá á aðrar tekjuöflunarleiðir, ef þess hefði verið þörf, í sambandi við ákvörðun af slíku tagi.

Þá er verið að ræða um það, að því er okkur var tjáð af hæstv. fjmrh., og liggur fyrir, eins og marglýst hefur verið, að Vegasjóð vantar allverulegt fé. En á sama tíma og verið er að flytja þetta frv. er verið að afla sérstakra tekna til Vegasjóðs.

Síðan eru, eins og hv. 4. þm. Reykv. gerði hér grein fyrir í þessari upptalningu ýmsar stofnanir, — ekki ríkissjóður, heldur ríkisfyrirtæki og framkvæmdir í tengslum við ríkisfyrirtæki, sem skortir rekstrarfé, og er m.a. talað um Rafmagnsveitur ríkisins, það er talað um þangverksmiðju á Reykhólum, það er talað um Skeiðsfossvirkjun, það er talað um byggðalínu norður, sem að vísu vantar, skilst mér, fé á næsta ári, og það er talað um fé til sveitarafvæðingar. En þegar spurt er: Er ætlunin að greiða þessa fjárvöntun af fé ríkissjóðs á þessu ári? Þá er því svarað til, að það sé ekki ætlunin. Það sé ætlunin að afla fjár til flestra eða allra þessara hluta með öðru móti, þannig að það hefur ekki tekist að fá greitt fram úr þessari þoku. Það hefur ekki tekist enn að fá svarað þessum spurningum, hver er áætlunin í dag um afkomu ríkissjóðs í árslok að óbreyttum lögum, og ákvörðunum um hverjar eru fyrirætlanir ríkisstj., sem breyta þeim niðurstöðum. Þetta þarf vitanlega að liggja fyrir, áður en ákvörðun er tekin sérstaklega um slíkan frambúðarskatt, slíka frambúðarálagningu á landslýðinn eins og 2 stiga hækkun á söluskatti til frambúðar.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum að því að rekja það, hversu nú er breytt hljóðið í þeim hv. sjálfstæðismönnum, t.a.m. hæstv. fjmrh., frá því, sem var s.l. vetur, þegar hér var deilt mjög hart um 4–5 stiga hækkun á söluskatti og tilsvarandi lækkun á tekjuskatti. Þá held ég, að bæði hæstv. núv. fjmrh. og ýmsir aðrir talsmenn Sjálfstfl. hafi haldið því fram, að það væri ákaflega auðvelt að skera fjárl. niður um svo sem þrjá milljarða og í rauninni þyrfti ekki neina söluskattshækkun til þess að mæta þessari tekjuskattslækkun. Þeir vildu lækka tekjuskattinn um nokkra milljarða í viðbót. ef ég man rétt, a.m.k. tvo, og þá kom til mála að hækka e.t.v. söluskattinn um eins og 2 stig. Nú muna menn, að söluskattur var hækkaður um 4 stig, og það þótti þeim hv. sjálfstæðismönnum allt of mikið. En nú telja þeir hina mestu nauðsyn á því að hækka hann enn um 2 stig, tala um, að það sé í sambandi við afkomu ríkissjóðs á þessu ári, viðurkenna þó, að þessi hækkun gefur ekki meira en svo sem 270 millj. í ríkiskassann á þessu ári, og viðurkenna. að það sé verið að leggja þennan skatt á til frambúðar.

Að síðustu vil ég aðeins segja nokkur orð við gamlan og nýjan vin minn, hv. 4. þm. Reykv. Þegar maður lítur á það ágæta nál., sem hinn virðulegi nefndarmeirihl. sendir frá sér, þá sést, að það er ekki ákaflega mikið af röksemdum í nál., en nöfnin eru hins vegar stór og myndarleg. Það er Vilhjálmur Hjálmarsson, það er Matthías Bjarnason, það er Matthías Á. Mathiesen, það er Gunnar Thoroddsen, sem skrifa undir, og auk þess Þórarinn Þórarinsson, og hann fær heiðurinn af því að vera frsm. og koma með allar röksemdirnar.

Hv. 4. þm. Reykv. virðist annaðhvort hafa sjálfur valíð sér það hlutskipti nú eftir stjórnarskiptin eða tekið við því samkv. fyrirmælum einhverra annarra að vera eins konar hlaupadrengur eða sendisveinn fyrir hina nýju stjórnarherra. Og ég verð að segja það, að honum hefur ekki einu sinni, svo að mér sé kunnugt um, verið séð fyrir reiðhjóli, hvað þá heldur skellinöðru, til þess að framkvæma öll þessi hlaup nú, þegar hann er að verða sextugur. Ég verð að segja honum það, að ég hefði vel getað unnt þessum gamla og nýja vini mínum annað og betra hlutskipti á þessum tímamótum heldur en gerast slíkur sendisveinn fyrir Sjálfstfl.